Dagurinn í dag

Ég var sestur framan við sjónvarpið með kaffibolla og súkkulaðibita og var í þann veginn að lofa mér að ég skyldi bara lata þar þangað til ég færi að sofa. Það var meira súkkulaði við hliðina á mér og engan veginn útilokað að ég mundi semja um það við mig að ég ætti annan súkkulaðibita skilinn eftir dagsins önn. En nú fann ég allt í einu fyrir því að mér líkaði þetta alls ekki. Ég hafði nefnilega ákveðið fyrr í dag að Ég skyldi setjast niður og skrifa nokkrar línur. Ég hefði gott af því.

Í morgun hafði ég tvennt að velja um. Annað var að fara á fætur, borða morgunverð og byrja svo í rólegheitum að mála og vinna að smá verkefnum sem eftir eru á ýmsum stöðum í bústaðnum okkar. Smiðir þekkja þetta og þeir sem hafa byggt þekkja þetta. Listi hér og listi þar, sparsla smá og mála, skrúfa einhvers staðar þar sem óþægilegt er að komast að, veggfóðra smá og fleira og fleira. Hitt sem ég hafði svo að velja um var að gera samviskusamlega æfingarnar sem hann Renè sjúkraþjálfari í Örebro hafði ráðagt mér og einnig æfingar sem hann Elías sjúkraþjálfari í Vestmannaeyjum kenndi mér í vor. Svo merkilegt er það að mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að byrja á þessum æfingum en jafnskjótt og ég hef byrjað er það notalegt, virðist mjög þarft og er hreinlega skemmtilegt. Ég valdi æfingarnar.

Það voru fínar fréttir í sjónvarpinu í dag. Sjúkrahúsið í Lindesberg er fjórða besta/vinsælasta sjúkrahúsið í Svíþjóð. Það er í Lindesberg sem setja skal titanliðamót í mjöðmina á mér sem síðan skal gera mig að hraðskreiðum yngri manni á ný. Annars ætti ég kannski að fara að athuga hvort aldur minn er rétt skráður. Það var nefnilegsa til umræðu í Vornesi um daginn hversu gamall ég er. Ég á ekki erfitt með að segja til um aldur minn og í fyrirlestri nefndi ég hversu gamall ég er. Þá sögðu sjúklingar að ég gæti ekki verið meira en 59 ára. Það var ekki erfitt að taka ofan hattinn fyrir svona jákvæðri umsögn.




Lóðin við bústaðinn okkar er vel hirt. Það er ekki mér að þakka, það er henni Valdísi að þakka. Í gær sló hún hluta af lóðinni og í dag sló hún það sem eftir var, hún giskaði á 1200 fermetra. Samtals er það sem hún slær um 2000 ferm. Það er mikill þrái í henni hvað þetta varðar og það er ekki auðvelt að fá hana til að slá slöku við varðandi lóðarhirðinguna. Ég heyrði eitt sinn um fjölskyldu sem fékk heimsókn vina. Þeir gengu um lóðina ásamt heimilisföðurnum og hældu manninum fyrir frábæra lóðargerð og spurðu hvort þetta hefði ekki verið erfitt. O, ekki svo mjög, svaraði hann.

Það var reyndar konan hans sem hafði unnið lóðina.




Það er ég sem er á þessari mynd að mála út í skógi. Þessi vinnubekkur á alls ekki heima þarna en einhvers staðar verður hann að vera enn um sinn. Ef svíar sem aldir eru upp í sveit hefðu séð til mín hefðu þeir hrist höfuðið. Að vera að mála innidyragerefti og fleira fínt úti í skógi, það er ekki neitt sem hægt er að mæla með. Tréð til hægri við mig er unglings eik og hægt er að merkja að ein greinin er beint yfir mér. Tréð vinstra megin við mig er björk og greinar hennar eru hærra uppi og yfir mér. Ef það kæmi smá vindhviða mundu birkifræ og óteljandi fjöldi annarra fræja úðast yfir það sem ég er að mála, einnig allt lauslegt sem hvílir á aragrúa laufblaða sem er beint yfir vinnubekknum, og þá verður eftirvinnan ekki svo skemmtileg. Grunnmálning með hundruð fræja föst í málningunni, nei og aftur nei. Málið var bara það að það kom engin vindhviða og engin fræ féllu i málninguna. Ég hed bara að ég sé bjartsýnismaður. Ég ætla að leika leikinn aftur á morgun og mála eina umferð með yfirmálningu. Kannski koma einhverjir ósýnilegir sveppir í málninguna en ég mála líka eina umferð eftir uppsetningu og þá láta hugsanlegir sveppir í minni pokann.

Nú er það svo að í staðinn fyrir að lata í hægindastólnum og éta súkkulaði er ég búinn að skrifa nokkrar línur. Það gerir aftur að verkum að ég á súkkulaði til helgarinnar. Í fyrramálið er ég svo ákveðinn í að gera æfingar sjúkraþjálfaranna. Annars er þetta merkilegt með fjótinn sem á að fara í viðgerð í Lindesberg. Ég vaknaði um miðja nótt um síðustu mánaðamót og hafði þungan verk í fætinum allt frá rist og upp að mjöðm. Mér leist alls ekki á, varð hreinlega smeykur, og hélt að nýr erfiður áfangi væri að byrja. En eftir svolitla stund sleppti verkurinn mér til mikils léttis og ég sofnaði á ný. Síðan hefur mér liðið allt öðru vísi í fætinum og ég er hættur að nota stafinn. Mér hefur verið kennt að ónýt mjöðm getur ekki læknast, annars mundi ég halda að ég væri á batavegi.



Kommentarer
Guðmundur

Jæja, það er gott að fóturinn linar aðeins á takinu; vonandi færðu bara bærilegan frið fram að aðgerð.

Lærði nýja sögn þarna af þér, að "lata". Líkar hún, enda hef ég meiri og meiri þörf fyrir þetta orð til að útskýra gerðir mínar núorðið :)

2009-09-12 @ 00:18:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0