Þetta verður nú meira . . .

Já, þetta verður nú meira áfallið að geta ekki bloggað næstu dagana. Ég reikna alla vega ekki með því að það verði á vegi mínum nokkur tölva þarna upp í Lindesberg sem ég geti notað til að blogga. Það er hreint ekki svo vitlaust að það verði hlé á mínu bloggandi um sinn.

Á morgun, nokkru fyrir hádegi, ætlar hún Ghita að koma og renna með okkur Valdísi upp til Lindesberg, skilja mig þar eftir en skila Valdísi heim aftur. Hvernig verður mér við síðasta daginn heima fyrir sjúkrahúsvist hef ég hugsað að undanförnu og nú ég get alveg svipt hulunni af því. Ég mundi helst vilja vera kominn þangað núna og að aðgerðin yrði gerð í fyrramálið. Það verður hins vegar undirbúningur eftir hádegi á morgun og aðgerð  á fimmtudag.

Hugarfarslega er ég tilbúinn að því er ég best veit og ég finn ekki fyrir kvíða. Hins vegar finn ég eins og óljóst fyrir því að líkaminn finni fyrir að eitthvað sé í vændum. Ég hef enga ástæðu til að útvarpa þessu en ég vil sjálfs mín vegna skrifa það niður og þá nota ég bloggið og ef einhver vill lesa það þá bara; gerið svo vel.

Það lætur kannski eins og montsaga ef ég finn ekki fyrir kvíða. Það hafa margir spurt mig eftir því að undanförnu. Málið var að það var búið að tilkynna mér að það yrði ekki gerð á mér mjaðmaaðgerð fyrr en eftir miðjan október. Ég bara tók því og svo hélt lífið áfram. En daginn eftir var hringt til mín frá sjúkrahúsinu og mér boðið að koma í aðgerð þann 24. september, á fjörutíu ára afmælisdegi Rósu. Ég hugsaði mig eiginlega ekki um en tók þessu boði. Þar með hætti ég að taka bólguhamlandi verkjatöflur sem ég hef notað samkvæmt læknisráði eitthvað á annað ár. Ég vissi að svo yrði ég að gera síðustu vikuna fyrir aðgerð þar sem þær geta annars aukið hættu á blæðingu. En viti menn; þega ég hætti að taka þessar töflur varð ég svona líka lélegur, bara hálf ógangfær vegna verkja og alveg skelfilega stirður. Þar með skildi ég hversu lélegur ég raunverulega var orðinn og að það væri alveg gríðarlega áríðandi að ljúka Þessu af. Þetta er mér til stórrar hjálpar í dag við að sætta mig við það sem fram undan er. Það gerir líka að verkum að ég hlakka mikið til að verða af með áralanga verki og stirðleika.

Í dag hringdi ég í vin minn sem er rúmliggjandi vegna kvefs eða flensu. Veistu, sagði hann, hann pabbi minn fór aldrei í þessa aðgerð vegna þess að hann þorði ekki, en hann hefði svo sannarlega þurft að gera það. Ég var hissa á því að hafa aldrei heyrt þetta hjá honum áður og fannst að sama skapi skelfilegt að heyra það. Þá mun ég aldrei gleyma því að pabbi leið af þessu í áratugi. Hann var hreinlega stórfatlaður maður af sliti í mjaðmarliðum.

Svo segi ég bara sjö, níu, þrettán og vona að ég fái ekki kvef eða nokkra kveisu fyrir hádegi á morgun því að mér hefur verið tilkynnt að þá verði ekkert af aðgerð um sinn.


Kommentarer
Þorsteinn

Ég óska þér bara til hamingju að komast í þessa aðgerð. Það sem ég hef heyrt og séð er að fólk öðlast nýtt líf eftir þetta. Með ósk um gott gengi. Ég hef samband þegar þú ert kominn heim aftur

2009-09-23 @ 02:52:43
Rósa

Já, þetta er nú stórflott afmælisgjöf ég fæ frá Sænska ríkinu! Nýr mjaðmaliður handa honum pabba mínum!



Kveðja,



R

2009-09-23 @ 08:26:28
Gudjon

Þakka ykkur fyrir bæði tvö. Já, þannig gastu séð það Rósa, sem afmælisgjöf til þín. Það var ekki slæmt.



Kveðja,



Guðjón

2009-09-23 @ 09:58:47
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Mér finnst stórkostlegt pabbi að það sé komið að þessu og ég horfði upp á pabba þinn, afa minn í mörg á dragast áfram illa á sig kominn vegna mjaðmanna og mörg voru þau verkin sem ég þurfti að vinna fyrir hann vegna þess að hann var ekki fær um það vegna mjaðmanna. Þér munu aukast og auðnast lífsgæði eftir þetta pabbi minn, gangi þér vel.

Kv

Valgerður

2009-09-23 @ 11:12:52
Gudjon

Þakka þér fyrir Valgerður mín, það verður gott fyrir mig að hafa allar góðar óskir sem ég hef fengið með mér á sjúkrahúsið.



Kveðja,



pabbi

2009-09-23 @ 11:30:42
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þóra H Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón og Valdís til hamingju með litla gullmolann hann nafna þinn þessi drengur er gullfallegur og gangi þér vel í aðgerðinni þú verður eins og táningur á eftir og bloggar bara mikið þegar þú ert komin heim baráttukveðja



Þóra

2009-09-25 @ 16:29:24


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0