Sjónvarp, snjór og jólakonsert

Ég vann í Vornesi á fimmtudag og föstudag í vikunni. Það var að vanda gott að koma í Vornes og það yljar mér bara meira og meira um hjartaræturnar að koma þangað og hitta þetta fólk sem hefur tekið ákvörðun um að gera breytingu á lífi sínu. Þetta er gríðarleg breyting sem fólk ræðst í að hætta að drekka og neyta eiturlyfja. Í því er líka innifalin ákvörðun um að verða betri manneskja. En sannleikurinn er sá að ég var dauðþreyttur eftir þessa tvo daga enda tel ég mig alveg hafa efni á að leggja allt mitt að mörkum þegar ég vinn bara öðru hvoru. Ég svaf því lengi í morgun og við fórum rólega af stað. Valdís kveikti á sjónvarpinu og ég heyrði talað um Martti Ahtisaari. Ég ætla bara að skrifa Matti Attisari eins og það er sagt, enda skrifa margir nafnið þannig. Hann er alltaf jafn þægilegur þessi maður og við Valdís drögumst að sjónvarpinu þegar nafn hans er nefnt. Núna var að sjálfsögðu talað við hann í tilefni friðarverðlauna Nóbels. Í Vornesi vinnur finni sem líkist Matti í útliti og einnig hafa þeir sama hrynjanda í sinni fallegu finnlandssænsku.

Mér dettur oft í hug þegar Matti er í umræðunni, atvik sem átti sér stað á tröppunum á Bessastöðum þegar fyrrverandi kona Ólafs Ragnars var jörðuð. Þá komu þeir allir samferða til Bessastaða konungarnir frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð ásamt Matti Attisari sem þá var forseti Finnlands. Konungarnir heilsuðu fyrst. Þeir heilsuðu allir með handabandi á nokkru færi. Svo kom Matti. Hann tók líka í hendina á Ólafi Ragnari, horfði nokkur augnablik framan í hann og hefur sjálfsagt séð sorgina í augum hans. Svo gekk þessi hlýlegi finni nær, sló handleggnum yfir herðar Ólafs Ragnars og faðmaði hann að sér.

Næsta atriði í þessu morgunsjónvarpi var viðtal við Carl-Erik Svanberg framkvæmdastjóra Ericsson. Þar gaf að líta þennan volduga viðskipta- og athafnamann í nýju ljósi. Við hlið hans sat þroskaheftur maður sem er í félagskap þar sem slíku fólki gefst kostur á að æfa leiklist og söng. Og við hliðina á honum sat svo maðurinn sem leiðir þennan félagskap. Ericsson styrkir þennan félagsskap og þess vegna voru þessir þrír menn þarna saman komnir. Það var annað fas yfir Carl-Erik í þessum félagsskap og það snerti okkur svolítið. Hann mun eiga náinn eða nána ættingja sem eru þroskaheftir og það er líklega skýringin á því hversu hlýr hann var í þessu hlutverki.

Svo kom nokkuð óvænt fram í þættinum. Þáttastjórnandinn ræddi svolítið aukalega Við Carl-Erik um Ericsson og spurði hvernig hann teldi að fyrirtækið mundi koma út úr kreppunni. Jú, Carl-Erik var ekki svo áhyggjufullur. Fyrirtækið er skuldlaust sagði hann og á þess utan 30 milljarða sænskra króna inn á sparisjóðsbók. Það jafngildir í dag svo sem 420 milljörðum íslenskra króna. Jahá. Þá varð mér hugsað til útrásarmannanna á Íslandi.

Aðeins meira um sjónvarp. Ég las eitthvað um það í Morgunblaðinu eða sá það í íslenska sjónvarpinu (þetta sjáum við í gegnum tölvuna) að það væri ekki margt jákvætt sagt um Ísland í útlöndum. En þá vil ég bara segja það að ég man ekki eftir einni einustu frétt í sænsku sjónvarpi þar sem talað er illa um Ísland eða íslendinga. Leiðrétti mig einhver ef ég skrökva. Hins vegar er sagt að íslendingar eigi við afar alvarlegan vanda að etja og að það hafi vantað forsjálni í athöfnum vissra manna. Eitthvað á þá leið. Svo hafa verið nokkrir þættir um Ísland á síðustu vikum, síðast í fyrrakvöld. Þar er fjallað afar fallega um landið, um hvalaskoðunarferðir, íslenska hestinn, íslenska náttúru og bara hvað sem er. Einnig hafa verið viðtöl við íslendinga í þáttunum, algerlega án háðungar og hnútukasta. Við Valdís verðum aldrei vör við nein skot vegna íslenska efnahagsástandsins. Hins vegar erum við spurð um ástandið.

Hér fyrir neðan eru svo tvær myndir.

Svona leit úr á Sólvöllum í morgun. Það var ekki leiðinlegt að koma þangað við þessar fallegu aðstæður. Fyrsti klukkutíminn fór í að moka slóð heim að húsinu, umhverfis húsið, hreinsa innkeyrsluna og blett fyrir bílinn að standa á. Þá var kominn tími til að kveikja upp í arninum og fara svo að smíða. En það varð ekki svo langur tími á Sólvöllum í dag og það skýrist hér fyrir neðan.



Það var jólakonsert í kirkjunni og þar á eftir var jólahlaðborð. Valdís var því í kirkjunni allan daginn frá hádegi en ég mætti svo á konsert númer tvö kukkan 6. Síðan var matur og var þar mikið góðgæti. Eftir matinn var farið yfir í annan sal og þar var kaffi og talsvert mikið að dýsætum rúllutertum og sandkökum. Nú erum við komin heim, mett og ánægð með daginn, en Valdís að sjálfsögðu nokkuð þreytt.

Gangi ykkur allt í haginn,

Guðjón


Kommentarer
Rosa

hæ og hó,



kellíngin lítur vel út í kórbúningnum. og svo eru sólvellir rosalega "innbjóðandi".



þú veist að ég er að vinna fyrir hann carl-henrik? eða bara typ. ég er að vinna við verkefni fyrir personalavdelningen hjá ericsson.



kveðja,



r

2008-12-14 @ 11:12:01
Guðjón Björnsson

Já, hún er flott á myndinni.



Einmitt vegna þess að ég vissi að þú varst að vinna fyrir Ericsson var ég að hugsa um að hringja og tala um þetta en svo ákvað ég að láta það fara út á bloggið. Ég er það mikill mannþekkjari að ég sá vel að það var ekkert falskt í hans andliti eða augnaráði þegar hann horfði svo vinalega á þann þroskahefta og talaði við hann. Og þetta með varasjóðinn, það var nú alveg frábært.



Guðjón

2008-12-14 @ 13:09:10
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0