Sá yðar sem syndlaus er

Það var mikið um það á feisbók í fyrradag að Björn Bragi yrði að víkja, hvernig nokkrum manni gæti dottið í hug að láta svona lagað út úr sér . . . og marg og margt fleira sagt með þungum orðum um þennan mann á feisbókinni. Mér finnst feisbókin frábær. Hún hefur hjálpað mér við að endurheimta horfna kunningja og vini, hjálpað mér við að viðhalda kunningsskap og vináttu og við að hafa svolítið samband við það sem ég kalla stórfjölskyldu mína. Svo getur feisbókin allt í einu orðið að ófreskju og er varla lengur vinabók eins og skólasystir mín ein frá Skógaárunum kallar hana. Það er sem sjálfur svarti dauði sé nálægt því að endurfæðast, svo smitsamur sem hann nú var og tjáningarnar verða býsna tíðar og hömlulausar og virðast smita feisbókarheiminn.
 
Þegar búið er að skjóta í fótinn verður örið kannski ekki burtmáð og taugin sem ef til vill fór í tætlur á löngu svæði verður þá aldrei lagfærð. Þannig geta orðin líka skaðað. Ég veit ekkert um þennan fréttamann sem hljóp á sig í hita leiksins en þeir sem skrifuðu um hann á vinabókinni voru þá ekki lengur í hita leiksins þegar þeir skrifuðu. Vinabókin var ekki vinabók á tímabili í fyrradag. Ég las einhvers staðar að þessi maður væir einn af bestu fréttamönnum landsins. Kannski fékk hann þarna sína dýrustu lexíu og verður þar af leiðandi lang besti fréttamaður landsisn. En kannski var hann skotinn í fótinn og taugin verður aldrei lagfærð. Ég er samt ekkert að ganga í vörn nema þá í vörn fyrir vinabókina.
 
Ég sagði oft hluti sem ég hefði betur látið ósagða, stundum af algerum klaufaskap og stundum af þörf fyrir að verja mig eða koma höggi á einhvern. Mér finnst hins vegar flestar yfirsjónir mínar í dag byggjast á því að ég segi eitthvað svo ótrúlega klaufalegt. Ég get verið mjög ánægður með sjálfan mig eins og ég er orðinn og mér finnst sem ég hafi lagt all hart að mér til að ná þangað. Svo allt í einu segi ég eitthvað svo merkilega aulalegt, svo aulalegt að það getur raskað svefni mínum í hálfa nótt. Stundum fannst mér sem ég hefði efni á að kasta fyrsta steininum, finnst jafnvel enn, en sannleikurinn er sá að ég hef aldrei efni á að kasta honum. Frekar hef ég efni á að hugleiða og kannski að koma einhverju á framfæri.
 
Ég horfði á sjónvarpsmessuna í gær. Höfuðpersónan af jarðneskum toga í þessari messu var sjálfur Elvis Presley. Þegar við Valdís vorum nýorðin kærustupar og í mörg ár þar á eftir, þá söng hún hástöfum með Presley þegar lög með honum voru flutt í útvarpinu. Á slíkum augnablikum fannst ég ekki í vitund hennar, það voru bara hún og Presley sem sungu saman. Hún hefði viljað tjútta við mig en ég tjúttaði ekki. Hún hélt upp á Presley. Svo sat ég hljóður og hlustaði á og var afbrýðissamur. Hvað þessi (bölv) Preley stal senunni fullkomlega og ég varð eins og lítill kúkur sem var hættur að lykta og skipti því ekki máli. Svo hætti lagið með Presley og ég lét einhver orð falla um hann. Það var eins og Valdís heyrði þau aldrei og hún reyndi aldrei að núa mér um nasir að hafa sagt þau. Þau féllu í tóma ekkert eins og þau hefðu aldrei verið sögð og mér fannst að ég hefði gert mig að kjána. Svo hélt lífið áfram þangað Presley söng næst.
 
Í messunni voru flutt mörg trúarleg lög, öll komin frá Presley. Presturinn, biskup í héraði skammt hér vestan við, í Värmland, lýsti Presley sem leitandi persónu. Það kom líka fram í þessum lögum. Bæði túaður og leitandi. Miði fannst á hóteli þar sem Presley hafði gist og á þennan miða hafði hann skrifað: "Stundum finnst mér að ég sé svo einsamall. Nóttin er hljóð umhverfis mig. Ég vildi svo gjarnan geta sofið. Ég er svo glaður yfir að allir eru farnir núna. Ég kem sennilega ekki til með að fá neinn frið. Drottinn, hjálpaðu mér." Ég hrökk við þegar ég heyrði þetta og minntist nátta í Sólvallagötunni í Hrísey.
 
Við höfðum sem sagt átt eitthvað sameiginlegt, ég og Presley. Mjög alvarlega hluti höfðum við átt sameiginlega. Og í annað skipti skrifaði hann: "Ég hef bara sjálfan mig og Drottinn. Drottinn, hjálpaðu mér að gera hið rétta."
 
Ég hafði gert grín að honum þegar Valdís var að syngja með honum í útvarpinu þegar við bjuggum á Undralandi í Reykjavík og svo vorum við bræður eftir allt saman. Ég hafði skotið sjálfan mig í fótinn. Það er hálf öld síðan. Drottinn, hjálpaðu mér að gera hið rétta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0