Eldmóðurinn, driffjöður lífsins

Ég sofnaði full seint í gærkvöldi, óánægður með sjálfan mig. Ég hefði átt að vera himinlifnadi eftir vel heppnaða vinnu sólarhringinn á undan og frábæra ferð á nuddstofu að vinnunni lokinni. En nei, mér fannst ég oft haga mér eins og smábarn og var hund óánægður með mig. Svo svaf ég þó í fjóra tíma og vaknaði þá að því er virtist til þess eins að halda áfram að velta mér upp úr heilabrotunum sem ég sofnaði út frá. Svo sofnaði ég aftur og vaknaði ekki fyrr en korter yfir níu. Þá lét ég auðvitað eftir mér að verða fyrir vonbrigðum yfir því hversu seint ég vaknaði. Og ekki bara það; ég gleymdi morgunbæninni þar til skömmu fyrir hádegi og þá settist ég í djúpan stól inni í stofu og bað morgunbænina mína.
 
Eftir þvæling hér fram og til baka og japl og jaml og fuður innra með sjálfum mér fór ég til Fjugesta til að fá upp verð á hlutum og verkum tilheyrandi Bjargi. Líka til að kaupa mjólkina og kartöflurnar sem ég gaf skít í að kaupa í gær. Seint og um síðir fór ég út á Bjarg til að slípa sparsl og til að reyna að komast í gang aftur eftir nokkurra daga stopp þar úti. Óánægjan með sjálfan mig hélt áfram alveg fram að kvöldmat en samt lagaði ég mat handa mér. Ég var svo óánægður með sjálfan mig að ég tók ekki eftir því að ég viðraði rúmfötin mín og hengdi líka tvær þvottavélar út á snúru, tvær þvottavélar sem ég var búinn að þurrka inni en vildi svo mýkja upp og viðra í svölu útiloftinu. Nú bíða hrein og vellyktandi rúmfötin fyrir aftan mig og þvotturinn er snyrtilega lagður á rúm og stóla í öðru herbergi og bíður þess að verða brotinn saman á morgun. Allt var í góðu standi þegar ég byrjaði að borða, allt nema ég sjálfur.
 
Orð dagsins í einni af almanökunum mínum, því nýjasta sem heitir Vegur til farsældar, segja eftirfarandi: "Eldmóðurinn er driffjöður lífsins. Án hans getur þú ekkert en með honum eru þér allir vegir færir."
 
Þessi eldmóður hefur ekki verið félagi minn í dag. Eftir kvöldmatinn og þokkalegan frágang eftir matargerðina reyndi ég að horfa á sjónvarp. Allt sem sjónvarpið bauð upp á var bara drasl. Ég skal þó viðurkenna að ég gerði mér vel grein fyrir því að það var í fyrsta lagi mitt innra ástand sem olli þessu. Ég horfði á tvær bækur sem mér voru lánaðar seint í haust og ég var ekki farinn að lesa. Ég leit líka á bók sem ég fékk um jólin og ég var ekki farinn að lesa. Svo tók ég ákvörðun.
 
Ég tók aðra bókina sem ég fékk að láni, settist niður í góðan stól í dagstofunni og fór að lesa. Þegar ég var búinn að lesa 45 síður í einni lotu varð ég alveg steinhissa á sjálfum mér. Ég var að byrja að kynnast heimi sem ég þekki ekkert til og það var þess vegna sem góður vinur vildi lána mér bókina. Hún heitir Í landi karlmanna og er eftir karlmann, líbanskan rithöfund og eins og ég sagði, þá er ég í þessari bók að kynnast heimi sem ég veit ekkert um en hef samt oft talað um hann eins og ég þekki hann. Ég geri einfaldlega þá heiðarlegu játningu.
 
Ég hef ekki lesið 45 síður í bók í einni lotu í mjög langan tíma, einhver ár. Hvað ég varð glaður og hvað mér fannst heimurinn mikið betri að lifa í eftir að hafa gert þetta. Heimili mitt varð líka betra og meira virði. Ég skoðaði þvottinn aftur og hann var mjúkur og ilmandi af útiveru. Og maturinn var reyndar góður. Hafi ég verið óánægður með eitthvað í sjálfum mér hef ég þá reynslu til að byggja eitthvað nýtt á. Líklega færði það mér bara eitthvað gott að mig vantaði eldmóðinn, driffjöður lífsins, í heilan sólarhring. Ég hlakka til að hitta eldmóðinn í fyrramálið.


Kommentarer
Þórlaug

Það er gott að eldmóðurinn er kominn aftur, þetta var svo ólíkt þér. Gangi þér vel á morgun.

Kærar kveðjur á Sólvelli og Bjarg

Svar: Takk Þórlaug og kveðjur í bæinn frá Sólvöllum og Bjargi.
Gudjon

2014-01-05 @ 00:48:50


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0