Draumur

Ég bloggaði um það nýlega að ég fór með bílinn í þjónustu og þeir yfirfóru hann af kostgæfni. Niðurstaðan var sú að það fundust tveir fæðingagallar sem umboðið ætlaði að lagfæra síðar mér að kostnaðarlausu. Ég fór síðan með bílinn á verkstæðið fyrir um það bil viku, lagði lykilinn á afgreiðsluborðið og fékk í staðinn lykil að bíl sem ég átti að hafa meðan viðgerð stæði yfir. "Hann stendur þarna á afgirta svæðinu" sagði afgreiðslukonan "og númerið stendur á spjaldinu" sagði hún. Svo fór ég inn á afgrita svæðið og leit á spjaldið sem var áfast lyklinum. Þar stóð HGU og ég svipaðist eftir bíl með bókstöfunum HGU á skrásteningarnúmerinu. Þennan bíl bara fann ég alls ekki og ég fór aðra umferð og fann hann ekki þá heldur. Ég var í þann veginn að fara inn og spyrjast fyrir um þetta þegar mér datt í hug að þrýsta á hnapp á lyklinum og skima eftir að einhver bíll blikkaði. Og mikið rétt, bíll rétt hjá mér blikkaði og ég settist þar undir stýri. Áður en ég startaði leit ég hinu meginn á spjaldið og þar stóðu stafirnir sem voru í skrásetningarnúmerinu.

Þetta minnti mig á draum sem mig dreymdi fyrir fleiri mánuðum. Draumurinn byrjaði á því að ég stóð fyrir utan einn aðalinnganginn á Arlandaflugvelli. Í annarri hendinni hafði ég lyklakippu og þar á meðal var lykillinn að bílnum okkar. Ég vissi að Valdís sat inni á einu veitingahúsanna og drakk kaffi og dundaði sér eitthvað fleira. Á Arlanda eru mörg bílastæði. Mikið er af bílastæðum úti á fleiri stöðum, trúlega einhverjir hektarar samtals, og innan húss eru bílastæði á nokkrum stöðum í kjöllurum og sérstakri bílastæðabyggingu á nokkrum hæðum. Þetta er óhemju víðáttumikið svæði og það tekur mjög langan tíma að fara um það allt. Sannleikurinn var nefnilega sá að ég hafði ekki hugmynd um á hvaða bílastæði bíllinn okkar var. Og ekki nóg með það, ég vissi ekki hverrar tegundar bíllinn okkar var og ekki heldur hvernig hann var á litinn. En eitt vissi ég; ef ég færi um bílastæðin eitt af öðru og ýtti oft á hnappinn á bíllyklinum mundi ég að lokum sjá einhvern bílanna blikka og þá mundi það vera bíllinn okkar.

Ég var vel meðvitaður um að þetta gæti tekið gríðarlegan tíma en það var allt í lagi. Ég var gamall maður, mikið eldri en ég er í dag, og Valdís var álíka gömul. Ég hafði allan tíma í veröldinni og það olli mér ekki minnstu áhyggjum að leitin gæti tekið tíma. Ég hafði heldur engar áhyggjur af Valdísi því að ég vissi að hún hafði jafn gott um tíma og ég og hún mundi bíða við sama borð á sama veitingahúsi þangað til ég kæmi til baka. Svo rölti ég rólega af stað frá aðalinnganginum og það ríkti friður í brjósti mínu. Ég vísaði lyklinum fram á við og var tilbúinn að þrýsta á hnappinn þegar ég kæmi að fyrsta bílastæðinu þar sem ég hafði valið að byrja leitina.

Það var einn hlutur sem ég var svolítið hissa á í draumnum en hafði engar áhyggjur af. Ég var svolítið hissa á að ég skyldi ennþá hafa ökuskýrteini fyrst ég vissi ekki hvernig bíllinn okkar liti út.

Svo vaknaði ég og ég fann að ég vaknaði frá fallegum draumi. Ég fann fyrir mikilli ró og skynjaði hversu þýðingarlaust og fáránlegt það er að velta sér upp úr hversdagsáhyggjum. Að svo búnu sofnaði ég á ný.


Kommentarer
Rosa

já, það er bölvaður óþarfi að vera að hafa endalausar áhyggjur. breytir engu.



kveðja,



r

2008-12-22 @ 16:29:15
Guðjón

Nei, svo sannarlega, það breytir engu að öðru leyti en því að með tímanum brjóta áhyggjurnar niður og þá er nú hægt að tala um vítahring.

2008-12-22 @ 22:09:47
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0