Barnabarn

Ég sem hélt að ég væri svo yfirvegaður og sterkur á taugum. Það var hreinlega ákveðið að hún Rósa dóttir mín skyldi fæða barn í gær og ég með þessa nefndu eiginleika mína ætlaði aldeilis að vera yfirvegaður og sýsla smá hér heima, til dæmis að gera við rimlagardínur sem hanga milli glerja hjá okkur eins og á flestum öðrum sænskum heimilum. Fyrst fórum við þó til sjúkraþjálfara og með bílinn í reglubundna þjónustu. Svo skyldi ég með rósemi taka upp tólið þegar pabbinn hringdi ef Valdís yrði þá ekki á undan mér. Svo kom síðdegið og mér hafði tekist að gera við eina gardínu og var byrjaður á þeirri næstu. Það er ekkert einfalt að gera við þessar gardínur og hvað þá seinni varðaði, þá þurfti að skipta um það mesta í henni, meðal annars músastigana sem halda rimlunum í skefljum. Jæja, svo hringdi síminn -en það var ekki pabbinn. Það var hin dóttir okkar, verðandi móðursystir, Valgerður. Það leyndi sér ekki að hún var líka með hugann við það sem í vændum var. Ég var ekki eins rólegur og ég ímyndaði mér að ég væri. Ég taldi tímana sem ég gerði ráð fyrir að hún væri búin að vera á fæðingardeildinni og ég hrökk við vegna þessa að mér fannst sem síminn ætlaði að fara að hringja eða farsíminn ætlaði að fara að pípa sms skilaboð. Loks var ég búinn að setja báða músastigana í gardínuna, lyfti henni upp til að já að allt passaði sem það ekki gerði. Öðru megin höfðu tveir rimlar lent í sama þrepi á tveimur stöðum og hinu megin hafði ég gert böndin of stutt þegar ég festi þeim í efri endann.

Ekki æsti afinn sig út af þessu, klippti burt músastigana og byrjaði upp á nýtt. Síminn hélt áfram að vera nagandi hljóður. Smám saman hafði mér tekist að setja enn nýtt sett af músastigum í gardínuna og ég lyfti henni upp til að fullvissa mig um að núna hafði það tekist. Þetta leit vel út og nú prufaði ég að snúa rimlunum -en, það virkaði ekki. Eftir margar tilraunir sem ekki virkuðu gekk ég út að glugga, opnaði og kíkti ofan í aðra gardínu til að sjá hvernig frágangurinn ætti að vera þarna uppi. Það hefði ég átt að gera fyrr, að athuga áður en ég byrjaði hvernig ætti að vinna verkið. Það var komið miðnætti og ég þurfti að kaupa enn eitt nýtt sett af músastigum og gera þriðju tilraun og bíða sem sagt til næsta dags.

Með farsímann á náttborðinu og herbergishurðina opna svo að við skyldum heyra í heimasímanum lagði ég mig. Valdís hafði þá lagt sig fyrir nokkurri stundu og líka með sinn farsíma á sínu náttborði. Einhvers staðar milli svefns og vöku heyrði ég að lokum farsímann dingla sms hjá Valdísi og augnabliki síðar pípti minn farsími. Snögg viðbrögð,  kveikja ljósið, opna farsímann. Það var greinilega pabbinn sem hafði sent sms frá farsíma mömmunnar. Það hafði fæðst hraustur, fallegur strákur, 18 merkur og 53 sentimetrar klukkan 22,19 og það var þann 7. september. Núna var komið vel framyfir miðnætti. Við lásum þessi fallegu skilaboð hvað eftir annað og gleðin tók völdin.

Merkilegt hvað ég hef orðið meyr með aldrinum. Hér með var andlegum fæðingarhríðum afans lokið. Ég er sannfærður um að amman upplifði eitthvað svipað. Nú er kominn nýr dagur með nýjum möguleikum og óskum um að allt gangi vel. Það eru tólf ár síðan síðasta barnabarn okkar fæddist hjá dótturinni í Vestmannaeyjum. Ég beið þá líka og mikið var ég feginn að heyra að allt hafði gengið vel, en ég held að ég sé fullorðnari maður í dag og það segi ég af alvöru. En svona upp á grín segi ég að ég er ekki eldri.


Myndin er af pabbanum og mömmunni á fallegu kvöldi á Sólvöllum þann 20. júní. Sem sjá má er mikil lambakótilettuveisla í undirbúningi.


Kommentarer
Brynja

Innilega til hamingju öll með hvort annað. Yndislegt þegar barn fæðist, ég sendi hlýjar kveðjur til hans og foreldra og óska þeim velfarnaðar og kærleiks.

2009-09-08 @ 11:28:40
Valgerður

ég fæ sko bara "tær"í augun og lotningin yfir því að eiga þó ekki sé nema smá í þessu nýja barni er einstök tilfinning.

VG

2009-09-08 @ 11:29:51
Gudjon

Þakka þér fyrir Brynja.



Já, Valgerður, það er ekki erfitt að finna fyrir mikilli lotningu.



Kveðja,



pabbi

2009-09-08 @ 12:16:52
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðmundur

Ég óska ykkur innilega til hamingju með afa- og ömmudrenginn. Bloggið þitt klikkat ekki frekar en vant er Guðjón. Ég segi enn og aftur; bók takk...

2009-09-08 @ 20:11:57
Guðjón

Þakka þér fyrir Gumundur, þú ert uppörvandi.



Kveðja,



Guðjón

2009-09-08 @ 23:28:29
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0