Á Skansinum 6. desember 2008

Eigum við ekki að gera þetta að hefð sagði Pétur tengdasonur  þegar við vorum búin að fara á jólamarkað á kansinum í Stokkhólmi fyrir jólin í fyrra. Þá vorum við Valdís líka búin að fara í leikhús í sömu Stokkhólmsferð. Núna fórum við öll í leikhús, við Valdís, Rósa og Pétur og svo fórum við líka öll á Skansinn. Skansinn er margt. Til dæmis nokkurs konar Árbæjarsafn og þar er stór sena þar sem íslendingar í Svíþjóð héldu upp á þjóðhátíðardaginn 1994. Það er gríðarlega margt að sjá á Skansinum.

Á þessari mynd er gamalt hús sem er flutt frá héraði sem heitir Härjedalen. Meðal fólks framan við húsið má sjá til vinstri Valdísi, Pétur og Rósu. Í herbergi sem var hitað upp með opnum eldi var par sem spilaði og söng. Karlinn spilaði á það sem hann kallaði taglhörpu. Strengirnir í hörpunni voru eins og nafnið gefur til kynna ofnir úr tagli og strengurinn í boganum sem harpan var dregin með var einnig úr tagli. Og viti menn; þetta var fínasta hljóðfæri. Konan sem var voða falleg og fallega búin söng gömul ljóð við undirleik þessa gamla hljóðfæris. Að vísu voru þau bæði fallega búin og sungu líka bæði.


Eftir viðkomu í Härjedalshúsinu komum við að aðal markaðssvæðinu. Þar er lítil sena og danspallur og þegar við komum þangað í fyrra var dansað þar við fjörugan undirleik. Núna var allt hljótt og Valdís hafði orð á að það væri ekkert verið að dansa þarna núna. Og hvað haldið þið? Varla hafði hún sleppt orðinu þegar maður og kona stigu fram á sviðið og byrjuðu að spila og syngja. Þau spiluðu "hejsan hoppsan" og fólk dansaði "hejsan hoppsan" og allir urðu glaðir.


Á Skansinum er þessi gamla kirkja og í henni var íslenska messa 17. júní 1994.


Eins og í fyrra annaðist Pétur myndatöku af okkur öllum. Hann er laginn við þetta en það er að sjá á andlitinu á mér að ég sé ekki alveg viss um að þetta takist. En það tókst nú samt.


Það eru auðvitað ljósaskreytingar á Skansinum eins og annars staðar. Þessi upplýstu tré eru við innganginn og nú vorum við orðin þreytt á röltinu og stefndum á ný að inngnaginum til að hafa okkur heim. Ef að er gáð má sjá Globen við sjóndeildarhring aðeins til vinstri á myndinni. Globen er mikil kúlulaga bygging sem tekur 16 eða 17 þúsund manns í sæti og þar er hreinlega allt mögulegt gert allt frá að ríða hestum til að halda stórtónleika.


Hvað gerir fólk svo annað á jólamarkaði en að skoða. Jú, frammi í ísskáp er nú ein krukka af hindberjasultu (til vinstri) og önnur af moltuberjasultu(til hægri). Hindber eru í Sólvallaskóginum (skogshallon) en moltuber (hjortron) vaxa ekki svo sunnarlega í landinu. Heit moltuberjasulta með ís er mikið namm namm.

Hafið það gott,

Guðjón


Kommentarer
Brynja

alveg væri ég nú til í að taka lagið með ykkur við opin eld, ég gæti spilað á greiðu, því biður kann ég ekki á taglhörpu

2008-12-07 @ 23:10:09
Anonym

Það var ótrúlegt Brynja hversu vel taglharpan virkaði og svo þegar þau sungu var þetta virkilega notalegt.

GB

2008-12-08 @ 15:32:14
Rósa

flottar myndir! og ég er sammála. söngurinn og spileríið inni í härjedalshúsinu var voðalega fínn.



kveðja,



r

2008-12-10 @ 14:25:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0