Tertan með hvíta kreminu

Ég ætlaði svo sannarlega að láta bloggið eiga sig þennan daginn en þegar ég nú leit yfir daginn fyrir háttinn gat ég ekki staðið við það. Í fyrsta lagi þá var hörku frost í morgun, svo sem 15 til 20 stig. En Sólvellir er gott hús sem hlúir að okkur ef við gerum rétta hluti, svo sem að hafa góðan við inni, að hreinlega kveikja upp og hafa loftræstingu hóflega. Svo höfum við líka rafmagnsofna sem sjá um hitann þegar líður á nóttina og hitinn frá kamínunni kólnar út.
 
Tímanlega fór ég bakvið útihurðina og stakk klónni í tengilinn svo að bílmótorinn færi að hitna. Við ætluðum nefnilega í smá bílferð. Í hádeginu fór ég svo með Valdísi að gatnamótunum við Götabro, en ýmsir vita nú orðið hvar það er. Þar ætluðu konur úr kórnum að taka hana með til staðar sem heitir Hällabrottet. Þar átti Hafðu það gott kórinn að syngja fyrir aldraða. Frá Götabro hélt ég svo heim aftur en Valdís hélt hins vegar á vit nýrra ævintýra með þessum kórfélögum sínum. Mér fannst hún hafa verið hálf þögul áður en við lögðum af stað og óskaði nú alls hins besta.
 
Þegar ég kom heim bjó ég mig vel út í veterarveðrið þar sem ég ætlaði að stunda byggingarvinnu nokkra tíma. En þó að ég hefði búið mig vel hafði ég ekki verið svo ýkja lengi úti þegar kuldinn var kominn inn á bera húðina og ég dró mig inn, bætti í kamínuna og gerði nýtt kaffi. Út fór ég á ný og tók dálitla skorpu en svo fór ég enn á ný inn í notalegan ylinn. Þegar ég hafði svo verið um stund úti í þriðja skiptið birtist bíll heim við húsið og þar voru kórkonurnar að koma til baka. Þær vildu skila Valdísi alla leið heim og sjá um leið jólaljósin hjá henni. Svo fóru þær. Ég notaði tækifærið og við tylltum okkur niður með kaffibollana okkar þangað Valdís spratt á fætur, fann rauða glerkúlu niður í kassa, skrúfaði í þessa kúlu peru og svo aðstoðaði ég við upphenginguna. Eftir það fór ég í fjórðu ferðina út í byggingarvinnuna en lét svo staðar numið og byrjaði að dunda mér við smávegir frammi í þvottahúsi.
 
Stuttu síðar heyrði ég að Valdís var farin að vinna við eldhúsbekkinn og mér fannst sem ég þekkti það á hljóðinu að nú væri hún byrjuð á brúnu tertunni með hvíta kreminu. Ég spurði og fékk grun minn staðfestan. Að ég heyrði þetta á hlóðinu lætur kannski undarlega í eyrum en ég kann enga aðra skýringu á þessu. Svo leit ég inn í eldhúsið og þar vann Valdís létt í spori eins og þegar hún dansaði sjómannavalsinn í Sæborg í Hrísey fyrir 40 árum. Ég á mínu hringli hér fram og til baka tók svo eftir því að hún var komin með nýtt deig á borðið og nú var nýtt verkefni komið af stað. Ég spurði hvað væri komið í gang núna og hún svaraði hvatlega: súkkulaðibitakökur. Jahérnanahér. Nú bíður deigið í ísskápnum þess að nýr dagur renni og húsmóðirin á þessum bæ setji í gang eftir morgunverrð og kaffibolla.
 
Hvernig var annað hægt en blogga líka í kvöld? Ég veit að margir velta fyrir sér hvernig Valdís hafi það. Hér hef ég lýst einum degi. Síðar horfði hún um stund á sjónvarp og nú er hún að lesa bók. Lífið er ekki bara þrældómur hjá henni en hún er býsna lifandi manneskja.


Kommentarer
Björkin.

Fæ bara vatn í munninn.Hugsa um þessa góðu köku hennar frá góðu gömlu dögunum í Hrísey.Góða nótt mín kæru.

Svar: Ég er að vona að ég fái að smakka smá á morgun og þá bara verð ég að fá mér mjólkursopa með þó að mjólk sé bara fyrir börn og kálfa. Stöku sinnum fyrir mig. Góða nótt.
Gudjon

2012-12-03 @ 23:30:33
Þórlaug

Mmmmm, jólailmurinn fyllir jólahúsið ykkar.

Kærar kveðjur
Þórlaug

Svar: Já Þórlaug, ég get lofað þér að það hefur ilmað í dag.
Gudjon

2012-12-04 @ 21:36:03


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0