. . . þú líka gamli

Eitt og annað hef ég komist yfir í dag en alls ekki eins og óskir mínar og áætlanir reyndu að lifa upp til í morgun. Þó komst ég til dæmis aftur í kunningsskap við klósettið með innbyggða vatnskassanum sem á að verða á baðinu á Bjargi. Ég bloggaði um það í fyrra þegar ég var búinn að taka það upp úr pappakössunum að þá var það bara mikil dreif af algerlega óþekkjanlegum smáhlutum, stærri hlutum, boltum, skrúfum, hosum, slöngubörkum, plasthringjum, rörbútum, plastvinklum og einhverju fleiru. Það eina sem ég þekkti virkilega með vissu var sjálf klósettskálin, hringurinn og lokið.
 
Svo kom pípulagningamaður til að skoða allt annað en ég ætlaði að fá stuðning hans í leiðinni varðandi klósettið. En hann horfði á þessi ósköp, leit á algerlega ruglingslega teikninguna, sagði hreint ekki neitt og flýtti sér svo í burtu. Þá greip ég til þolinmæðinnar, að lokum, og byrjaði rólega að bera saman hlutina, máta skrúfur, athuga hvort eitthvað annað passaði betur saman og einhvern veginn á þennan hátt kom ég því mesta saman og fyrirbærinu síðan á sinn stað inn í veggnum. Þetta var allt í fyrra, fyrir hálfu ári eða meira og síðan var verkefnið sett í bið. Í dag pússlaði ég því síðasta saman og festi grindina endanlega í vegginn. Nú er klósettið tilbúið fyrir pípulagningamanninn og núna þegar ég skrifa þessi orð finn ég fyrir sigurgleði.
 
Annars kom ekki málarinn sem lofaði fyrir löngu að koma í dag. Í dag ætlaði ég að biðja píparann að koma á föstudegi eða mánudegi kringum næstu helgi en hann bað mig að gleyma því. Mánaðamótin væru nær lagi. Ég veit að þetta Fjugestafyrirtæki er að vinna verk í öðrum landshlutum og svo geta þeir ekki tekið að sér verk hér heima. Ég sagði manninum að ég þyrfti að hugsa og ég mundi hringja aftur. Svo settist ég niður, stakk upp í mig konfektmola sem ég fékk um jólin og velti fyrir mér hvort ég ætti að fara í fýlu. Nokkrum mínútum síðar hringdi ég til píaranna aftur og sagðist taka því sem að höndum bæri. Ég var boðinn hjartanlega velkominn á biðlistann. Maðurinn sem ég talaði við er vandvirkur, ekki hraðvirkur en mjög vandvirkur. Hann vann hér fyrir okkur árið 2007.
 
Svo fór ég til Fjugesta rétt fyrir lokun til að kaupa það sem málarinn ætlaði að koma með í dag. Það tilheyrir því einfaldasta af því sem hann ætlaði að gera þannig að ég get flýtt fyrir og gert það sjálfur. Eftir það verður kannski auðveldara fyrir mig að fá hann með primer og rakaþétta málningu til að mála loftið og niður á veggdúkinn. Svo koma strákarnir sem dúklögðu gólfið um daginn og líma dúkinn á veggina. Þeir vilja koma sem fyrst. Mér skilst að þeim hafi þótt svo gaman um daginn. Ég auðvitað hældi þeim fyrir að vinna vel og að þeir hefði líka verið fljótir. Svo fengu þeir veitingar og hringdu síðar til að fá hjá mér sultuuppskrift. Það voru þeir sem ég kallaði á eftir um daginn þegar þeir voru að fara með hvor sitt rúgbrauðið að þeir væru duglegir og fínir strákar. Og þeir sneru sér við og svöruðu um hæl; þú líka gamli. Gamli er gjarnan notað hér sem vinalegt ávarp.
 
En hvað um það og hvað um allt annað. Ég veit að það verður enginn málari fyrr en einhvern tíma í næstu viku og enginn pípari fyrr en um mánaðamót. Ég sný mér því með ró að mínu um helgina og reyni að njóta þess að gera það sjálfur, slípa, sparsla og slípa aftur og svo framvegis. Í fyrramálið ætlar hann Lennart nágranni að fara með mér inn í Bauhaus og sækja sturtuhurðir ásamt nokkru fleiru. Þær eru svolítið vandfluttar þannig að ég vil fá hann með og hann lánar mér líka yfirbyggðu kerruna sem þeir eiga kallarnir hérna niður í brekkunni. Svo ætla ég að borga honum fyrir með hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Hvönnin gerir mig hressan og ég vil láta hana gera nágranna mína hressa líka.
 
Þrátt fyrir svolítið japl og jaml og fuður í dag hefur þetta verið góður dagur þegar öllu er á botninn hvolft. Ég finn það þegar ég skrifa um það. Á almanaki sem stendur hér fyrir framan mig á borðinu stendur: Lítið hús rúmar eins mikla hamingju og stórt hús. Þetta mun rétt vera. Svo er mitt hús alls ekki svo lítið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0