Þá vantar bara 6999999 hunangsbú

Ég var að lesa um að það vantaði hunangsflugur í milljarðatali í Evrópu. Ekki hef ég hugsað mér að rækta hunangsflugur en ég er skráður á býflugnaræktarnámskeið í Örebro í mars. Býflugurnar hjálpa jú til við frjóvgun blóma eins og hunangsflugurnar og það er kannski spurning hvort það hafi verið átt við býflugur en ekki hunangsflugur þegar sagt var að það vantaði sjö miljón bú í Evrópu. Ef ég set upp eitt bú vantar ekki nema 6999999 bú til viðbótar.
 
Ég tók þessa mynd ófrjálsri hendi frá fréttinni, en hér finnst mér svo sem alveg nóg um. Þegar ég skoðaði býflugnabúin þeirra Þórhalls og Völu í Stokkhólmi síðsumars í fyrra, þá var fjöldinn alls ekki slíkur og þarna gefur að líta. En vingjarnlegar voru býflugurnar þeirra og það var eins og við værum svo velkomin til þeirra til að fylgjast með bardúsi þeirra. Þær rákust svolítið á hendurnar á okkur og voru kannski ögn nærri því að hafna í buxnavösum líka. En sem sagt, þetta voru ósköp vinaleg grei.
 
Þessa mynd tók ég líka ófrjálsri hendi á feisbókinni í dag. Fjöldi fólks heldur vart vatni af gleði yfir snjónum. Fyrir mér er svo sem allt í lagi að það snjói, en að ég ýli beinlínis af gleði get ég ekki sagt. Tvisvar þurfti ég að skafa snjó af stígunum milli húsanna í gær og aftur í morgun. Svo berst hann inn þegar ég er á ferðinni og vill líka endileg komast ofan í skóna mína. En ef náttúran á að halda sér í sínu árþúsunda gamla taktfasta og eðlilega formi verður að koma vetur og það er einungis þess vegna sem ég gleðst yfir svolítið yfir komu hans. Komi enginn vetur fer tilvist skógarmítilsins úr böndunum. Hóflega mikið af honum er svo sem í lagi en ég vil líka að það verði ekki meira en svo.
 
Mýsnar þurfa líka að fá svolítið mótlæti, annars fer fjöldi þeirra líka úr böndunum. Og skógurinn vill líka fá hóflegan vetur svo að tré fari ekki að laufgast nú upp úr áramótunum. Þannig má lengi telja og það er sem sagt þetta sem gerir vetrarkomuna æskilega hvað mig áhrærir. Svo skal ég alveg viðurkenna að ég hef augum litið margan vetrarmorguninn gegnum árin þar sem svo ótrúlegt hrím prýðir skógana að það mætti stundum ætla að ég hafi komist til annarra hnatta, svo óþekkjanleg verður náttúran. Það hrífur mig persónulega meira en skíðafærið. Ég datt alltaf á skíðum ef brekka var í sjónmáli. Mér gekk hins vegar alveg þokkalega að komast út í Hríesyjarvita á gönguskíðum þó að ég dytti stundum við þær aðstæður líka.
 
*          *          *
 
Svo tókst mér að ljúka því sem ég hafði ætlað mér í dag. Hægum en öruggum skrefum sækja verk mín áfram og um eða upp úr miðri viku verður mikið gaman fyrir mig að virða fyrir mér baðherbergið á Bjargi. Það verður eins og svlítil gleðivíma fyrir mig sem mun endast mér einhverja daga. Svo um mánaðamótin kemur pípulagningamaðurinn og það verður lokaáfanginn og þá upplifi ég enn aðra gleðivímu. Það er nefnilega í góðu lagi með gleðivímur en svo eru til aðrar vímur og þær eru í ætt við myrkrið. Þannig vímur fá ekki að þrífast á Sólvöllum.
 
Svo verð ég að ljóstra öðru upp. Ég er búinn að setja rafmagnsreikning í umslag til að senda í bankann minn á Íslandi. Þar vill fólk fá að vita með vissu að ég sé til og að ég eigi hér heima. Rafmagnsreikningurinn á að sanna það. Ég fæ hins vegar að borga hann sjálfur.
 
Klukkan er að nálgast hálf tíu og nú er komið að því fyrir mig að bursta og pissa. Svo skal ég lesa nokkrar blaðsíður, eða með öðrum orðum; þá ætla ég að lesa mig í svefn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0