Frá Sólvöllum og Bjargi í Krekklingesókn

Ég var á leiðinni út á Bjarg fyrir hádegi í gær en sneri við til að bæta atriði á innkaupalistann minn. Ég var búinn að hringla kringum eitt og annað sem mér fannst ég þurfa að gera og var búinn að láta dragast. Samt skeði ekki svo mikið. Svo var kannski best að hringja líka til hennar Rósamundu Káradóttur í Hrísey eins og ég hafði hugsað mér að gera frá því að við áttum orðaskipti á feisbókinni um daginn. Ég var snúinn við hvort sem var. Svo töluðum við Rósa saman um stund og meðan ég talaði við hana sat ég nálægt bókinni Þúsund bjartar sólir sem fjallar um raunverulega lífið í Afganistan og ég fann að hugur minn dróst meira og meira til bókarinnar meðan við töluðum saman.
 
Eftir að hafa kvatt Rósu fannst mér að ég gæti eins vel lesið nokkrar blaðsíður áður en ég færi út. Svo las ég í einhvern hálftíma. Fimmtán ára unglingsstúlka og maður sem gat verið afi hennar voru að leggja af stað í heilsdags rútuferð og ferðinni var heitið frá Herat til Kabúl í þessu fjarlæga landi. Þau höfðu hittst í fyrsta skipti einhverjum klukkutíma áður en þau lögðu af stað og á þeim stutta tíma urðu þau hjón. Ég fylgdi þeim áleiðis af stað og fannst sem ég sæi fjöllin, eyðimerkurnar og holóttan veginn á leið þeirra en svo lokaði ég bókinni, mér þvert um geð, og gekk út til að sinna mínum heimaverkefnum. Ég get lofað að ég hefði ekki viljað vera 15 ára stúlkan.
 
Dúkalagningamennirnir sem urðu að snúa frá verki í baðherberginu á Bjargi fyrir þremur dögum ætluðu að koma í eftirmiðdaginn og klára það sem þeir urðu að snúa frá þá. Þá dúklögðu þeir þrjá veggi af fjórum. En sú breyting. Einmitt svona stundir eru svo skemmtilegar. En fjórði veggurinn tók þeim með mótlæti og þeir urðu frá að hverfa, dálítið vonsviknir og ég líka. Ég tók sturtuhurðirnar líka upp úr kössum sínum í gær, skoðaði teikningar og leiðbeiningar og undirbjó í huga mér uppsetningu á þeim. En hvað þær voru fínar þessar sturtuhurðir. Ég virti þær ánægður fyrir mér. Ég hafði gert gott val, alls ekki það ódýrasta en ekki það dýrasta heldur.
 
Þessir dúkalagningamenn voru hér líka fyrir rúmum hálfum mánuði og dúklögðu þá baðgólfið þarna úti þannig að nú voru þeir að koma til mín í þriðja skiptið. Þetta eru strákar sem eru nær Guðdísi dótturdóttur minni í aldri en honum Kristni dóttursyni mínum. Fyrir mig eru þeir sem sagt á barnabarnaaldri. Í gær ætluðu þeir að koma með nýjan dúk á fjórða vegginn, þann sem misheppnaðist, og þegar ég var búinn að taka til fyrir þá fór ég inn og undirbjó að gefa þeim eitthvað í svanginn. Þeir eru svo glaðir að fá eitthvað að ég verð líka glaður að bjóða þeim. Ég veit að það er ekki svo venjulegt að gera þetta í Svíþjóð nútímans en ég er ekki svo venjulegur heldur.
 
Þeim fannst svo leiðinlegt að þeim mistókst um daginn og nostruðu því mikið og gerðu svo fínt í gær. Svo virtust þeir njóta þess að koma inn til mín og fá í svanginn. Þegar þeir fóru kvöddu þeir með virktum og þökkuðu fyrir sig hvað eftir annað. Eftir var ég og virti fyrir mér fíneríið út á Bjargi. Það var bara eitt um það að segja; alveg glæsilegt og ég ánægður kall. Svo fór ég inn að ganga frá og hélt svo áfram að lesa Þúsund bjartar sólir, en bara stutta stund hugsaði ég. Svo las ég rúmlega hundrað blaðsíður.
 
Að lesa þessa bók var ferðalag um fjarlægan heim þar sem mættust ævafornir tímar og nýi tíminn. Þar sem Rússar börðust fram á tíunda áratuginn sem blöð, sjónvarp og útvarp sögðu svo mikið frá á þeim tíma. Nú var ég sjálfur kominn á þessar fjarlægu slóðir gegnum bókina og þess vegna urðu blaðsíðurnar fleiri en ég hef lesið í einni lotu síðan við bjuggum á Bjargi í Hrísey fyrir meira en fjörutíu árum. Tilfinning mín var sú að bókinn væri skrifuð um raunveruleika sem fólk lifir við. Það var ekki allt fallegt á þessum hundrað blaðsíðum sem ég las, alls ekki! en það var enginn drepinn bara til þess að gleðja mig og stytta mér stundir.
 
Ég tel mig fróðari um lífið í fjarlægu landi eftir lestur gærkvöldsins vegna þess að ég hef tilfinningu fyrir að bókin sé skrifuð af umhyggju og vilja til að segja frá hlutunum eins og þeir eru í þeim múslimska heimi sem þar ríkir. Ég hlakka til að fara aftur í ferðalag til Afganistan í kvöld.
 
Þetta blogg skrifaði ég í kyrrðinni eftir miðnætti síðastliðna nótt og nú er kominn föstudagurinn 24. janúar. Það er mál að birta það og svo að elda hafragraut.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Sæll og blessaður. Það var svolítið gaman að lesa að þú hefðir ekki sökkt þér annað eins ofan í bók, síðan á Bjargi í gamla daga, en gott að geta gleymt sér svona við lestur. Bókin sýnir jú dálítið annan raunveruleika en þann sem við búum við. Ég las þessa bók fyrir 2-3 árum síðan og velti því fyrir mér að lesa hana aftur, þar sem ég horfi oft á hana í bókahillunni okkar.Kærar kveðjur til þín og þinna. Dísa og Ottó.

2014-01-24 @ 21:21:59
Dísa gamli granni

Sæll og blessaður. Það var svo gaman að lesa um hvað þú gast sökkt þér niður í lesturinn, það hefði ekki skeð síðan á Bjargi í gamla daga, en er svo gott að geta það. Annar raunveruleiki blasir við í þessari bók en sá sem við lifum í. Ég las hana fyrir 2-3 árum og hef einmitt hugsað um að lesa hana aftur þar sem ég horfi oft á hana fyrir framan mig í bókaskápnum okkar. Hún er sannarlega umhugsunarverð.Kærar kveðjur til þín og þinna. Dísa og Ottó.

Svar: Já Dísa, það eru sjálfsagt margir Íslendingar búnir að lesa þessa bók. Mér finnst þegar ég les hana að ég læri mikið og sjái að margt sem ég hef haldið eru hreinir fordómar af minni hálfu. Ýmislegt annað hins vegar svipað því sem ég hef haldið. Ég lít á þessa bók sem mikla raunveruleikafrásögn. En alla vega, bara þarfur lestur og alveg skínandi að vera farinn að lesa af alvöru aftur. Með bestu kveðju til ykkar krakkar mínir.
Gudjon

2014-01-24 @ 22:13:44


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0