Stórihólminn

Hér sjáum við einn af álum Svartárinnar sem rennur í gegnum Örebro. Við getum sagt að þessi áll sé sá nyrðri Allar byggingar sem greina má á þessari mynd tilheyra Háskólasjúkrahúsinu í Örebro og það eru stórar byggingar sem tilheyra sjúkrahúsinu sem ekki sjást ekki á þessari mynd en eru samt í sömu samtengdu þyrpingunni.
 
 
Þetta er syðri állinn þar sem bátur er í viðstöðulausum ferðum í góða veðrinu með fólk yfir mjótt sundið. Milli þessara ála er Storholmen og kannski í lagi fyrir mig að kalla hann Stórahólmann. Við núverandi ábúendur á Sólvöllum heimsóttum Stórahólmann í gær, miðvikudag. Hannes og Valgerður dvöldu þar líka í nokkra klukkutíma um daginn. Honum leiðist ekki að koma þarna.
 
 
Á Stórahólmanum er margt að finna fyrir unga fólkið -og nefnilega heilmikið fyrir fullorðna líka. Þessi smálest er í nánast viðstöðulausum ferðum eftir spori sem liggur hringinn í kringum aðal athafnasvæðið á Stórahólmanum.
 
 
Og þarna sjáum við fólk sem brá sér í ferð í gær. Ég, afi, baðst undan að fara þar sem mér hentar ekki sem best að sitja í þessum stellingum. Ég gekk hins vegar frá brottfararstað og þvert yfir hólmann og tók þessa mynd. Svo gekk ég til baka og var kominn á áfangastað áður en smálestin kom þangað.
 
 
Ungur nemur, gamall temur. Þegar ég hafði horft á þetta um stund skrapp ég í afgreiðsluna og leigði mér kylfu líka og kúlu með. Síðan æfði ég mínígolf og að lokum vorum það við Pétur sem vorum eftir í golfinu en mæðginin Rósa og Hannes héldu í leit nýrra ævintýra. Svo gáfumst við Pétur upp að lokum og leituðum líka nýrra ævintýra. Ég er viss með að skreppa aftur á Stórahólmann einungis til að æfa mínígolf.
 
 
Smá bílaævintýri skaðar ekki. Það er spurning hvor skemmtir sér betur.
 
 
Það er seldur góður ís á Stórahólmanum og þegar ungir og gamlir fara að þreytast er nauðsynlegt að fá sér eitthvað sem gefur kraft til að halda áfram. En þá verður fólk að fara í röð enda er nauðsynlegt að læra það í tíma að standa þolinmóður í biðröð og fá svo sína hjálp að lokum. Afi fór ekki í biðröðina, það voru aðrir sem sáu um að kaupa ís handa honum.
 
Svo er það svo frábært með Stórahólmann að þar er líka hægt að láta sér þykja vænt um hana mömmu sína og sýna það í verki.
 
 
Degi á Stórahólmanum lýkur eins og öðrum dögum og þarna er Kungshólmafjölskyldan frá Stokkhólmi á leiðinni yfir eina af brúnum sem tengja Stórahólmann við fastalandið. Eitthvað eru þau að virða fyrir sér þarna enda er makalaust gróskulegt og fallegt á þessu svæði. Það fer líka vel á því í námunda við stórt sjúkrahús þar sem margir eru læknaðir og aðrir fá alla þá mögulegu hjálp sem hægt er að veita fólki sem á við raunir að stríða.
 
 
Á leiðinni að bílnum og aðalinngangar sjúkrahússins eru í baksýn. Það fer ekki hjá því að minningar um hið liðna klífa fram hjá mér og fleirum við að koma þarna á þetta svæði. Þær voru margar ferðirnar inn um þessa innganga og fleiri innganga nokkru fjær á nokkrum liðnum misserum. Samt er gott að koma á Stórahólmnann og sjá ungan mann gleðjast í ævintýraheimi.
 
 
Afi! má ég sjá hvernig þú gerir? spurði Hannes þegar ég gerði upp bílinn á stóra bílastæði sjúkrahússins. Svo kom hann og fylgdist með og gæti eflaust bjargað þessu sjálfur eftirleiðis ef á þyrfti að halda. Eða er ég kannski full bjartsýnn? Hann er ekki orðinn fimm ára ennþá.


Kommentarer
Björkin

Flottar myndir af flottu fólki.Kram til ykkar.

2014-07-18 @ 13:30:00
Guðjón

Þakka þér fyrir mágkona mín og kram til baka.

2014-07-18 @ 16:25:36
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0