Sólvallalíf á ný

Ja hérna, nú er ellilífeyrisþeginn búinn að vinna fulla vinnu í heilan mánuð og nú eru rólegri dagar framundan á þeim vetvangi. En þá tekur annríkið á Sólvöllum við og þar er af nógu að taka. En annríkið á Sólvöllum er gott annríki. Þannig er það reyndar líka í Vornesi. Fyrstu þrjá mánuðina í ellilífeyri vann ég lítið og eftir það rúmlega hálfa vinnu. Þetta var mjög gott fyrir mig og ég einfaldlega virka mikið betur í vinnunni í Vornesi núna en ég gerði þegar ég vann þar fulla vinnu ár út og ár inn. Ekki meira af þessu hjali núna.

Við héldum á Sólvelli á sjötta tímanum með viðkomu í IKEA. Þegar við ókum gegnum akurlöndin milli Örebro og Sólvalla sáum við að það var farið að liggja mikið vatn á ökrunum. Á akri nálægt Sólvöllum var komið stöðuvatn sem ég giskaði á að væri 50 metra breitt og 300 metra langt. Á sumum ökrum er ekki búið að þreskja ennþá þar sem það hefur einfaldlega ekki komið nógu löng þurr stund til þess síðan í fyrri hluta ágúst. Í dag eru akrarnir svo blautir að engum tækjum er fært þar um lengur. Kannski kemst þetta korn ekki í hús fyrir veturinn, en ef það tekst verður það væntanlega notað í etanol, eldsneyti á bíla, þar sem það getur hvorki orðið manna- eða dýrafóður héðan eftir.

Nú erum við komin á Sólvelli. Hér höfum við úrkomumæli sem ég nefndi í síðasta bloggi. Í mælinum voru 48 mm eftir nákvæmlega tvo Sólarhringa. Það eru engin ósköp, en eftir nær daglegar rigningar í vikur verður vatnið að lokum svo mikið að geti það ekki runnið í burtu stentur það uppi í pollum um allt. Þannig er það á Sólvöllum núna, einsog líka á ökrunum hér í kring. Það er útilokað að ganga hér um öðru vísi en á stígvélum. Valdís slær ekki að sinni ef ekki gerir reglulega þurran og hlýjan dag. Ungur veðurfræðingur sem annaðist sjónvarpsspána áðan talaði um að þegar nálgaðist helgi mundi háþrýstissvæði koma norðan að og leggja sig yfir suðurhluta landsins. Þar með kemur hlýja og sólríka tímabilið sem ég er búinn að spá í september. En þá má líka búast við að frostnæturnar leggi sig yfir landið.

Á morgun ætla ég að taka til við smíðarnar af fullum krafti á ný eftir vinnutímabilið. Við hliðina á mér liggur skrifuð áætlun um smíðarnar á morgun og annað kvöld ætla ég að gera áætlun fram að helgi. Með skriflegum áætlunum ganga verkin betur. Áður en vetur gengur í garð á nefnilega að vera tilbúið nýtt og rúmgott svefnherbergi á Sólvöllum.

Hér lýkur bloggi að sinni. Myrkrið er lagst yfir fyrir þó nokkru og það rignir enn. Það er gott að vera í húsi með góðu þaki, með þakrennum og niðurföllum sem leiða vatnið hljóðlega burtu meðan viður úr skóginum hlýjar upp húsið og gerir það notalegt fyrir nóttina.

Guðjón


Kommentarer
Rósa

Velkomin til Sólvalla!



Kveðja,



R

2008-09-09 @ 19:56:15
Guðjón

Takk Rósa

2008-09-09 @ 23:03:31
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0