Ein lítin skrúfa

Já, það var ein lítil skrúfa sem var erfiðari en allt hitt. Og þetta allt hitt var ýmislegt sem fór öðru vísi en til stóð. Það var eitt atriðið á eftir öðru sem fór þannig hjá dúkalagningamönnum og málara. Lífið er bara þannig og það er eins og þetta komi stundum í törnum, svo margt með stuttu millibili. Meira að segja veikindi geta dunið með ólíkindum á mörgum í sömu fjölskyldu á skömmum tíma. En hér á Sólvöllum fjallaði það um óhöpp í lokafrágangi úti á Bjargi og allir bættu fyrir óhöppin sín. Ég hafði sjálfur alveg sloppið frá þessum óhöppum. Svo var komið að því að setja upp sturtuhurðirnar.
 
Ég skoðaði teikningar af þessari einföldu uppsetningu og tók langan tíma í það. Svo byrjaði ég á því að skrúfa eina alúminíumstoð á vegg, það var veggfestingin fyrir vinstri hurðina. Síðan skrúfaði ég lítil stykki á sitt hvorn endan á stoðinni sem festist á stoðina sem fyrst er fest á vegginn og setti hana svo upp. Að því búnu byrjaði ég að skrúfa eins konar lamir á endana á alúminíumprófíl sem er fastur við sjálfa glerhurðina. Ég tók skrúfvélina og skrúfaði fyrstu skrúfuna alveg í botn og þar með brotnaði hausinn af henni.
 
Ég horfði á þetta skelfingu lostinn og sá þegar að málið var mjög alvarlegt. Það var mikið alvarlegra en það sem hafði komið fyrir dúklagningamennina og málarann. Ég hafði keypt all dýrar og vandaðar sturtuhurðir og var búinn að eyðileggja aðra þeirra. Ég lagði verkfærin frá mér og reyndi að sannfæra sjálfan mig um að ég væri alveg sallarólegur. Svo hélt ég af stað til Bauhaus, fjórtán kílómetra ferðalag. Ég bar upp erindi mitt og var ekki stoltur en hélt þó að hér væri um vörugalla að ræða. Allt í einu hafði ég komist að þeirri niðurstöðu. Ung hjálpleg kona tók við erindi mínu, hringdi í þjónustufyrirtæki suður í Gautaborg og rétti mér svo tólið. Málið varð meira og meira alvarlegt eftir því sem á tímann leið.
 
Maðurinn í Gautborg bað um símanúmer og heimilisfang og ætlaði svo að hringja eftir um það bil tíu daga og ræða þetta, trúlega að koma og rannsaka málið. Ég var að byrja að þorna í munninum og allt í einu datt mér nokkuð hræðilegt í hug sem ég nefndi ekki við Gautaborgarmanninn. Svo hélt ég heim og hugsaði alla leiðina -skrúfvélin, skrúfvélin. Þegar ég kom heim tók ég aftur fram teikninguna og skoðaði á síðu þrjú. Þar sást það svart á hvítu; það mátti alls ekki nota skrúfvél við það sem ég hafði verið að skrúfa.
 
Svo skrúfaði ég allt annað á þessa hurð og setti hana upp en hún virkaði ekki -það vantaði líka eina skrúfu. Svo gerði ég allt það sama við hina hurðina án þess þó að nota skrúfvélina og hún virkaði alveg stórvel. Mér féll allur ketill í eld og hætti þann daginn. Ég sá fyrir mér brotnu skrúfuna sem sennilega ætti eftir að kosta mig nýja hurð og heiður minn.
 
Þarna stendur hurðin á hlið og bláa röndin er sjálft glerið. Brotna skrúfan er hægra megin við efri endann á bláu röndinni, kolföst. Stærðarhlutföllin eru ekki rétt. Aúmíníumprófíllinn eru upp undir helmingi stærri á myndinni en hann er í raun. Skrúfan er því pínulítil í raun, brotni endinn er kúptur og þess vegan erfiðara að fá borinn til að tolla á réttum stað. En án þess að ná henni er hurðin ónýt. Það er heldur ekki hægt að ná henni hafa ráðgjafar mínir sagt. Skrúfan er úr stáli og þess vegna mun borðinn alltaf hrökkva af skrúfunni og út í mýkri málminn. "Þannig er það bara góurinn minn."
 
Þegar ég vaknaði þriðja morguninn eftir óhappið vaknaði ég við lausnina. Því kom ég við í byggingarvöruversluninni í Vingåker á leiðinni heim frá Vornesi í morgun og keypti fjóra bori. Þeir áttu ekki fleiri af stærðinni sem ég þurfti. "Hvað ætlarðu að gera?" spurði maðurinn sem aðstoðaði mig. Ég sagðist ætla að bora burtu stálskrúfu úr alúminíum þar sem það væru þunnir veggir kringum skrúfuna. Hann leit upp frá afgreiðsluborðinu, horfði framan í mig og spurði hvernig ég ætlaði að fara að því. Ég sagðist hafa vaknað við lausnina í gærmorgun. Gangi þér vel sagði hann.
 
Skrúfan ef horfin, það brotnuðu sjö borir við verkið og það fór langur tími í það. Það lítur út fyrir að skrúfustæðið sé orðið víðara þeim megin en það er bara rétt í endann. Mér þykir vænt um málarann og dúkalagningamennina og öllum getur okkur orðið á. Við erum fínir samt. Þegar ég kom heim úr vinnu upp úr klukkan ellefu í dag var ég dauð þreyttur og vildi bara fara að hvíla mig. Ég gat það samt ekki. Ég varð að sanna það fyrir mér að það stæðist sem ég vaknaði við í gærmorgun. Nú er allt tilbúið til uppsetningar fyrir morgundaginn. Ég þurfti að fara í þrjár verslanir eftir að ég náði brotinu burtu áður en ég fann réttu skrúfuna en það var þess virði. Á morgun hringi ég líka í Gautaborgarmanninn og segi honum að ég þarfnist hans ekki. Ég hef unnið heiður minn til baka.


Kommentarer
Björkin

Þú ert svo handlaginn mágur minn.Góða nótt. Gangi þér vel við að klára.

Svar: Þakka þér fyrir mágkona og góða nótt.
Gudjon

2014-01-28 @ 22:56:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0