Frjáls maður

Í morgunn taldi ég dagana þangað til ég þyrfti að fara að vinna og komst að því að það væru fleiri dagar þangað til en dagarnir sem ég hef verið frískur eftir kvefið sem ég fékk fyrsta daginn eftir að ég vann síðast. Nú varð þetta dálítið flókið en málið var að ég var að reyna að gera sem allra mest úr þessum fríu dögum fram að næstu vinnu. Við vorum búin að vera hjá sjúkraþjálfaranum og skreppa í bankann og Valdís keypti lambakjöt í Alibaba. Svo var ég búinn að hringja í sjúkrahúsið í Lindesberg og fékk ekki nánari dagsetningu en svo að aðgerðin verður ekki gerð fyrr enn í seinni hluta október. Kannski hefði ég getað röflað en þegar hjúkrunarfræðingurinn sem ég talaði við sagði að doktor Hallberg, skurðlæknirinn sem á að framkvæma á mér mjaðmaaðgerðina, væri í fríi og yrði í fríi eina viku til, þá hugsaði ég sem svo að það verður betri aðgerð ef læknirinn verður ánægður með lífið þegar hann hefur mig bjargarlausan á skurðarborðinu. Svo héldum við af stað á Sólvelli. Við keyrðum eftir endilangri Glommunni, en það er löng gata þar sem hámarkshraðinn skiptir ótt og títt milli 30 eða 50 km og það er svo erfitt að vita hvort maður er á 30 eða 50 km kafla hverju sinni. Við mættum strætisvasgni sem blikkaði og ég velti fyrir mér hvort það væri biluð pera í framljósunum hjá mér. En mitt í þeirri hugsun skaust lögreglumaður út á götuna og benti okkur að beygja út á hlliðargötu, hliðargötu sem er ögn breið og lögreglan er einmitt oft þarna og mælir hraða á 30 km kafla.

Í þessari hliðargötu stóðu þrír lögreglubílar og alls ekki færri en tíu lögregluþjónar. Við Valdís vorum sammála um það að héðan væri vonlaust að komast á flotta. Kurteisw ungur maður stakk hálfu höfðinu inn um gluggann hjá mér og bað um ökuskýrteini. Rosalega eruð þið mörg hér, sagði ég. Hann sagði að þarna stæði yfir æfing hjá lögregluskólanum. Flott hjá þeim sögðum við Valdís. Síðan bað hann mig að blása og ég sem hef svo gaman að því að blása fyrir lögregluna. Aldrei fékk ég að gera þetta á Íslandi en svo sem 1,5 sinnum á ári fæ ég að blása í Svíþjóð. Ég mældist ófullur og ungi lögreglumaðurinn þakkaði fyrir og við fengum að halda áfram. En það fengu ekki allir að halda áfram. Bíllinn framan við okkur þar sem við stoppuðum hafði greinilega ekki fengið að halda áfram. Upp að bílnum hallaði sér órakaður maður sem reykti í ákafa og virtist bíða eftir einhverju. Kannski beið hann einhvers sem mátti keyra bílinn hans af vetvangi. Hefði ég þurft að velja mér herbergisfélaga á þessu augnabliki hefði ég ekki valið hann. Þar var Valdís sammála.

Áfram var haldið áleiðis til Sólvalla en við þurftum þó að koma við í K-rauta byggingarvöruversluninni og kaupa skrúfur. Þar hringdi síminn í vasa mínum og ég þekkti númerið á gamla símanum sem ég hafði þegar ég var dagskrárstjóri í Vornesi. Þá vissi ég það. Fjárinn sjálfur. Nú fækkar frídögunum mínum svo um munar skildi ég. Eftir kurteisisávörp spurði Ove hvort ég vildi vinna eina auka nótt í vikunni. Nei! Svo samþykkti ég að gera það þó að ég vissi að það tæki einn og hálfan sólarhring af frelsi mínu. Ég verð aldrei alvöru ellilífeyrisþegi með þessu áframhaldi. Unga fólkið er oft veikt en gamlir jaxlar verða bara veikir í fríum. Ég sem sagt fer af stað í vinnuna klukkan tíu árdegis á morgun, þriðjudag.

Sem fyrr er ég háður því að vinna talsvert, ég sem hafði hlakkað svo mikið til hinna frjálsu ellilífeyrisdaga. En ég hef nú lúmskt gaman að þessu líka ef það er ekki of oft. Mér finnst Vornes betri vinnustaður nú en meðan ég var þar fastráðinn. Ég fer þangað til að gera gagn, það er að segja að rétta út hendina til þeirra sem eru hjálpar þurfi. Ég hef ekki minnstu áhyggjur af því hvaða ákvarðanir staðarhaldarinn i Vornesi tekur og ég geri mér ekki grillur út af því hvað dagskrárstjórinn gerir hverju sinni. Þetta gerir mig að frjálsum manni. Að rétta út hendina til þeirra sem eru hjálpar þurfi sagði ég. Þessir sem eru hjálpar þurfi, þurfa líka að vilja taka við hjálpinni. Enginn getur hætt drykkjuskap nema hann vilji það sjálfur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0