Hún hefur verið kölluð heim

Í dag ætlar hress hópur Skógaskólafólks að hittast yfir kaffibolla í Reykjavík. Ég bloggaði líka um það í gær, þennan árgang 1959 sem okkur þykir bestur allra árganga. Ekki mæta allir og til dæmis ekki ég. Nokkrir hafa verið kallaðir heim til óþekkta landsins. Þann 30. desember var hún Kristín Eggertsdóttir frá Vík kölluð heim.
 
Þær voru nokkrar Kristínarnar í skólanum og til að aðgreina hana frá öðrum Krístínum var hún jú kölluð Stína Eggerts. Ég held að ég fari rétt með það að við Skógaskólafólk sem vorum úr Vestur-Skaftafellssýslunni höfum talið að við ættum okkur svolítið sameiginlegt. Við vorum nú einu sinni Skaftfellingar, hvort heldur við vorum austan eða vestan Mýrdalssands. Við Stína Eggerts ræddum stundum um fólk sem við þekktum sameiginlega og hún sagði mér sögur úr Víkinni.
 
Okkar samskipti voru mjög lítil eftir skólaárin nema þegar við hittumst í þau skipti sem 1959 hópurinn kom saman á fimm ára fresti og ég var þar ekki alltaf. Einu sinni hittumst við alveg óvænt í daglega lífinu, en það var þegar ég var einhverju sinni var staddur í Tryggingarstofnun ríkisins og þá vann hún þar. Það var einn af þessum algerlega óvæntu fundum og höfðum við bæði gaman af og Stína kynnti mig af hreinni gleði fyrir nokkrum af samstarfsfólki sínu.
 
Hún vann eitt sinn með Guðnýju systur minni á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri. Þetta minntist hún oft á og spurði með hlýju um hagi Guðnýjar í þau skipti sem við hittumst og einnig á feisbókinni. Einmitt þetta tengdi okkur svolítið saman gegnum árin og gaf okkur aukinn möguleika á að spjalla enn frekar saman.
 
Til hvaða verkefna Stína Eggerts hefur verið kölluð væri fróðlegt að vita, en við hin sem eftir lifum munum komast að því síðar þegar að okkar köllun kemur. "Það er gegnum að deyja sem við verðum meðvituð um hið eilífa líf", eða nokkuð á þá leið sagði heilagur Frans frá Assisi fyrir um það bil 700 árum í sinni þekktu bæn Frans frá Assisi. Þeir sem eru farnir til heimalandsins eilífa á undan okkur hafa nú þegar komist að þessu.
 
Stína mín, við sem fáum að hittast að vori munum muna eftir þér kæra skólasystir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0