Nú er lag á gamla fólkinu

Frá desember 2008.

Ég verð að fara að sofa bara hið bráðasta. Við nefnilega förum snemma á fætur á morgun, miðvikudag, og förum með rútu til Stokkhólms. Bara frétt til næsta bæjar. Annað kvöld förum við svo í leikhús með Rósu og Pétri til að sjá My Fair Lady. Það er nú tími til kominn. Við sáum My fair lady líklega 1962  í Þjóðleikhúsinu. Ég man afskaplega lítið frá þessari sýningu fyrir utan eitt atriði. Það var þegar sjálfur málvísindamaðurinn í sögunni sagði að hann yrði sko ekki skotinn í svona "blómasölustelpu", gæti ég ýmindað mér að hann hafi sagt, en sannleikurinn mun hafa verið sá að hann var alveg bullandi skotinn í henni. Þegar hann sagðist ekki vera skotinn í stelpunni gall við í konu minni, Valdísi, svo hátt að heyra mátti um allan salinn í Þjóðleikhúsinu: Nei! nei! Hún lifði sig inní söguþráðinn svo ekki varð um villst. Ég varð alveg agndofa yfir því hvað þessi unga kona við hlið mér var hugrökk að verða þátttakandi í sýningu Þjóðleikhússins á þennan hátt, en mér fannst það bara nokkuð sniðugt og alveg fráleitt að ég þyrði að gera það.

Við verðum í Stokkhólmi fram á laugardag, en á laugardag, áður en við förum heim, ætlum við á Skansinn þar sem allt iðar í jólamörkuðum. Þar ætlum við að mæta miklu af fólki, nikka og segja hej! öðru hvoru. Kannski smökkum við á einhverjum þjóðlegum réttum sem fólk gefur smá bita af til að laða að kaupendur. Líklega lítum við á gömul hús og hlustum á þjóðlega tónlist og bara allt mögulegt. Svo er meiningin að við verðum þreytt og þá höfum við okkur inn í veitingahús og fáum okkur kaffi og alveg gríðarlega væna tertusneið með kremi, marsipan, ávöxtum og rjóma. Eftir nokkra hvíld á þessum kaffistað förum við á rútustöðina og við Valdís höldum svo heim á leið. Trúlega verður Óli lokbrá með í rútunni, enda veit hann að stórar rjómatertusneiðar gera honum starfið auðvelt.

Kveðja,

Guðjón


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0