Það er uppgangur í landinu

Málarinn sem ekki kom á föstudaginn var eins og um var talað kom ekki heldur á mánudaginn. Síðdegis á mánudag sendi ég honum sms. Hann svaraði seint um kvöldið og baðst ekki afsökunar, heldur baðst hann fyrirgefningar á því að hafa algerlega gleymt mér. Hann ætlaði að koma í gær, þriðjudag, klukkan sjö að morgni. Því fór ég út fyrir klukkan sjö til að moka allar slóðir sem liggja til "allra helstu bygginga hér á Sólvöllum". Og klukkan varð sjö og hún varð átta og níu og enginn kom málarinn. Rétt um tíu leytið komu tveir bílar og með þeim tveir málarar sem unnu á tuttugu mínútum það sem hægt var að vinna þann daginn. Svo skyldi annar þeirra koma klukkan sjö í morgun. Ég fór því út að moka snjó fyrir klukkan sjö í morgun og klukkan hálf  ellefu fór ég inn til Örebro til að láta bólusetja mig við inflúensu. Enginn málari var þá kominn.
 
Þegar ég kom heim eftir bólusetninguna og smá innkaup í kaupfélaginu var málarinn búinn með verkefni dagsins og þar með farinn aftur. Svo skal það þorna þar til á morgun. Klukkan sjö fer ég væntanlega út að moka slóðirnar að nýju. Reyndar er ég ekki að úthúða málaranum með því að segja þetta, en verkin sem ég ætlaði að dást að um miðja þessa viku verða ekki til aðdáunar fyrr en um miðja næstu viku. En, það hefur eitthvað skeð. Málarinn hefur ekki tíma og það er margra vikna bið eftir pípulagningamanninum. Það er nefnilega svona mikill uppgangur í byggingariðnaðinum á svæðinu. Það er einfaldlega það sem málið snýst um. Það er bullandi uppgangur í landinu.
 
Þegar klukkan var tuttugu mínútur yfir sex hætti ég mínu bauki út í bílskúrnum, en ég þarf að gera svolítið klárt þar til að hægt verði að hengja upp hitakútinn fyrir Bjarg og tengja hann. Ég ætlaði mér klukkutíma og tuttugu mínútur til að skipta um föt, búa til mat og borða. En þar feilreiknaði ég mig og ekki í fyrsta skipti. Ég er ekki enn búinn að fá matargerðina inn í tímaskin mitt. Ég var því of seint tilbúinn til að leggja af stað á AA fundinn minn í Fjugesta. Svo þegar ég kom út að bíl þurfti ég að hreinsa snjó af honum í þriðja skiptið í dag og þá var ég í þann veginn að hætta við að fara á fundinn. Það væri betra fyrir mig að fara inn og blogga um allt og ekki neitt í staðinn. En ég gerði mér hins vegar alveg grein fyrir því að ég mundi ekki geta bloggað með lélega samvisku yfir því að fara ekki. Svo fór ég.
 
Þegar ég var kominn eina tvo kólómetra þótti mér færið alls ekki vera nógu gott fyrir bílinn minn sem er ekki beinlínis neinn jöklafari. En nei, ég hélt áfram, vitandi það að mér ber að taka ábyrgð á lífi mínu og það skal þurfa mikið til svo að ég geti með góðri samvisku sleppt úr fundi. Víst koma tilfelli þar sem það er ekkert annað að gera en að sleppa fundi, en það verður að vera fullgild ástæða. Svo vorum við tveir sem komum of seint á fundinn. Reyndar var færðin alls ekki í lagi en ég gat ekki vitað það fyrr en ég var lagður af stað.
 
Þegar ég kom heim leit ég á feisbókina og sá þá greinina hennar Steinunnar Ólínu sem ákvað í ágúst í fyrra að taka ábyrgð á lífi sínu og dreif sig inn á Vog. Það nálgast nú tuttugu og þrjú árin síðan ég stóð þar sjáfur í andyrrinu og beið þess að ókunnug kona kæmi fram, tæki á móti mér og skrifaði mig inn. Ég var ekki beinlínis uppkjöftugur þá skal ég segja. En tuttugu og þrjú ár! Eftir fimm og hálfa viku á Vogi og Sogni fékk ég borða í íslensku fánalitunum lagðan yfir hálsinn á mér og í þessum boðra hékk peningur. Ég átti að lesa það sem stóð á annarri hlið þessa penings og þar stóð og stendur enn Ég er ábyrgur. Já þannig er það. Það var hálf ófært vegna snjóa á AA fundinn í Fjugesta og reyndar var ástæða fyrir mig að fara ekki. En ég er ábyrgur og ég má aldrei byrja á að gera það að leik að sleppa fundinum mínum sem hefur hjálpað tugmiljónum manna og kvenna í heiminum í tæp áttatíu ár.
 
Tæplega sjötíu og tveggja ára og búinn að vera edrú í tæp tuttugu og þrjú ár. Eins og maðurinn geti ekki farið að taka því rólega og sleppa þessum fundum. Jú, sumir gera það og með skelfilegum afleiðingum.
 
Ég man enn hver lagði borðann yfir hálsinn á mér og ég man enn hvað ég var klökkur þegar ég las það sem stóð á pengingnum. Þetta voru stórir tímar fyrir tæplega fimmtugan mann.


Kommentarer
Björkin.

Farðu varlega í snjónum mágur minn Og eins og amma sagði mundu að borða,hahahah. Grín.Líði þér vel.

Svar: Ég er farinn að borða allt of mikið held ég. Ég þurfti að víkka beltið út um eitt gat fyrir fáeinum dögum.
Gudjon

2014-01-15 @ 22:31:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0