Síðbúnir sumarfrísdagar með Steinari

Ég var á járnbrautarstöðinni í Örebnro um hálf átta leytið í morgun. Það var þriggja til fjögurra stiga frost, sumsstaðar hvíldi hrímþoka yfir flatlendi en á járnbrautarstöðinni var annað í gangi. Lestir komu og fóru og gesturinn sem hefur verið hjá mér í þrjá og hálfan sólarhring var að fara. Á leiðinni heim hugleiddi ég þessa heimsókn, gerði kannski hálfgerða úttekt á henni. Sá sem var í heimsókn var Steinar Þorsteinsson frá Hrísey, Steinar tannlæknir eins og hann var oftast nefndur og hann var lengst af tannlæknirinn okkar Valdísar eftir að hann fór að starfa á Akureyri.
 
Við þekktumst svo sem ekki mikið fyrir en þegar öllu var á botninn hvolft áttum við margt sameiginlegt. Við erum álíka gamlir, báðir orðnir ellilífeyrisþegar, erum býsna virkir í samfélaginu, við erum orðnir einir, höfum að nokkru leyti svipuð áhugamál, þykir notalegt að sitja lengi yfir morgunverði og fleira mætti telja.
 
Steinar er fróður um margt, upplýsti mig um mikilvæga hluti en reyndi ekki að troða neinu upp á mig, hann er hjálplegur, vill vel og þessa daga sem hann var hér heyrði ég hann ekki í eitt einasta skipti halla orði á nokkra einustu manneskju.
 
Ég komst að þessu á leiðinni heim frá járnbrautarstöðinni, var reyndar búinn að átta mig á því meðan Steinar dvaldi hér, en þarna gerði ég samantekt sem ég ákvað að setja í blogg þegar kvölda tæki.
 
Hversdagslega er ég afar nægjusamur. Eins og ég sagði við Steinar og hef oft sagt áður, þá er ég ekki nýskur en ég er nægjusamur. Bauka heima hjá mér og fer öðru hvoru í vinnuna en ekki svo mikið annað. Ég bíð oft eftir því að einhver komi til þess að ég finni ástæðu til að bregða út af vananum. Það gerði ég þessa daga. Hefði ég verið einn hefði ég ekki farið í Naturens hus í Örebro eins og við gerðum til að borða rétt sem heitir Bullebaisse. Ég tek ekki neina ábyrgð á réttrituninni.
 
Það var margt í þessum skálum sem við erum með fyrir framan okkur, skeldýr, nokkrar sortir af fiski, mest lax, kartöflur, grænmeti og bragðefni sem voru býsna framandi fyrir Sólvallakallinn mig. En gott var það og það var öðru vísi. Naturens hus er afar skemmtilegur staður og í afar snotru umhverfi. Og svo merkilegt er það að þetta snotra umhverfi er á gömlum ruslahaugum austan við Örebroborg, skammt frá Svartánni og vatninu Hjälmaren.
 
Eftir matinn í Naturens hus var notalegt að fá sér súkkulaðiköku sem eftirrétt í Svampen. Frá þessum háa vatnstanki þeirra í Örebro er gott útsýni og þarna til austnorðausturs voru mikið fallegir haustlitir sem myndavélin mín hafði ekki nógu góða hæfileika til að varðveita fyrir mig.
 
Til austurs halda haustlitirnir áfram og og þarna sést líka nálægasti hluti Hjälmaren.
 
Það var gott kaffi í Ånnaboda, skíða og útivistarsvæði skammt vestan við Örebro. Góðar voru kökurnar líka og útsýnið með viðeigandi haustlitum var afbragð. Það sem ekki var gott þarna, það var ábótin af kaffinu. Það var ódrekkandi enda er Steinar búinn að ýta bollanum frá sér. Að öðru leyti var heimsóknin til Ånnaboda alveg ágæt.
 
Þessum skosku hálandanautgripum fannst einkennilegt að við skyldum stoppa þarna til að horfa á þá. Þessir þrír sem næstir eru voru fyrstir til að koma til okkar og athuga af okkur lyktina. Flestir hinna Skotanna eru lagðir af stað í áttina til okkar til að vita hvernig Íslendingar lykta og líta út.
 
Elgskýrin sem var þarna á beit með kálfi sínum þar sem við fórum um var ekkert að koma til okkar til að láta taka mynd. Fyrir augað voru þau nær en fyrir myndavélarnar voru þau ekki svo nálægt. Þau voru samt gott innlegg í tilveru okkar þennan dag.
 
Rusakula er klapparhorn sem stingur sér upp úr suðausturkantinum á norðanverðum Kilsbergen. Þaðan er mikið útsýni allt suðurundir Vestur-Gautalönd og langt austur á Hjälmaren. Á myndinni sér suðvestur eftir skógi vöxnum hlíðum Kilsbergen. Ég hef all oft komið þarna upp áður en er nú búinn að bíða eftir góðu tækifæri til að fara þangað með einhverjum. Eiginlega er ég hissa á hvað Steinar tekur sig vel út þarna á myndinni þar sem það var langt frá því að vera notalegt veður uppi á Rusakula.
 
Þegar Hannes og fjölskylda voru hér í sumar hélt ég að vegurinn þangað væri ekki nógu góður fyrir minn kviðsíða Ford focus C-max, en svo reyndist vegurinn alveg ágætur. Næsta sumar verður því að ráðast á brattann á ný.
 
Já, þetta var eitthvað um síðustu dagana eins og þeir hafa gengið fyrir sig hér á bæ. Steinar fór til Stokkhólms í morgun þar sem hann ætlaði að sitja ráðstefnu í Globen, því stóra húsi. Ég var búinn að segja honum að það væri upplifun að koma þar inn og ég vona að það hafi verið svo fyrir hann. Eins og ég sagði í byrjun þekktumst við Steinar ekki svo mikið, en í dag vil ég segja að við séum vinir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0