Enginn að leika sér á Sólvöllum í kvöld

Enginn smávaxinn maður kemur á þessu kvöldi og biður mig að fela eggjabakka því að hann hefur gaman af að leita. Hann biður mig ekki heldur að fela sjálfan mig eða að leika ljón. Það er býsna auðvelt að fela eggjabakka en það er töluverð áreynsla í því að leika ljón, meira að segja áreynsla að vernda smávaxna manninn þegar hann hefur fengið pabba sinn til að taka að sér hlutverk ljónsins. Gestirnir okkar eru farnir heim.
 
Valdís horfir á sjónvarpsþátt þar sem þekktir leikarar koma saman í einhverri höll og leika sér en ég fann mér aðra hluti til að dunda við. Til dæmis var ég að lesa um óveður á Íslandi. Það er mjög ólíkt því sem skeði í gærdag meðan Rósa og Pétur voru inn í Örebro að skoða rafmagnsvörur. Þá var ég úti við og kom inn þar sem þau sátu saman amma og Hannes. Amma þurfti að víkja sér frá og sagði við Hannes að afi mundi sitja hjá honum á meðan. Þá spratt hann fram úr stólnum, benti mér á að setjast og svo hoppaði hann upp í kjöltu mína. Það var mun áreynsluminna en að leika ljón.
 
Á járnbrautarstöðinni i Kumla sagðist ég ætla að taka mynd af þeim. Hannes gekk þá að ferðatöskunni hennar mömmu sinnar og stillti sér svolítið upp. Það er alveg leyfilegt en segir líka að hann er farinn að skilja þetta betur með að taka myndir. Svona síast hlutirnir inn einn af öðrum og skilningurinn eykst. Hann talar mikið sænsku en foreldrarnir sögðu að hann hefði aukið við íslenskuna meðan hann þau dvöldu hjá okkur á Sólvöllum.
 
Amma fer sjaldan með þegar ég sæki þau eða fer með þau á jármbrautarstöðina. Hannes kveður ömmu heima. Kannski er eitt og hálft ár síðan við vorum þarna á járnbrautarstöðinni og þegar þau fóru inn í lestina leit hann við og átti von á því að ég fylgdi þeim inn í lestina. En í stað þess veifaði ég þeim þegar hún rann af stað. Hann hafði spurt eitthvað eftir mér á leiðinni til Stokkhólms, en þegar þau stigu af lestinni þar, þá var afi ekki utan við. Þá fór Hannes að gráta og grét á leiðinni heim á Celsiusgötuna. Ég veit að það er ekki í fyrsta skipti sem ég segi frá þessu á blogginu núna.
 
Við hittumst aftur á þriðja í nýári. Rósa og Pétur ætla að endurnýja hjá sér eldhúsið. Ekki það að innréttingin sé svo léleg, heldur að fólkið sem síðast setti þar upp innréttingu skipulagði eldhúsið all fáránlega. Það var vegna þessa sem þau fóru inní Örebro í gær. Elon er verslunarkeðja í Svíþjóð sem selur heimilistæki. Það var því upplagt fyrir þau að nota tækifærið meðan Hannes var hjá ömmu og afa og þau gátu notað bílinn okkar og skoðað heimilistæki í rólegheitum. Nú eru þau ákveðin í eldhústækjunum og geta svo bara pantað. Sniðugt.
 
Þriðja í nýári förum við Valdís svo með kerruna til Stokkhólms og tökum það sem við viljum af innréttingunni og setjum síðan upp bílageymslumegin á Bjargi. Það verður ekki amaleg bílageymsla með eldhúsinnréttingu frá Stokkhólmi. Þannig eru nú plönin þessa stundina og þá gistum við eina nótt hjá þeim og kannski leik ég þá ljón fyrir Hannes Guðjón. Ég læt mig þá hafa það að veltast svolítið í gólfinu og urra. Mér dettur í hug núna að ég ætti heldur að vera hestur og taka Hannes á bak. Ég geri ráð fyrir að margir kannist við þetta að leika einhver dýr fyrir börn á þessum aldri.
 
Hannes Guðjón. Þó að ég geti orðið þreyttur og stirður þegar ég leik ljón, þá er gaman að því. Ég finn það sérastaklega núna þegar þú ert farinn.
 
Við þökkum ykkur fyrir dvölina Rósa, Pétur og Hannes Guðjón.


Kommentarer
Rósa

Takk fyrir okkur sömuleiðis!

Svar: :)
Gudjon

2012-12-29 @ 22:37:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0