Á Náttúrusögusafninu og elliheimilinu og eitt til

Unga manninn þarna hjá ísbirninum ætlaði ég að hitta núna undir kvöldið. Svo varð ekki. Sjálfsagt hefði ég komist alla leið til Stokkhólms milli élja en það er spurning hvort ég hefði verið svo sniðugur afi að gera það. Það er nóg vesen á vegnunum samt sem byggir á að of margir eru á ferðinni miðað við aðstæður og liggur of mikið á.
 
Ekki meira um það. Þarna er Hannes Guðjón á safni sem alltaf er gaman að heimsækja. Ég spurði ekki hvort ég mætti nota þessar myndir, en bara um leið og ég sá þær langaði mig á Naturhistoriska riksmusseet eða bara Náttúrusögusafn ríkisins. Þar er endalaust mikið að sjá get ég hugsað mér að segja, þar er alveg ótrúlegur bíósalur þar sem hægt er að verða bæði lofthræddur og sjóveikur og eiginlega detta úr stólnum ef maður lifir sig inn í sýninguna. Svo er það þetta mikilvæga; þarna er hægt að fá sér kaffi og mikið gott með því.
 
Mér sýnist Hannes vera kominn þarna inn í risaeðluegg og honum virðist ekki leiðast. En það er ekki allt úr dýraríkinu á Náttúrusögusafninu. Fyrst þegar við Valdís komum þangað var viðstöðulaust Vestmannaeyjagos á einum vegg með viðeigandi drunum, eldum                                                       og eldglæringum. Það var á deild um jarðfræði og tilurð jarðarinnar. Ég stefni á þetta safn við fyrsta tækifæri.
 
*          *          *
 

Um hálfsjö leytið stóð ég við eldhúsbekkinn og skar ólíkar lauksortir. Ég sveif um víðáttumikla heima og geima og var mjög heimsepkilegur í hugsun. Í þetta skipti tókst mér að skera laukinn án þess að gráta. Smám saman varð til hinn besti kvöldmatur, ofnsteiktur lax með mjög fjölbreytilegum pönnurétti eins og ég kalla það. Svo bar ég á borð, opnaði fyrir sjónvarpsfréttunum og byrjaði að borða.
 
Ég man fréttirnar mjög óljóst utan tvær fréttir sem standa upp úr. Þannig er það oft og ég hugsa stundum til hvers ég sé að horfa á þetta. Samt finnst mér að mér beri skylda til að fylgjast nokkuð með.
 
Fyrri fréttin sem ég man vel eftir var frá elliheimili langt norður í landi. Oft er talað um lélega umönnun á elliheimilum en þessi frétt var um hið gagnstæða. Starfsfólk var ánægt og vistfólkið var ánægt. Það er spurning hvort á að nefna á undan en alla vega er það þannig að ef starfsfólk er óánægt og vansælt, þá verður ekki svo hýr há hjá vistfólkinu heldur. Allur matur var heimatilbúinn, ilmaði svo að munnvatnið flæddi og matarlystin söng. Fólk talaði hressilega saman og sló sér á lær. Já, það virtist gaman á þessu elliheimili.
 
Hin fréttin sem ég man eftir var frá öðru elliheimili langt suður í landi. Fréttin var um Bússa sem er 92 ára og gengur við göngugrind og hana Hallveigu sem er 94 ára og rúllar sér fimlega áfram á léttum hjólastól. Þau líta ljómandi vel út, bera sig vel á allan hátt, eru hress í tali og alveg bullandi ástfangin. Þau voru að opna trúlofun sína. Bússi sagðist vera allur annar maður eftir að hann kynntist henni Hallveigu, hann væri bara svo mikið glaðari og liði svo mikið betur, enda væri hún Hallveig alveg einstök manneskja. Þetta væri nú meiri hamingjan á lífsins hausti, nokkuð sem hann átti ekki von á að gæti átt sér stað fyrir fólk á þessum aldri. En það átti sér stað þrátt fyrir allt.
 
Hallveig geislaði líka af ánægju og til að sýna enn betur ást sína á Bússa lagði hún hönd á haldlegg hans til að leggja áherslu á mál sitt. Hún var spurð hvernig þessi ást væri miðað við ástir unga fólksins. Já, svaraði Hallveig íbyggin, hún er nú mikið meiri á djúpinu ástin á okkar aldri. En svo hélt hún áfram og sagði af sjálfsöryggi; að öðru leyti er það alveg nákvæmlega eins. Svo rúllaði hún sér áfram í hjólastólnum sínum og Bússi gekk með sína göngugrind við hlið hennar. Mikið voru þau falleg.
 
Ég gaf þeim þessi nöfn og það var ekkert grín við þessa frétt. Hún var unnin af umhyggju og virðingu fyrir öldungunum og engin tilraun gerð til að gera þetta broslegt.
 
*          *          *
 
Í dag eru 23 ár síðan ég byrjaði að ganga lyfjalaus um ganga á Vogi, var farinn að ná áttum og möguleiki á nýju og betra lífi virtist blasa við. Það gekk eftir. Ég varð hrærður við að skrifa þessar línur, svo stórt var það og er enn í dag.


Kommentarer
Björkin

Til hamingju með 23 árin mágur minn.

Svar: Þakka þér fyrir mágkona.
Gudjon

2014-02-01 @ 15:38:01


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0