Kvefaður karlmaður

Ég er kvefaður karlmaður, sem sagt veikur maður. Ég hnerra, snýti mér, þurrka augun, styn og andvarpa. Legg mig, fer á stjá, legg mig aftur, fer á stjá aftur, sest niður og kíki í tölvuna. Þó að ég geri grín að mér í þessu sambandi væri mér mun rórra ef ég gæti tryggt að ég smitaði ekki Valdísi. En hún segist ekki ætla að smitast af þessu og það er bara að vona það besta. Haustkvef tollir nefnilega svo lengi við hana. Að ég smitaðist var ekki skrýtið fyrst ég var á annað borð að vinna í Vornesi. Einn daginn þegar ég kom í vinnuna var kvefið þar staðreynd og ég var grunlaus mitt inn í hósta- og hnerrastormunum upp á marga metra á sekúndu.  Heimsvanur listamaður sem er innskrifaður kom til mín og þurfti að tala við mig og bar sig afar illa vegna kvefsins sem hann þjáðist af. Hann blés eins og hvalur og þegar ég bað hann að sýna tillitssemi lofaði hann skilningsríkur að gera það. Svo teygði hann fram neðri vörina og andvarpaði svona líka svakalega og þjáningarrfullt svo að vindgusan lék um andlit mitt. Þá var mér alveg ljóst að ég kæmist ekki undan.

Eftir hádegi í gær fórum við á Sólvelli. En hvað nú? Er það bara Vornes og Sólvellir sem ég þekki til? Ég alla vega skrifa oft um þessa tvo staði. Nær sjóndeildarhringur bara til þessara tveggja staða? Og um leið og ég skrifa þetta dettur mér í hug ákveðinn atburður. Ég var að koma í fyrsta skipti til Svíþjóðar á leið minni í Svartnes. Flugvélin var lent og var á leiðinni að flugstöðvarbyggingunni. Ég horfði á blá ljós í brautinni og fannst sem þau væru þar á víð og dreif en vissi þó að þau mundu vera alveg þræl skipulögð. Þá spurði ég sjálfan mig hvort ég væri orðinn algerlega brjálaður að láta mér detta í hug að fara á sextugs aldri mállaus til annars lands til að vinna þar. Skömmu síðar gekk ég inn flugstöðvarbygginguna sem mér fannst gríðarlega stór og svo mætti ég Rósu og Pétri. Ég Þóttist vera hugaður eins og víkingi bæri og spurði hvar blaðamennirnir væru. Ha ha.




Þó að ég væri í aumingjaleik í dag fór Valdís út og tíndi síðustu eplin af litla eplatrénu okkar. Hún tíndi líka sveppi undan stóru Sólvallaeikinni. Merkilegt hversu oft er hægt að fara þangað og tína sveppi. Síðan hreinsaði hún sveppina og steikti þá og nú bíða þeir í frystinum eftir að fara í einhverja sunnudagssósuna. Þegar hún var búin að ganga frá sveppunum eldaði hún eplagraut og svo var eplagrautur í hádegismat.



Eftir hádegismatinn fór ég inn að tölvunni og sem er á borði undir austurglugga, þeim sem snýr út að skóginum. Mörg laufblöðin eru orðin lúin en það er enginn haustlitur. Þar sem ég horfði þarna út í skóginn velti ég fyrir mér hvílíkur fjöldi af trjátegundum, lyngi, grösum og blómum lifir þar í að því er virðist svo ljúfu samfélagi. Og innan um þetta samfélag er svo annað samfélag, það er að segja fuglar, skordýr, slöngur, broddgeltir, hérar, dádýr og fleiri spendýr. Á tímabili í vetur virtist meira að segja greifinginn leita sér skjóls undir bústaðnum. Komist ég í kynni við þetta líf allt saman verður sjóndeildarhringur minn alls ekki svo þröngur.  Svo tók ég myndavélina og tók myndina hér fyrir ofan.



Svo sneri ég stólnum og horfði út um gluggann hinu megin á herberginu, mót vestri. Þá auðvitað reisti ég mig upp úr stólnum og tók meðfylgjandi mynd. Það er þarna sem sólin sest á kvöldin. Snemma á morgnana smýgur hún eftir bestu getu gegnum laufþykknið utan við austurgluggann og svo sest hún þarna á kvöldin.

Við Valdís tökum þátt í þessu saman. Það finnast mörg önnur markmið en að við bindum okkur bara við þetta. Eitt marknmiðið getur heitið Härjedalen, annað Jämtland, enn annað Högakusten, Västerbotten, skerjagarðar á mörgum stöðum, beykiskógarnir á Skáni og bara nefndu það.

Svo að lokum þetta. Rósa og Pétur voru á ferju i skerjagarði utan við vesturströnd Kanada. Þeim fannst eitthvað þægilega kunnuglegt við þetta umhverfi og áttuðu sig þegar enskumælandi fólk sem sat nærri þeim sagði: Þetta er bara alveg eins og Stokkhólmsskerjagarður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0