Kominn í gott frí

Hvað það var gott að renna úr hlaði í Vornesi í dag og halda heim á leið. Ég fór að vísu nokkuð seint af stað, hefði getað lagt af stað rúmum klukkutíma fyrr en ég gerði, en sumir sjúklinganna sem fengu heimsókn í dag, sunnudag, vildu svo gjarnan kynna mig fyrir sínum nánustu. Ef það þarf ekki meira en það til að gleðja fólk, já, því ekki að taka þátt í því svolitla stund?

Það sem gerði það sérstaklega notalegt að yfirgefa Vornes í dag var að ég er búinn að vera í býsna strangri vinnu með allar þessar nætur sem ég hef unnið í sumar, og svo að ég er að fara í næstum tveggja vikna frí. Oj, oj, hvað ég nýt þess. Landið var fagurt og frítt en hvergi sáust fannhvítir jöklanna tindar en hins vegar sá ég þungbúin úrkomuský á vesturhimninum. Þegar ég átti eftir svo sem 25 kílómetra í Örebro byrjaði að rigna. Fyrst hafði ég rúðuþurrkurnar á letihraðanum, síðan á næsta stigi þar fyrir ofan og að lokum á mesta hraða. Ekki nægði það og ég hægði mjög ferðina. Vatnið hafði ekki við að renna af veginum þannig að það má segja að allir bílar óðu virkilega elginn. Svo kom einn af þessum stóru vörubílum með stóran aftanívagn, samtals á sjö hásingum og 24 metrar á lengd. Þá varð ástandið í Fordinum okkar þannig að það var eins og ég hefði ekið undir Skógafoss. Ég vissi að vegurinn var beinn framundan svo að þær sekúndur sem ég sá ekkert fyrir vatnsaustrinum frá vörubílnum einbeindi ég mér í að halda beinni stefnu. Þegar ég byrjaði á sjá framfyrir mig aftur sá ég útskot á veginum og þar lagði ég.

Ég hringdi í Valdísi og sagði henni að ég væri veðurteftur á veginu 20 km frá Örebro. Hún hélt að ég væri að reyna að segja brandara og sagði að það væri sól í Örebro. Eftir nokkrar mínútur hætti mjög skyndilega að rigna og ég hélt af stað á ný. Eftir tveggja kílómetra akstur var vegurinn svo þurr að það hafði greinilega ekki rignt þar í langan tíma. Nú sit ég heima hér í Örebro, kvöldrökkrið er lagst yfir, það er logn, þurrt og 14 stiga hiti.

Svo má ég til með að segja svolitla sögu um útlit mitt. Í fyrra komu þau Rósa og Pétur með gallabuxur sem ekki pössuðu lengur á Pétur, engar lélegar slíkar. Á merkinu sem er á buxunum sem ég er í núna stendur til dæmis Calvin Klein (það hlýtur að vera fínt merki Calvin Klein). Ég sem hef verið vanafastur í meira lagi og alltaf viljað ganga í buxum með egghvössum brotum er nú farinn að ganga í gallabuxum -og mér líkar það stórvel. Samt var svolítið erfitt fyrir mig að gefa mig í byrjun en nú er það um garð gengið.

Það var starfsmannafundur í Vornesi eftir hádegi á föstudaginn var. Við hlið mér sat Annelie hjúkrunarfræðingur. Hún er hávaxinn kona rétt undir fertugu, ljóshærð, þægileg í framkomu og samviskusöm svo að af ber. Þegar ég var að draga út stólinn til að setjast á hann ýtti hún með fingri á Calvin Klein merkið og sagði prúð að vanda: Þú ert farinn að ganga mikið í gallabuxum Guðjón, það gerir þig unglegan. Já, hvað segir ellilífeyrisþeginn þá. Ég sagði einfaldlega; þakka þér fyrir Annelie.

Að lokum vil ég segja um Pétur að það var ekki vegna þess að hann væri svo feitur sem buxurnar pössuðu ekki lengur á hann. Ég held hreinlega að hann sé of grannur í þær núna.


Myndin er frá Noravatninu skammt norðan við Örebro.

Hér með ætlum við Valdís að horfa á myndina Menn sem hata konur. Ég hlakka til frídaganna og spáin er síðsumarspá með 17 til 18 stiga hita. Gangi ykkur allt í haginn.


Kommentarer
Valgerður

Fóruð þið í bíó eða er myndin komin á DVD hjá ykkur?

2009-09-08 @ 11:06:32
Gudjon

Myndin er komin á DVD og við horfðum á hana heima í stofu.

2009-09-08 @ 12:14:19
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0