Fróðleikur og bílar

Ég var að lesa mikinn fróðleik á bloggsíðu Ágústs H Bjarnasonar. Þvílíkur fróðleikur sem finnst að lesa. Það væri enginn vandi að lesa fróðleik alla ævi án þess að komast yfir það sem jafnhraðan bætist við. En þessi fróðleikur fjallaði um breytingar á sól sem er ekkert nýnæmi og hugsanlega að það hafi áhrif á hlýnun jarðar. Ágúst er samt engu að spá, einungis að bjóða upp á fróðleik og svo geta bæði ég og þú spáð í hlutina út frá því.

Við ökum á umhverfisvænum bíl, bíl sem brennir etanol. Þegar við vorum búin að eiga bílinn í hálft ár fengum við senda tíu þúsund króna ávísun frá fjármálaráðherra, Anders Borg, sem verðlaun fyrir að stuðla að umhverfisvænni umferð í Svíþjóð. Margir æstu sig á móti etanol sem eldsneyti þar sem í það væri meðal annars notað korn og það ylli hækkun á kornverði og þar með auknu hungri í heiminum. Aðrir sögðu að ef hvergi væri byrjað yrðu engar framfarir. Af einhverri ástæðu hljóðnuðu mótmælaraddirnar og margir í Svíþjóð nota etanol.

Áður en ég las grein Ágústs H Bjarnasonar las ég um næsta árs Ford bíla, en við eigum Ford focus C-max. C-max er eins og margir vita hærri bíll og er einkar þægilegur fyrir eldra fólk og ekki síst fyrir fólk eins og mig sem er með lélega mjöðm. Á næsta ári mun gefast kostur á að kaupa þennan bíl með gasmótor. Þegar við keyptum okkar Ford fyrir næstum tveimur og hálfu ári var hann ófáanlegur með gasmótor, en það var einmitt bíllinn sem mig langaði að kaupa. Allir bílar sem ég fann með gasmótor voru lágir, því miður. Samt finnst okkur að við höfum verið þátttakendur í umhverfisvænni umferð með kaupunum á etanolbílnum okkar eins og líka Anders Borg fannst þegar hann sendi okkur ávísunina. Allt stefnir nú í að okkar næsti bíll verði gasdrifinn.

Fyrstu marga mánuðina sem við áttum þennan bíl var næsta bensínstöð sem seldi etanol hjá Volvóumboðinu nyrst í Örebro. Oft þegar ég var þar að taka etanol var líka fólk þar að tanka gasi rétt við hliðina á mér. Það voru bæði yngra fólk og eldra fólk og bæði menn og konur. Ég spurði fólk oft hvernig því líkaði við gasdrifna bílinn -og viti menn; allir sem ég spurði voru svo glaðir með það að ég vildi vita eitthvað um gasbílinn þeirra og ég fékk fullt af svörum. Allir sem ég spurði voru hæst ánægðir með bílinn sinn. Það eina sem kannski var eitthvað neikvætt var það að það tæki lengri tíma að tanka.

Hvort heldur sem hlýnun jarðar stafar af manna völdum, gamalþekktum breytingum á sólblettum eða einhverju öðru, þá höldum við nú áfram að aka umhverfisvænum bíl. Hverjir aðrir eiga að bera ábyrgð á framtíð barna, barnabarna og barnabarnabarna ef ekki við sem einmitt núna lifum á því sem Jörðin gefur af sér.

Þetta varð lengra en ég ætlaði í upphafi. Því verð ég að bíða með að blogga um bráðskemmtilega umsögn sem ég fékk í dag hjá vinnufélaga mínum, kvenlegum hjúkrunarfræðingi rétt undir fertugu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0