Lindesberg

Ég varð stoltur í dag, ég get ekki neitað því. Upp úr klukkan átta í morgun lagði ég af stað upp í Lindesberg til undirbúningsfunda fyrir margnefnda mjaðmaaðgerð mína. En takið nú eftir; það er ekki þessi aðgerð sem er aðal málið í dag.

Lindesberg er lítill afar fallegur staður með um það bil 9000 íbúa. Leiðin þangað frá Örebro liggur gegnum fallegt landbúnaðarhérað og það er hluti leiðarinnar sem ég fór svo oft meðan við áttum heima í Falun en ég vann í Vornesi. Ég ætla ekki að rekja mikið af því sem fram fór á sjúkrahúsinu og varðar aðgerðina. Þó það að ljóshærð hjúkrunarkona eitthvað á fimmtugs aldri spurði mig svo oft hvort ég væri kvefaður, og eins ef ég yrði kvefaður yrði ég að hringjan umsvifalaust til þeirra því að þá yrði að fresta aðgerðinni. Þetta varð svo mikið kveftal að ég var á tímabili farinn að halda að ég væri orðinn kvefaður.

Ég þurfti að bíða dálítið hingað og þangað og hitti þá svolítið af fólki. Hávaxin, dökkhærð hjúkrunarkona trúlega um sextugt var þarna á röltinu og kom með bréf til mín sem annars er yfirleitt sent í pósti. Hún settist niður og við spjölluðum svolitla stund. Þá tók ég eftir því að hún talaði Dalamál. Aðspurð sagðist hún vera frá Falun. Einmitt. Ég gat þá sagt frá því að við Valdís hefðum búið í Falun og Svärdsjö í þrjú ár. Svo töluðum við um mállýskur.

Þú talar eins og hann Hlöðver, sagði hún. Þess vegna vissi ég strax að þú kæmir frá Íslandi. Makalaust hvað hann var fín manneskja hann Hlöðver. Það var svo synd að hann skyldi komast á aldur þessi maður og verða ellilífeyrisþegi. Hvað við söknuðum hans og söknum hans enn. Virkilegt góðmenni og skemmtilegur var hann.

Þau hafa eflaust haft eitthvað gælunafn á Hlöðver því að hún átti mjög erfitt með að segja nafnið. Ég var reyndar í vafa um hvaða nafn hún væri að reyna að segja en ég er nokkuð viss um að það var þarna læknir sem heitir Hlöðver. Það var varla hægt að gefa nokkrum manni betri vitnisburð en þessi kona gaf þessum fyrrverandi vinnufélaga sínum. Þetta gerði mig meira forvitinn svo að ég spurði eftir honum Theódór.

Já hann Theódór! Að hann skyldi hætta hjá okkur. Ég held að hann hafi flutt eitthvað niður á Skán. En veistu að hann ætlar að koma í haust og vinna hér í þrjár vikur. Það er sama með hann Theódór. Alveg úrvals manneskja og svo góður læknir og þvílík eftirsjá að honum. Og hún Guðrún (kona Theódórs). Hún er sama úrvalsmanneskjan og hann Theódór og alveg frábær félagsráðgjafi. Það var svo gott að hafa þetta fólk hérna á sjúkrahúsinu.

Ekki er ég viss um að ég hafi allt orðrétt eftir en efnislega tel ég þessa frásögn rétta. Þetta lætur kannski of vel í eyrum en konan var mjög eðlileg og ekta og við höfum líka áður heyrt afskaplega vel talað um þetta fólk.

Þegar erindum  mínum var lokið á Lindesbergs lasarett gekk ég út og yfir bílastæðið fyrir fatlaða. Þar gekk ég undir tvö reyniviðartré svo hlaðin berjum að greinarnar héngu eins og vængir á skarfi sem situr og þurrkar sig á klettagnípu við Eyjafjörð. Þetta fékk mig til að líta til baka heim að húsinu og þá sá ég að ég hafði gengið nánast undir fjögur svona tré við aðalinnganginn. Eitthvað hef ég verið annars hugar þar sem ég tók ekkert eftir þeim trjám þegar ég gekk undir þau. Svo falleg sem þessi tré voru þarna í dag og okkur finnst reyniviður vera illgresi á Sólvöllum. Spurning hvort við þurfum að breyta því hugarfari.

Það var líka reyniviður sunnan undir gamla íbúðarhúsinu á Kálfafelli. Þegar Esra Pétursson læknir tók af mér illa farinn litlafingur vinstri handar fyrir meira en 60 árum síðan lá ég á stofuborðinu í stofunni í gamla bænum. Annað borð var haft undir hendinni á mér þó að ég væri ekki stór og ef ég man rétt þá var það kallað litla borðið. Esra sýslaði við hendin á mér og ég horfði forvitinn á og var hvergi banginn. Allt í einu sagði Esra mér að horfa horfa út um gluggann sem var hægra meginn við mig og horfa á tréð þar utan við. Það var reyniviðartréð. Síðan horfði ég á tréð og stalst inn á milli til að horfa á Esra. Eitt sinn þegar ég leit á hann var hann að færa fingurflakið frá hendinni á á mér með töng. Aðdáun mín á læknavísindunum átti sér engin takmörk og það var við þetta tilfelli sem ég ákvað að verða læknirinn sem ég aldrei varð. Þannig lifir þetta í minningu minni og hefur gert alla áratugi.

Það sem gerði mig stoltan í dag voru orð konunnar í Lindesberg um íslendingana.



Kommentarer
Auja

Vona að allt gangi vel hjá þér Guðjón minn í aðgerðinni (sem það gerir að sjálfsögu)

Læknirinn sem þið voruð að tala um hann heitir Hlöður. Gaman að heyra hvað er vel talað um Tedda og Guðrúnu líka. Þau búa hér á Akureyri núna. Fluttu heim fyrir ári síðan en þau bjuggu í Kristianstad. Hann Teddi er frá Húsavík, gamall leikfélagi þaðan . Þau eru alveg afskaplega vandað fólk. Má til með að segja þeim þetta.

Knús til ykkar Auja

2009-09-17 @ 22:41:35
Gudjon

Gaman að þessu Auður. Það er þá ekki svo vitlaust að blogga! Hlöður já. Ég sagði það líka að ég hefði ekki verið alveg viss um hvaða nafn hún var að tala um, en það var líka góða umsögnin sem maðurinn fékk sem skipti mestu máli. Ég hélt þetta líka að Theódór og Guðrún væru flutt til Íslands en þau vissu ekki betur í Lindesberg enn þau væru ennþá í Svíþjóð. Alla vega sögðu þau að Theódór kæmi þangað í þriggja vikna vinnu í haust.



Kveðja,



Guðjón

2009-09-17 @ 23:05:13
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0