Sólvallakallinn

Sólvallakallinn er satt best að segja snarlifandi ennþá þó að hann hafi ekki haft sig mikið í frammi undanfarið.
 
Ég tala gjarnan um að ég sé að bauka og ég hef baukað við mitt undanfarna daga. Ég vann venjulega dagvinnudaga í Vornesi á mánudaginn og þriðjudaginn. Svo hafði ég tilkynnt að ég vildi svo gjarnan hafa náðugt frá vinnunni um tíma og ég vona að svo verði einhverja daga í viðbót. Ég tauta gjarnan við sjálfan mig og svo tala ég við eina og aðra manneskjuna í síma. Það er engin hætta á að ég gleymi að tala.
 
Þegar ég vaknaði í morgun teygði ég út hendina, greip farsímann og gáði á klukkuna. Hún var rétt að verða átta. Svo tók ég mér smá tíma í eigin heimi og leit síðan á klukkuna yfir herbergisdyrunum. Nei, hvað var þetta, ég hlaut að hafa sofnað. Klukkan var rúmlega níu. Ég sem ætlaði að fara út til smá verka áður en ég horfði á sjónvarpsmessuna en nú var enginn tími til þess.
 
Ég skellti grautnum á eldavélina, gerði kaffivélina klára, kveikti svo á sjónvarpinu og innan tíðar var klukkan fimm mínútur yfir tíu. Þá byrjaði þáttur um blús í stað messu. Það hafa verið ágætis músikmessur undanfarið en núna gekk það of langt, kynning á blús átti ekkert skylt við messu. Ég varð hálf fúll, flakkaði á milli stöðva en allt kom fyrir ekki. Það var greinilega búið að eyðileggja sjónvarpsmessuna. Eitthvað passaði ekki og ég varð hálf ringlaður. Ég reyndi að finna út hvað eiginlega væri á seiði en allt kom fyrir ekki. Dagskráin sagði að það ætti að vera messa klukkan rúmlega tíu. Það var kominn tími fyrir fyrsta kaffibollann en eitthvað olli ókyrrð innra með mér.

Ég fór inn á textavarpið og leit á fréttayfirlitið. Skrýtið! Klukkan þar var bara rúmlega níu. Klukkan yfir hinum herbergisdyrunum var rúmlega tíu, klukkan á súlunni við eldhúsbekkinn líka og ég fór inn í svefnherbergið mitt og hún var líka rúmlega tíu. Hvers slags var þetta eiginlega?
 
Á textavarpinu var frétt um að börn hefðu ekki gott af því að klukkunni væri breytt með hálfs árs millibili. Já! -bíddu nú við -klukkunni var seinkað í nótt eða hvað? Allt varð eðlilegt aftur og ég var ekki svo ruglaður þegar öllu var á botninn hvolft. Ég hafði bara misst af því að það ætti að seinka klukkunni en farsíminn sá sjálfur um að breyta sinni klukku. Það skýrði fyrsta misræmið.
 
Ég dreif mig út og gerði það sem ég ætlaði að gera fyrir messu. Síðan fékk ég mér kaffi og setti títuberjasultu ofan á ostinn á ristuðu brauðsneiðinni sem ég hafði með morgunkaffinu. Svo byrjaði messan og þessi morgun varð að venjulegum sunnudagsmorgni. Mér leið alveg skínandi vel.
 
Gamli presturinn okkar Valdísar, hann Nisse, kom snemma morguns fyrir jól ef ég man rétt. Þegar hann horfði á hafragrautardiskinn minn með öllu tilleggi í grautinn, það er að segja vistvænt ræktaðar rúsínur, vistvænt ræktaðar apríkósur, hvönn frá Hrísey og vistvænt ræktaður banani ásamt mjólk og slettu af rjóma, þá varð honum að orði: "Ég sé að það er allt í lagi með þig. Ég kom eiginlega til að athuga það. Þú borðar vel." Sjálfur vildi hann bara kaffibolla.
 
Það er ennþá allt í lagi með mig. Það sem er á borðinu á þessari mynd, kjúklingur og kartöflustappa var kvöldmaturinn minn í gær. Mér varð gott af. Í glasinu er afasafi. Einn ávöxtur er líka á borðinu, persimóna. Þeir sem ekki hafa prufað að borða niðurbrytjaða persimónu út í krem fres, þeir hafa ekki prufað allt í lífinu. Slíkur eftirréttur er nefnilega óviðjafnanlegur, svo óviðjafnanlegur að það er synd að drekka kaffi á eftir slíkum eftirrétti.
 
Afasafi er saft gert úr illiblómum. Það er öðru vísi saft, allt öðru vísi en öll önnur söft og Hannesi finnst það mikið gott. Hann kallar það afasafa.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0