Að biðja í Jesú nafni

Að morgni nýársdags kom ég heim frá vinnu og hafði ég þá lokið fjögurra mánaða löngu tímabili í fullri vinnu. Mjög fljótlega eftir það byrjaði ég vinnu hér heima, vinnu sem ég hafði lagt til hliðar meðan ég vann þessa mánuði í Vornesi. Það var að setja upp gluggaáfellur, gerefti, sólbekki og svo að sparsla þetta allt saman og mála. Mér þótti þetta skemmtilegt verk sem gekk mjög vel og var mjög langt kominn með það um miðjan febrúar þegar ég lagðist í inflúensu. Ég fékk háan hita í fáeina daga og svo var ég nokkrar vikur að ná heilsu aftur. Daginn sem ég fyllti sjötíu ár, þann 13. apríl, vaknaði ég sem nýr maður hvað alla líkamsburði áhrærði. Það voru fyrir mig algjör þáttaskil.
 
Fyrir Valdísi voru það engin þáttaskil þennan dag. Henni hafði verið þungt all lengi og henni var ráðlagt að hreyfa sig. Við töluðum um þessi þyngsli hér heima en hún sagði að það væri bara þetta venjulega vetrarkvef sem hún hefði fengið undanfarin ár, þó misjafnlega þungt. Að þessu sinni var það ekki svo mikið kvef, heldur þyngsli. Ég var mjög kvíðinn ef hún skyldi fá inflúensuna ofan í þetta, hvernig henni mundi þá reiða af. En hún slapp. Þann 27. mars var hún hjá heimilislækninum sínum og hann ráðlagði henni að fara í röntgenmyndatöku. Svo gerði hún þann 3. apríl. Við vorum að koma heim eftir myndatökuna, vorum bara í dyrunum þegar heimilislæknirinn hringdi og sagði Valdísi að það hefði sést blettur í öðru lunganu og hann mundi senda hana í sneiðmyndatöku. Við þessa frétt var okkur brugðið en einhvern veginn tókst að trúa á það besta, alla vega löngum stundum, og ég verð að segja að mér fannst útlit Valdísar ekki þess eðlis að um væri að ræða neina bráða hættu. Samt sló sú hugsun mig alltaf öðru hvoru, sérstaklega á nóttunni þegar ég vaknaði og fannst andardráttur hennar ekki eðlilegur.
 
Meðan Valdís beið eftir sneiðmyndatökunni fékk hún kvef og það settist í lungun. Það fóru að heyrast vaxandi hrygluhljóð þegar hún svaf. Ég horfði oft á hana í laumi en gat ekki með nokkru móti látið mér detta í hug að það væri nokkuð alverlegt á ferðinni. En þó, það var erfitt að vera viss. Kvefið versnaði og mér fannst sem ekki gæti allt verið með felldu. Þeim fjölgaði nóttunum sem ég vaknaði og hlustaði á svefnhljóðin sem bara virtust boða vá. Mikið var ég þó feginn að hún gat yfirleitt sofið. Að það hefði sést blettur í lunga fannst mér misjafnlega alvarlegt og margar sögur voru sagðar af því að fólk hefði greinst með blett í lunga, en svo hefði það ekki orðið neitt meira. Þegar einhver gat sagt frá slíku drakk ég það í mig og sagði svo Valdísi frá. Samt fór það svo að þetta íþyngdi mér mjög á köflum og gerði mig oft á tíðum hálf lamaðan. Ég fann mig ekki í að gera það sem til stóð. Oft sótti ég út í Sólvallaskóginn til að nálgast félagsskap einverunnar og skapara míns.
 
Þessi líkamlegi bati minn þann 13. apríl eftir flensuna var í raun sleginn út af sálrænum erfiðleikum? Sorgin ásótti mig oft. Meðan hrygluhljóðin voru verst og ég vakti meðan Valdís svaf runnu margar myndir hjá í óraunveruleika næturinnar. Ég bað mínar bænir en fannst sem þær kæmust ekki til skila. Nótt eina lagði ég allt mitt í að koma sipulagi á hugann og ákvað að nú skyldi leið bænarinnar reynd af auðmjúkri einbeitni sem aldrei fyrr. Ég minntist orða Jesú í Jóhannesarguðspjalli þegar hann talaði einhver síðustu orð sín til lærisveinanna og ég ákvað að nota þessi orð til að komast nær markinu. Ég kveikti á lampanum mínum, teygði hendina ofan í náttborðsskúffuna og tók fram biblíuna.
 
Ég var fljótur að finna þessi orð: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um, það mun hann veita yður í mínu nafni. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni; biðjið, og þér munuð öðlast." Þetta sagði meistarinn við lærisveina sína fyrir tæpum 2000 árum og hann var líka að segja þau við mig um miðja vornóttina. Ef ég bið skýrt í hans nafni, ákvað ég, þá mun ég verða bænheyrður. Ég reyndi að setja mig inn í 2000 ára gamla atburðinn. Mér fannst næstum sem ég yrði einn af þeim sem þá voru viðstaddir og svo bað ég.
 
Í Jesú nafni bað ég fyrir heilsufari Valdísar. Og ég bað aftur og aftur þessi sömu orð, í mínútur, í stundarfjórðunga, í einhverja hálftíma eða ég veit ekki hversu lengi. Á meðan las ég línurnar með þessum orðum yfir nokkrum sinnum til þess að tapa ekki huganum frá loforði meistarans. Valdís hagræddi sér allt í einu í rúminu og hljóðin sem ég óttaðist breyttust, urðu léttari, og ég fann hvernig ró færðist yfir mig og óraunveruleiki næturinnar fjarlægðist. Það var virkilega eins og  eitthvað hefði gerst innra með mér og mér fannst ég líka finna það á Valdísi. Næstu tvo til þrjá daga færðist ró yfir huga minn og einhvers konar sátt við ástandið. Ég gat ekki betur fundið en það sama ætti sér stað hjá henni.
 
Valdís dró að hafa samband við heimilislækninn út af lungnakvefinu en einhverri viku fyrir sneiðmyndatökuna varð henni illt í eyra. Þetta bagaði hana mjög og versnaði hratt. Einn daginn sagðist hún ætla að leggja sig og reyna að slappa af sem hún og gerði, en hún kom strax fram aftur, ákveðin mjög, og hringdi nú á heilsugæsluna. Hún var tekinn inn samstundis. Hún var sett á pensilínkúr og nokkrum dögum seinna byrjaði eyrað að lagast, lungnakvefið einnig og öndunarhljóð næturinnar gerbreyttust. Ég hugsaði til bænarinnar og velti því fyrir mér hvort henni hefði verið gert að fá eyrnabólgu til að hún fengi pensilín. Sólin hækkaði dag hvern á þessum tíma og dagana eftir að hún byrjaði á pensilínkúrnum var sem það birti með auknum hraða.
 
Við vorum varla komin heim frá sneiðmyndatökunni þann 25. apríl þegar heimilislæknirinn hringdi og staðfesti að það væri ekki allt með felldu og rannsókn mundi halda áfram. Stundir efans og óvissunnar jukust á ný. Við fórum nokkrum dögum síðar til Maríu, krabbameinslæknis á sjúkrahúsinu í Örebro, og hún sýndi okkur á tölvuskjá hvað kom út úr sneiðmyndatökunni. Síðan var ákveðið að fara niður í lungun og taks sýni. Það gerði María nokkrum dögum síðar.
 
Þann 18. maí mættum við hjá Maríu, Valdís, Rósa dóttir okkar og ég. María byrjaði á því að lýsa aðdraganda alls þessa og það var sem þau orð ætluðu aldrei að taka enda. Síðan sagði hún að útkoma sýnatökunnar sýndi að um krabbamein var að ræða. Þar féll höggið þunga. Valdís fór fyrst að gráta og ég hugsaði með mér að það væri gott að ég væri búinn að eiga mínar stundir meðal hinna rótföstu vina minna í Sólvallaskóginum. Svo spurði Valdís; hvað gerum við nú. María lagði hendina á arm hennar og sagði: Nú byrjum við meðferð. En hún útskýrði að hér væri ekki hægt að lækna, en það væri hægt að halda sjúkdómnun niðri. Hversu mikið yrði tíminn að leiða í ljós. Við vorum Maríu mjög þakklát fyrir allt hennar jákvæða og góðlátlega viðmót í þessu samtali.
 
*
 
Í byrjun september lauk rúmlega þriggja mánaða lyfja- og geislameðferð. Ég hef sagt það áður og segi það einu sinni enn að þessi meðferð er gríðarlega erfið og nánast ómanneskjuleg. Rúmlega mánuði síðar fór Valdís aftur í sneiðmyndatöku og í framhaldi af því fórum við í viðtal til Maríu. Meðferðin hefur skilað góðum árangri sagði hún og stráði yfir okkur geislum vonarinnar.
 
Tveimur vikum eftir að lyfjameðferðin byrjaði komu Rósa og fjölskylda til okkar og síðan var hér fólk samfleytt þangað til allri meðferð var lokið. Við erum ykkur þakklát öll þið sem lögðuð hönd á plóginn
 
*
 
Mánuðurnir síðan hafa verið blanda af bata og mótlæti, en óneitanlega er batinn mikið meiri en mótlætið. Læknar hafa sagt að bataferlið eftir slíka meðferð sem Valdís gekk í gegnum taki marga mánuði og jafnvel heilt ár. Bænin á sér enn samastað í þessu húsi. Margan daginn síðustu vikurnar hefur Valdís unnið eins og forkur við jólaundirbúninginn og afkastað hreint með ólíkindum.
 
Í gegnum þetta höfum við hitt mikið af góðu fólki sem við höfðum ekki hugmynd um að væri til, læknum og hjúkrunarfræðingum, fólki sem er ríkt af góðvild, hjálpsemi og eiginleikanum að gefa von. Ég hef aftur og aftur heyrt Valdísi þakka þessu fólki fyrir hjálpina og hrósa því fyrir góðsemina á þann hátt sem ekki öllum er lagið. Og ég hef tekið eftir að þetta fólk hefur orðið þakklátt og tekið orð hennar til sín, hvort heldur það eru hámenntaðir læknar eða hjúkrunarfræðingar. Tíminn, sérstaklega þar til meðferðinni lauk, hefur verið blanda af sorg, bið, brostnum vonum, von á ný, bið enn og aftur, kvíða, bjartsýni og sátt. Vonin, bjartsýnin og sáttin eiga vinninginn. Á tímabilum frá því í haust hef ég aftur náð afkastagleðinni sem ég hafði í janúar fyrir tæpu ári og ég talaði um í byrjun bloggsins. Ef Valdís hefði ekki verið sá forkur sem hún hefur verið gegnum þetta allt saman hefði ég aldrei náð því. Ég hef í mörg ár kallað hana KiddaVillasystur, fiskimannsdóttur, fjallkonu og eitt og annað fleira og hún stendur undir öllu saman.
 
Hún er sterk þessi kona. Klukkan er orðin tvö að nóttu og nú sefur hún hljóðlega fyrir aftan mig þar sem ég sit og skrifa. Hún er búin að ná því sem hún ætlaði sér, að gera það kleyft að hér á Sólvöllum verði haldin jól með gestunum okkar sem komu fyrir þremur dögum. Og það er ýmislegt fleira sem hún ætlar sér að ná þessi kona.
 
Að öllum öðrum ólöstuðum grunar mig að þessi ungi maður, hann Hannes Guðjón, hafi veitt henni ömmu sinni mesta hjálp af öllum sem hafa komið við sögu. Hún tók þessa mynd af honum í fyrradag og ég veit ekki hvort það er mögulegt að brosa svona fallega móti hvaða ljósmyndara sem er, en svona brosti hann alla vega á móti myndavélinni þegar amma hans hélt á henni. Þegar við Rósa og Pétur höfum verið að sýsla eitthvað úti við segir hann gjarnan: Ég ætla að vera hjá ömmu. Þau hafa oft setið hlið við hlið, amma og drengur, og horft á barnaefni og þá gjarnan setið nálægt hvort öðru og haldið hönd í hönd. Hljóður og án krafna hefur hann verið henni félagi marga stund.
 
Þessi mynd er tekin nú að morgni aðfangadags. Þessi ungi maður var fljótur að vakna og nudda stýrurnar úr augunum. Síðan hjúfraði hann sig upp að ömmu sinni og hjálpaði henni að vakna líka. Nú þegar ég er að gera þetta tilbúið til yfirlestrar fyrir Valdísi eru gestirnir okkar úti að spássera og leika sér á snjóþotu. Valdís er að elda möndlugrautinn. Svo verða jól á Sólvöllum og jólatréð utan við gluggann er sótt inn í Sólvallaskóginn. Það hefur snjóað síðan það var sett upp og hvítur snjórinn þyngir mjúklega greinar þess. Gleðileg jól héðan til allra.


Kommentarer
Valgerður

Fallegt blogg pabbi minn um frábæra konu sem hún mamma er. Við erum glöð að okkur tókst að koma og vera með ykkur aðeins í sumar. við veltum því fyrir okkur að koma um hátíðarnar en það er ansi þröngt ennþá fyrir svo stóran hóp. Það stendur til bóta með Bjargi. Þess í stað tókum við þig okkur til fyrirmyndar og fórum í framkvæmdir hér heima sem hafa staðið til nokkuð lengi.
Jólakveður af Smáragötunni
Valgerður

2012-12-24 @ 14:26:09
Björkin.

Elsku mágur minn,fallegt blogg.Tár trýtla niður kinnar.Þakka frábærar stundið í sumar.Guð gefi ykkur gleðileg jól og gott nýtt ár.Sakna ykkar mikið.

2012-12-24 @ 14:50:44
Þórlaug

Takk fyrir þetta fallega blogg Guðjón. Litli sólargeislinn ykkar lýsir allt í kringum sig með brosinu sínu. Innilegar jólakveðjur til ykkar allra á Sólvöllum frá okkur Jóa.
Þórlaug

2012-12-24 @ 16:25:35
Dísa gamli nágranni

Það er mannbætandi að lesa bloggið þitt Guðjón minn.Kl. er langt gengin 1.00 og ég ein eftir hér frammi á jólanótt.Góð og gleðileg verði ykkur jólin öllum á Sólvöllum. Kveðjur til ykkar frá okkur Ottó og Fjólu.

2012-12-25 @ 01:52:22
þóra Björgvins

Sæll

Það er unun að lesa bloggið þitt og bætir hvern þann sem það les ,Valdís er og verður kjarnakona, sorg og gleði í þessum veikindum eru ekki umflúinn,en maður fær einhver ótrúlegan styrk í þessu öllu, vonandi eigið þið gleðileg jól með litla sólargeislanum ykkar og hans foredrum , jóla knús til ykkar allra

2012-12-25 @ 16:11:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0