Fjörutíu tímar úr mannsævi

Milli klukkan sjö og átta í gærmorgun fór ég vandlega yfir áætlun dagsins sem ég hafði gert kvöldið áður. Ég sá vel fyrir mér hvernig dagurinn yrði og allt myndi auðveldlega ganga eftir. Korter fyrir níu fór ég í sturtu glaður vegna þess að ég vissi að dagurinn yrði minn. Það var gaman og það má mikið vera ef ég söng ekki þarna í sturtunni eða talaði alla vega mikið við sjálfan mig.
 
Ég helti fljótandi baðsápu í lófa minn og fann af henni hindberjalyktina, dreifði henni um líkamann og fann hvernig lyktin angaði meira og meira inni í sturtunni. Ég komst að því að ég væri heldri maður. Maður sem þvær á sér rassinn með baðsápu sem lyktar af hindberjum hýtur að vera heldri maður. Svo held ég að ég hafi jafnvel hlegið að sjálfum mér. Þegar ég var að renna mér í nærbuxurnar hringdi síminn. Gaman, hver ætli sé að hringja núna? Spennandi morgun þetta.
 
Ég flýtti mér og viti menn; það var Vornes. -Geturðu unnið í kvöld? -Úff, geturðu ekki beðið Jorma að vinna kvöldið spurði ég. -Nei, ég er búin að tala við hann í heilan klukkutíma og hann er hættur að leysa af í Vornesi var svarið. Mér brá af tveimur ástæðum. Annars vegar af því að ég fann mig knúinn til að fara að vinna um kvöldið og hins vegar vegna þess að það verður sóttst ennþá meira eftir mér ef rétt reynist að Jorma sé hættur. Hvað gengur að Jorma hugsaði ég, þessu finnska þráablóði. Núna verð ég að setja Vornesi kvóta.
 
Ég varð óttalega ringlaður meðan ég var að búa mig af stað þar sem allt hafði nú riðlast og ég var eiginlega ringlaður allt fram undir kvöldið. Mér var vel tekið eins og alltaf, bæði af starfsfólki og sjúklingum. Ég borðaði mikinn kvöldmat enda hafði ég borðað sáralítinn hádegismat. Þegar ég var búinn að borða kvöldmatinn leit ég inn í kalda búrið þar sem Karina i eldhúsinu var að vinna. -Nei! tvær brúnar tertur, sagði ég við Karina. -Já, svaraði hún, borðaðu eins og þú vilt af öllu hér inni og þar á meðal af tertunum. -Takk Karina, þið eruð englar hér í eldhúsinu. Svo skildu leiðir, ég hélt áfram með mitt og allt annað starfslið hélt heim.
 
Það var heilmikill erill hjá mér en ég gat ekki látið alveg vera að hugsa um terturnar í búrinu. Sjúklingarnir voru fínir utan kannski ein kona sem vildi fara heim. Farðu í tíma, sagði ég henni, ég nenni ekki að vera að hjálpa þér þegar líður að nóttu. Svo skrifaði hún sig út þegar einna verst stóð á en ég leysti það samt. Svo fór ég í búrið. Ég tók af annarri tertunni, settist í matsal starfsfólks og byrjaði. Þvílík terta. Súkkulaði og konfektbragðið af súkkulaðilituðu lögunum, ólýsanlegt, og öðru vísi súkkulaðibragðið af rjúmafyllta ljósa laginu í miðri tertunni, einnig ólýsanlegt.
 
Og dökka súkkulaðikremið með einhverjum bragðögnum í sem var ofan á tertunni. Nei, mig skorti orð. Það lá við að bragðlaukarnir misstu meðvitund. Þetta jafnaðist á við súkkulaðikladdkökuna hennar Emblu Ingvaldsdóttur í Stokkhólmi. Eftir að hafa borðað hóflega stóra sneið af þessari ótrúlegu tertu hélt ég aftur inn á sjúkradeildina, glaður í bragði og mér fannst svo sannarlega að ég hefði fengið heilmikla umbun fyrir erfiði dagsins. Ég fann að ég mætti fólki glaðari í bragði.
 
Um miðnætti sofnaði ég og dreymdi þunga drauma þar sem Valdís var allt í einu meðal oss jarðarinnar barna. Klukkan hálf fjögur vaknaði ég, gamall maður, þreyttur og sorgmæddur. Ég greip til góða ráðsins og drakk tvö glös af vatni og sofnaði strax. Þegar klukkan vakti mig hálf sex var ég minna gamall og minna þreyttur og sorgin var á braut en alvara draumanna var ennþá með mér.
 
Þegar ég var að undirbúa heimferð mína fór ég til Karina í eldhúsinu og spurði hvort það væri til matur sem passaði fyrir mig að taka heim sem kvöldmat. -Ja já já, svaraði hún og bað hina tuttugu og tveggja ára gömlu Malin að hjálpa "honum Guðjóni". Svo kom Malin með plastbox og við settum fisk í það. Svona matarafganga er hægt að kaupa fyrir mjög vægan pening í Vornesi og hafa með heim.
 
-Viltu ekki tertu líka, spurði Malin. -Veistu ekki að þú ert að freista mín svaraði ég sem þýddi já. -Það er þess vegna sem þetta er svo gaman sagði hún, setti tertusneið á pappadisk og spurði hvort ég vildi tvær. -Nei, svaraði ég, þá verð ég bara feitur. Svo setti hún plastfilmu yfir tvær tertusneiðar og rétti mér. Þær eru góðar við mig í eldhúsinu í Vornesi, miklar dugnaðarkonur og hafa gaman af að segja mér til með matargerð.
 
Ég leysti ýmis erindi á leiðinni heim og allir sem ég hitti voru glaðir. Ég var líka glaður þrátt fyrir að ég væri minnugur drauma næturinnar. Svo endaði ég á því að fara til hans sögunarMats til að kaupa spýtu. Að vanda var hann hógvær og góður í sér, glaður og brosmildur og hann virðist alltaf vera ánægður með einfalt líf sem hann hefur tamið sér að lifa. Það er hægt að læra af þessum manni.
 
Ég fékk að heyra í dag að ég geri meira gagn í vinnunni en ég hef haldið þó að ég hafi svo sem heyrt það áður. Kona sem gæti verið yngsta dóttir mín læddi því að mér. Ég veit að hún sagði mér satt. Hún glímir núna við sjúkdómaflækju sem virðist vera erfitt að komast til botns í og hún er afar kvíðin. Ég veit að hún skrökvar ekki að mér. Það var hún sem ég leysti af í nótt. Gjafirnar sem mér eru gefnar eru stórar og mér finnst mínar gjafir svo oft vera stærri en aðrir fá. Ég er afar þakklátur núna þegar ég er að skrifa þetta.
 
Lífið er skin og skúrir. Þegar ég er að gera þessa samantekt mína finn ég samt að skúrirnar eru í miklum minnihluta hjá mér um þessar mundir og hafa verið um nokkurt skeið. Ég er búinn að mæta mikilli vináttu í dag og ég hef fengið svo gott viðmót annarra sem ég hef hitt en þekki ekki. Ég er nú svolítið eins og hann Mats sem selur mér spýtur, ég uni býsna glaður við hið einfalda.
 
Núna er ég þreyttur en ekki gamall en draumar næturinnar finnast ennþá í hugskoti mínu. Mér finnst sem sorgin búi innra með mér en sé hulin þunnri slæðu. Stundum brestur slæðan og sorgin læðist fram. Síðan dregur hún sig til baka og lætur mig í friði. Svona hefur það verið í mörg, mörg, mörg ár og mun verða. Að flýja ekki er að vera maður. Að vera svo þakklátur fyrir gjafirnar líka er að vera ennþá meiri maður.
 
 
 
 
Þetta eru tertusneiðarnar sem hún Malin laumaði á disk handa mér. Ég tók þær út úr ísskápnum til að taka mynd af þeim, breiddi svo yfir þær aftur og setti til baka í ísskápinn. Það verður engin tertuveisla á þessu kvöldi. Á morgun get ég kannski verðlaunað mig fyrir eitthvað.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0