Hann stráði kringum sig ljósgeislunum

Þriggja tommu naglarnir kláruðust í gær og ég hefði svo gjarnan viljað hafa eina tíu í viðbót því að þá hefði ég getað lokið einum smá áfanga. Svo var ekkert við því að gera og ég hugsaði mér að kaupa nagla í dag. Samt fór ég út í geymslu og sótti lítinn pappakassa með helling af samansafni af ýmis konar nöglum sem voru bognir og ónothæfir eins og þeir voru í kassanum. Svo ákváðum við í morgun að fara ekki í búð í dag en í staðinn fór ég í litla pappakassan og sorteradi úr honum slatta af bognum þriggja tommu nöglum. Svo hugsaði ég -skal eða skal ekki.
 
Svo ákvað ég "skal" og settist niður með slaghamar og hamar á tröppu fyrir framan mig. Svo tók ég þriggja tommurnar sem ég hafði sorterað úr pappakassanum og rétti þær nægjanlega mikið til að þær gilda sem góðir naglar fyrir mann sem hefur nokkurn veginn tök á hamri. Hálftíma var ég að þessu og þá datt mér í hug að vigta afraksturinn. Tæpt hálft kíló. Það kom mér á óvart. Ég veit að ég verð ekki ríkur af þessu og ég veit líka að ríkasti maður í Sviss hefði ekki orðið ríkur ef hann hefði setið löngum stundum við að rétta nagla. En mér fannst svolítil dyggð í að gera þetta í stað þess að henda öllu saman og þar að auki var þessi stund góð stund til íhugunar. Síðan ætlaði ég út og negla þessa tíu nagla sem vantaði í gær.
 
Þegar ég var að enda við að naglaréttinguna hringdi síminn og ég merkti á Valdísi að þarna hafði hringt einhver sem hún átti alls ekki von á að mundi hringja. Ég heyrði líka á Valdísi að sá sem hringdi ætlaði að koma í heimsókn. Nú gerðist ég forvitinn. Þegar samtalinu lauk gat ég ekki leynt forvitni minni og spurði hver þetta hefði verið. Það var Nils-Erik svaraði hún og hann ætlar að koma í heimsókn klukkan hálf þrjú. Jahérnanahér! Þetta var mikið, mikið gaman að heyra.
 
Nils-Erik er nefnilega fyrrverandi presturinn okkar í Örebro og er nú 75 ára ellilífeyrisþegi og býr í Uppsala. Samt er hann að leysa af í gömlu kirkjunni sinni í Örebro um nokkurra mánaða skeið. Ég steinhætti við að negla naglana tíu og við undirbjuggum svolítið þessa heimsókn. Svo kom Nils-Erik aðeins fyrir klukkan hálf þrjú og þessi hógværi en glaðværi og ákveðni maður hreinlega bara stráði kringum sig ljósgeislunum þegar hann kom inn í húsið. Hann furðaði sig kannski svolítið á því hvernig við hefðum hafnað hérna en þegar hann var búinn að fá skýringar á því var hann ekki lengur undrandi. Hann skildi okkur vel og honum virtist líða vel á Sólvöllum. Svo leið einn og hálfur tími allt of fljótt og gamli presturinn okkar kvaddi og fór og eftir skildi hann hluta af ljósgeislunum sem fylgdu honum.
 
Þar með var komið að næsta atriði, söngæfingu í Krekklingekirkju. Ég fór með Valdísi þangað og dundaði mér svo í einn klukkutíma meðan hún var á æfingunni. Svo var komið að tónleikum í tilefni aðventunnar. Kirkjan var hreinlega troðfull af fólki og samt voru allir söngvarnir trúarlegir eða tengdust jólum eða hvort tveggja. Hvernig gat staðið á þessu í allri umræðunni um fækkun í sænsku kirkjunni og hreinlega andúð margra á tilvist hennar. Meðan ég sat þarna undir kórsöng komst ég að þeirri niðurstöðu að kannski væri það allt saman bara í nefinu á fólki. En hvað um það, kirkjan var troðfull og vissir nágrannar sátu þar á næstu bekkjum. Svo leið einn og hálfur tími allt of fljótt í annað skiptið á þessum laugardegi.
 
Þarna í kirkjunni sá ég eina af dætrum Hríseyjar mitt í hópi kórfólks sem velur sér þennan vetvang sem tilgang í lífinu. Hún leit vel út, frískleg var hún, glaðleg og í essinu sínu. Þetta hefur verið góður dagur hjá okkur báðum. Hún situr nú frammi í dagstofu og hlustar á söngleik í sjónvarpinu. Ég held að hún sé ennþá í essinu sínu þessi Hríseyjarættaða kona. Frostið er um tíu stig en eldurinn leikur sér í kamínunni og stráir hitageislum sínum um húsið þar sem þeir blandast ljósgeislunum sem gamli presturinn okkar skildi eftir hjá okkur.
 
Krekklingekirkja


Kommentarer
Björkin.

Knús á ykkur frá okkur í Garðabæ.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2012-12-02 @ 00:59:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0