Ég held ég fari bara líka

Í gær var andlegur þokudagur á Sólvöllum en í dag er sterkt sólskin þó að alskýjað sé. Sparslspaðinn gekk ótt og títt út á Bjargi í morgun og nú harðnar það fyrir slípun í fyrramálið. Svo náði ég sjónvarpsmessunni klukkan tíu og hafði gott af. Henni stjórnaði presturinn sem horfði á tvo syni sína visna til dauða fyrir ekki svo löngu síðan. Eftir það leit hann út eins og gamall og hrumur maður. Núna er hann glæsilegur og hress kall um fimmtugt og þegar ég sé svona menn á skjánum, menn sem hafa komist svo vel á strik aftur, þá tek ég mark á því mesta sem þeir segja. Ég vil gera hann að fyrirmynd minni þó að hann sé tuttugu árum yngri en ég er.
 
Ég var líka á ferð inn í höfuðstöðvum Mammons í Marieberg eftir hádegið og keypti helminginn af baðinnréttingum, blöndunartækjum og viðeigandi græjum. Á morgun eftir slípun og spörslun númer tvö fer ég aftur og kaupi hinn helminginn. Þegar maður eins og ég þarf að velja úr tugum sýnishorna tekur það á. Ég sá mér því vænst að skipta þessu niður og rasa ekki um ráð fram.
 
*          *          *
 
 
Ef manni líður svona á Grænhöfðaeyjum eins og honum nafna mínum á myndinni, þá er alveg spurning hvort ég ætti ekki að fara að koma mér þangað líka. Ekki veit ég nokkur minnstu deili á þessari mynd önnur en þau að þarna er hann nafni minn og að baki honum einhvers konar pálmatré. Húsin veit ég ekkert um og hvað er hinu megin við þau, nei, ég veit ekkert. Alveg er þetta magnað. Það var þegar við bjuggum í Sólvallagötunni í Hrísey sem fyrsta símamyndin af einhverjum atburði út í heimi barst til Íslands og var sýnd í sjónvarpi. Það var frétt en nú dregur fólk farsímann upp úr vasanum og nokkrum sekúndum síðar er búið að taka mynd suður undir miðbaug sem er svo komin komin norður á Sólvelli í Krekklingesókn andartaki eftir það.
 
Ég hef líka heyrt að Hannes Guðjón kalli Atlantshafið sem þarna blasir við "den riktiga sjön" sem kannski væri hægt að þýða til "alvöruhafið". Ég var svolitla stund að átta mig á þessari mynd af þeim feðgum en svo sá ég jú að Hannes er á hnjánum og þá breyttist allt. Það hefur ekki borist af myndum af Rósu sem virðist vera aðal ljósmyndarinn, en hins vegar geri ég ráð fyrir að fótsporin þarna í sandinum séu hennar þar sem hún hafi verið á leið til að taka mynd.
 
Og það er greinilega gaman á þessum slóðum og þannig á það líka að vera.
 
*          *          *
 
Það eru fleiri barnabörn en Hannes Guðjón. Á þessari mynd eru Erla, Kristinn og Guðdís, en Guðdís er lengst til hægri og átti afmæli í gær. Myndin er hreint ekki ný en ég sé að hún hefur verið tekin heima hjá þeim í Vestmannaeyjum en alls ekki á Grænhöfðaeyjum.
 
Hér er Guðdís afmælisbarn til vinstri og Erla til hægri. Ekki veit ég nákvæmlega hversu gömul þessi mynd er, en ekki er hún beinlínis gömul. Hitt veit ég að það er ekki svo voða langt síðan að þessar systur voru í heimsókn hjá ömmu og afa í Svíþjóð. Meðan þær voru hér var ég að vinna eitthvað og þá sváfu þær báðar í rúminu hjá ömmu. Nú eru þær orðnar konur og ég er ekki viss um að þær vildu sofa afa meginn upp í rúmi hjá ömmu sinni í dag.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Já, hún er mögnuð tæknin í dag og glæsileg eru barnabörnin þín.

Svar: Já Dísa, svo mögnuð að nú getum við boðið góðan daginn gegnum þessa tækni.
Gudjon

2014-01-07 @ 00:37:10
Anonym

Þú ert ríkur mágur minn að eiga þessi gullfallegu börn.

Svar: Þakka þér fyrir Árný mágkona.
Gudjon

2014-01-07 @ 14:41:30


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0