Veislukostur í jólahúsinu

 Sólvellir 16. janúar 2014.
 
Sé komið að Sólvöllum veginn norðan megin frá þá blasir þetta við. Ég er alveg harðánægður með þessa aðkomu og þykir staðurinn myndarlegur.
 
Sé vegurinn kominn sunnanfrá blasir hins vegar þetta við. En málið er nefnilega að ég er líka harðánægður með þessa aðkomu og þykir staðurinn jafn myndarlegur séð hérna megin frá.
 
Ég sé ekki betur en það séu ennþá jólastjörnur í gluggunum hjá mér, að vísu bara á þessum stað. Líklega hverfa þær niður í kassa um helgina. Ég er iðinn við að moka slóðir. Ég vil komast hvert sem er hvaðan sem er og þá verða slóðirnar fjölþættar eins og þræðirnir í kóngulóarvefnum. Það er næstum að það þurfi glöggt auga til að sjá að það hafi verið byggð stór verönd við Sólvallahúsið á síðastliðnu sumri.
 
Aðkoman bakdyramegin varð afar mikið skemmtilegri þegar veröndin kom, líka að vetri til. Það er önnur slóð til hægri upp við húshornið. Það er leiðin út á Bjarg og út í skóg. Ég fer þá leið mikið oftar. Það fer vel um mig hér þó að glugginn þarna rétt hjá útihurðinni sé glugginn sem Valdís sat svo oft við og hann minni mig oft á hana. Það er bara hluti af lífinu og verður áfram.
 
*          *          *
 
 Matargerð á Sólvöllum 17. janúar 2014.
 
Alltaf öðru hvoru er ég spurður út í matargerð mína. Því birti ég þessa mynd til að taka af allan vafa þess efnis að ég lifi ekki við þröngan kost. Á pönnunni er eftirfarandi: Rósakál, palsternakka, hvítlaukur, blaðlaukur, engifer, paprika, piparrót, tómatsósa og creme fraiche með papriku og chili. Ég gleymdi tómötunum. Þetta er hollusta í ríkum mæli ekki satt? Það voru þáttaskil á þessari matargerð hjá mér þegar ég fór að nota piparrótina og creme fraiche. Þetta var reglulega gott, aldrei betra en núna í kvöld. Það er mikið meira á pönnunni en ætla mætti eftir myndinni að dæma.
 
Helmingur af matnum kominn á disk. Fiskurinn er rauðspretta krydduð með pipar og salti. Rauðsprettan varð að ósköp litlu þegar ég var búinn að steikja hana í ofninum og vatnið var runnið úr henni. Ég kem til með að nota aðrar fisktegundir framvegis. Undir diskinum er einn af hinum mörgu dúkum sem Valdís saumaði.
 
Það var eftirréttur. Það voru bláber sem ég hrærði saman við tyrkneska jógúrt, 10 % feita. Ég þynnti hana lítilllega með mjólk. Ég á líka íslenskt skyr í ísskápnum, 0.2 % feitt. Hefði ég notað það hefði ég þynnt það með rjóma. Það er sem sagt engin neyð hjá mér hvað mat áhrærir. Það var hvorki koníak eða kaffi á eftir matnum. Hins vegar mundi ég allt í einu eftir poka með súkkuklaðirúsínum í búrskápnum þegar ég var búinn að ganga frá. Ég er búinn að borða fullan hnefa af því góðgæti og það á eftir eftirréttinum. Það var svo sem alveg óþarfi.
 
Gærdagurinn var ekki minn dagur en megnið af deginum í dag var betri dagur. Ég gæti vel steinþagað yfir þessu en ef ég segi bara frá því besta er ekki nokkurn skapaðan hlut að marka mig. Ég tek heldur ekki mark á þeim sem segja bara frá því besta. Enginn er í sjöunda himni 365 daga á ári. Ég hef nákvæmlega ekki undan neinu að kvarta jafnvel þó að ég vorkenni öðru hvoru sjálfum mér. Margir aðrir eiga hins vegar skelfilega bágt.


Kommentarer
Björkin

Mikið flott hjá þér.Glæsilegt.Fallegar vetrarmyndir.Krammmmmmmmm

2014-01-18 @ 23:55:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0