Það er margt sem drífur á daga Sólvallabóndans

Í gærmorgun fór ég á stjá korter yfir átta eftir nákvæmlega átta tíma svefn í einum dúr. Ég flæktist aðeins um húsið, leit á textavarp og tölvu og lagði mig svo aftur, horfði upp í loftið og velti hlutunum fyrir mér. Eftir morgunverð ætlaði ég út á Bjarg til að slípa það sem ég hafði sparslað daginn fyrir gamlársdag. Svo var ég að hugsa framhaldið, kaupa handlaug á Bjarg, sturtuhurðir, blöndunartæki ásamt mörgum hugleiðingum af öllu mögulegu tagi. En síminn hringdi rúmlega hálf níu. Ég byrjaði á að líta á skjáinn á farsímanum og sá númerið 518090. Þá vissi ég það. Allar áætlanir ruku út í veður og vind.
 
Einn af þeim ungu í Vornesi, sá sem átti að vinna kvöldið, hann var veikur. Augnabliki síðar var það ákveðið að ég færi í vinnu eins fljótt og ég gæti án þess þó að fara alveg í kerfi, og svo ynni ég kvöldið. Ég horfði á það jákvæða með því að fara og hugsa til Bensa sem ég bloggaði um á annan í jólum og nefndi bloggið Borðberi hins góða. Eitthvað mundi líka reka á fjörur mínar núna sem mundi gera þennan sólarhring meira virði en bara peninganna.
 
Þegar ég ek inn trjágöngin heim að þessum stað, Vornesi, er eins og ég aki inn í ögn aðra tilveru. Klukkan eitt réðum við í meðferðarhópnum ráðum okkar fyrir grúppurnar og klukkan hálf tvö gekk ég til B-grúppunnar og þar sat ég með systkinum mínum í klukkutíma. Eftir grúpuna réðum við ráðum okkar aftur og við ákváðum að taka sérstaklega á málum tveggja sjúklinga. Það féll í minn hlut að tala við Sönnu þegar kvöldaði. Sanna er hjúkrunarfræðingur sem meðal annars er reynd í því að hlú að og styrkja gamla sem eru að taka síðustu sporin inn til ókunna landsins, landsins sem sumir óttast og hver óttast ekki það óþekkta, jafnvel þó að það sé af hinu góða. Ég ætlaði mér að ná Sönnu einmitt í gegnum þetta.
 
Klukkan hálf sex settumst við Sanna niður og hún gerði sér grein fyrir því að nú stæði eitthvað til. Við í Vornesi vorum kunnug henni frá því fyrir um það bil ári síðan og þá var hún einn af þessum sjúklingum sem einfaldlega gerði bókstaflega allt rétt. Núna hafði eitthvað skyggt á götu hennar og gamla Sanna hafði ekki birtst okkur í þetta skipti.
 
Ég spurði hana hvenær hún ætlaði að sleppa út englinum sínum. Hún skildi spurninguna og hún sagðist enga ósk eiga heitari en að geta gert það. Þessi þrjátíu og þriggja ára gamla lífsreynda kona sem svo oft hafði róað niður skjálfandi raddir þeirra sem áttu bágt og hlýjað þeim um hjartaræturnar, hún átti nú í erfiðleikum með að róa niður sína eigin innri rödd. Hún sagði að það væri svo erfitt að sleppa fram englinum þegar myrkrið reyndi stöðugt að vinna sigur yfir birtunni. Ég veit, ég veit, sagði hún, ég vil, ég vil, en myrkrið er bara svo svart.
 
Stundum verð ég lítill og sitjandi þarna á móti Sönnu við borðið varð mér um stund orða vant. Það er svo myrkt þegar fólk talar um að myrkrið sé svart. Samt töluðum við um þessa baráttu milli ljóssins og myrkursins og um engilinn sem sem grátbiður um að fá að birtast. Að lokum sagði ég við Sönnu: Væri ég núna gamall maður sem væri veikur og hrumur og væri á barmi þess að skilja við jarðlífið, ég væri hræddur og óöruggur og mikið sorgmæddur, geturðu þá ímyndað þér hvers ég mundi óska mér?
 
Þegar ég sá augu Sönnu verða tárvot vissi ég að hún skildi spurninguna en hún hafði ekki kraft til að svara henni. Þegar mér fannst þögnin vera orðin hóflega löng sagði ég henni að ég mundi óksa þess að hún kæmi með sína dýrmætu eiginleika og segði eitthvað róandi við mig. Þá hallaði hún sér fram á borðið, lifnaði við og sagði: Veistu, ég held að ég mundi jafnvel bara taka í hönd þína og vera nálæg. Orðin eru oft ofnotuð og ég hugsa að ég mundi best hjálpa þér yfir landamærin með því að vera hjá þér og láta þig finna snertinguna.
 
Sanna er eitulyfjaneytandi en engillinn hennar lifir ennþá innra með henni. Eiturlyfjaneytandi sem ber engil í brjósti sér lætur kannski undarlega, en svo er það og myrkrið má aldrei yfirbuga hann. Einungis þetta eina atriði gerði sólarhringinn verðan þess að hafa lifað hann í Vornesi. Sanna og Bensi eiga bæði sína pússlbita í þeirri persónu sem ég er í dag ásamt svo mörgum sem ég hef hitt á þessum stað og öðrum stöðum.
 
Í þau fáu skipti sem ég skrifa svona um Vornes breyti ég nöfnum og venjulega tíma, en sannleikann læt ég halda sér.
 
*          *          *
 
Þegar Valdís varð sjötíu ára fékk hún frá Valgerði gjafakort á nuddstofu í Örebro, Spa-huset. Gjafakortið gilti fyrir eitthvað flotbað og nudd. En áður en að því kom að nota þetta var Valdís kvödd heim til landsins óþekkta þar sem fólk er leyst frá jarðneskum raunum sínum. Það kom því í minn hlut að nýta mér gjafakortið og í staðinn fyrir flotbað fékk ég nudd í sjötíu og fimm mínútur og reyndar gott betur. Ég fór í þetta nudd á leiðinni heim í dag eftir sólarhrings vinnu í Vornesi. Þetta var eiginlega ekki nudd eins og ég hef kynnst því. Helmingurinn var kannski létt nudd og hinn helmingurinn bara snerting.
 
Katrín, hún sem nuddaði mig, hefði getað verið barnabarnið mitt og sú sem var í afgreiðslunni hefði hins vegar nánast getað verið barnabarnabarnið mitt. Ég fann fljótlega að þetta svokallaða nudd var mjög faglega unnið og það hafði ótrúleg áhrif. Ég hafnaði fljótlega inni í einhvers konar veröld milli draumalandsins og óraunveruleikans. Ég vissi ekki betur en ég væri vakandi þar sem ég lá á maganum með höfuðið niður í opi sem ég andaði í gegnum, en þá heyrði ég einhvern hrjóta svo ótrúlega milt og afslappað. Ég hóf leit að þeim sem hraut en fann þá bara Sólvallakallinn liggjandi á bekknum, svífandi þyngdarlaus við jaðar draumalandsins.
 
Ég bað klukkuna að stoppa í heilan sólarhring sem hún ekki gerði en ég vonaði þó að tíminn yrði lengi að líða. Samt kom að því að konurödd bað mig að snúa mér við og leggjast á bakið. Ég kveið fyrir og datt helst í hug að ég mundi velta út af bekknum. Samt tókst mér þetta slysalaust og nú sá ég net yfir mér og í netinu var fjöldinn allur af opnum kræklingaskeljum á víð og dreif. Þarna inni angaði af alls konar róandi ilmefnum og mild tónlist barst hljóðlega að eins og úr fjarska.
 
Nuddið og nánast gælandi snertingar Katrínar héldu áfram og í nýju stellingunni slappaði ég fljótlega af aftur. Mildar lágar hrotur bárust mér aftur til eyrna og nú leitaði ég ekki eftir þeim sem hraut, heldur lét mig bara hafa það. Ég gerði líka ráð fyrir að Katrín væri ýmsu vön, gerði jafnvel ráð fyrir að þegar hún heyrði þessar hrotur vissi hún að hún væri að vinna verk sitt vel. Svo var tíminn búinn. Æ æ æ! Nei! Hversdagsleikinn umkringdi mig og ég plokkaði á mig fötin aftur. Það er gott fyrir þig að drekka þetta vatn sagði Katrín og rétti mér vatnsglas. Ég þakkaði fyrir mig og hálf reikull í spori gekk ég upp einn stiga og upp í forstofu þar sem skórnir mínir voru og vetrarjakkinn. Í því kom hún innan úr afgreiðslunni sem gat verið barnabarnabarnið mitt.
 
Ferðu nú heim að leggja þig spurði hún glaðlega. Eða kannski að borða góðan hádegismat. En fyrst af öllu skaltu drekka mikið vatn það sem eftir er dags. Hún ráðlagði langafa svo fallega.
 
Þegar ég kom út á gangstéttina var ég næstum reikull í spori og það var eins og þetta mikilvæga líffæri sem býr upp í höfðinu á mér væri óvenju seigfljótandi. Ég var hreinlega í vafa varðandi bílstjóraeiginleika mína á þessari stundu. Það var þó bót í máli að ég hafði lagt bílnum drjúgan spöl í burtu og á stað sem lá auðveldlega út á leiðina heim til mín. Ég þurft að kaupa mjólk. En nei, ég gef skít í það. En ég þurfti að kaupa kartöflur líka. Nei, ég gef skít í það líka. Hugsandi þetta og eiginlega ekki neitt hélt ég heim á leið og hlakkaði til kvöldsins. Ég var sko ákveðinn í að slípa ekki sparsl í dag, ég ætlaði ekki heldur að versla baðinnréttingu og ég ætlaði bæði að drekka mikið vatn og borða síðbúinn og góðan hádegisverð -með rúgbrauði í staðinn fyrir kartöflur.
 
Svo fékk ég hugmyndina um að blogga líka -aldrei slíku vant :-).


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0