Hvílíkur dýrðlegur morgun

Ég kom heim úr vinnunni upp úr hádegi í gær, all sargaður af þreytu, og hafði þá lokið eiginlega nákvæmlega mánaðar vinnu í þessum júlímánuði. Það er ekkert fyrir mig að stæla mig af á þessum aldri, kannski frekar heimskulegt, en eftir á er ég ánægður með að geta gert þetta. Það varð meira en til stóð, það bara varð svo, og síðasti sólarhringurinn varð einn af þessum sólarhringum sem verður að teljast með þeim erfiðustu á mínum vinnustað. En ég finn mig snarlifandi og þátttakanda í samfélaginu sem ég lifi í. Eftir rúmlega átta tíma nætursvefn án þess að rumska, og svolítinn miðdegisblund í gær, finn ég mig vel hvíldan og ég er búinn að dvelja í skóginum bakvið húsið í morgun.
 
Auðvitað var það mikill lúxus að það var fólk hér heima þegar ég kom heim í gær. Stuttu eftir að ég kom heim buðu gestirnir mínir mér upp á vöfflukaffi -og hvað það bragðaðist vel! Svo lagði ég mig. Ég á líka lítinn heiður af þessu kvöldmatarborði. Ég steikti ekki zucchinið á stóra fatinu sem var sótt út í græna matarhornið á Sólvöllum, ég gerði heldur ekki pizzuna sem var á litla borðinu til hliðar og sést ekki á myndinni. En ég sótti þó síldina niður í kjallara og bar út diskana. Ég kom líka út með illiblómasaftið sem er í könnunni frá henni Guðnýju systur í handmáluðu könnunni hinu megin á borðinu. Málið er bara að það var minnsta vinnan í því sem ég gerði. Reyndar gróðursetti ég illiplöntu í gær. Það skal nefnilega verða árlegt að það verði til illiblómasaft á Sólvöllum svo lengi sem ég verð fær um að gera það.
 
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég fór í stuttu morgungönguna mína á nærbuxunum og inniskónum í morgun var að skoða brómberin. Ég vona að þau nái að þroskast í ár. Brómberjarunnana tvo fékk ég frá vinnufélögum mínum þegar ég varð sjötíu ára. Þeir bera ekki ber nema á sólríkum sumrum. Þessir runnar eru líka svo ungir að þetta er eiginlega fyrsta sumarið sem þeir eiga kost á að bera ber.
 
Bara að hafa laufhaf við hlið mér á svona morgni er gott. Það þarf ekki meira en svo.
 
Ég settist á bláberjabekkinn og horfði heim. Ekkert hljóð, ekki einu sinni í flugu. Á svo hljóðum morgni reyni ég líka að ganga varlega. Kannski sitja hljóðlega líka. Svolítil vinna og talsvert annað puð, hvað er það fyrir mig og geta síðan átt svona morgna? Svona morgnar eru alls virði og meiga eiginlega aldrei taka enda.
 
Og við fætur mér þegar ég sit á bláberjabekknum eru bláberin á bláberjarunnunum sem Rósa og Pétur gáfu mér fyrir all nokkrum árum. Þannig byrjaði bláberjarunnarækt á Sólvöllum. Bakvið mig á bekknum eru líka margir runnar sem einnig bera þessi stóru ber sem eru á stærð við sykurmola.
 
Við hliðina á bláberjabekknum er þetta beykitré sem ég gróðursetti árið 2007. Eiginlega var það svo stórt þegar ég flutti það út öðrum skógi á Sólvelli að það var varla hægt að kalla það stóra plöntu. En alla vega þá er það núna orðið tré sem er erfitt að mæla stærðina á. Það er nú alveg meira hvað beykin mín hafa vaxið. Ég veit hvers vegna, ég á mína leyniaðferð. Sú hollasta og besta sagði mér kona á garðyrkjustöð fyrir einum fimm árum. Svo hélt ég heim á leið aftur.
 
Á heimleiðinni varð mér litið á þær systur, eik og eik, sem gnæfa hæst á myndinni. Veturinn 2004-2005 voru þær mikið sargaðar af frekum greni- og reyniviðartrjám. Þá grisjuðum við Valdís í kringum þær. Þær hafa launað frelsið á svo ótrúlega ríkulegan hátt. Þær hafa fengið þetta fallega vaxtarlag og stækkað eitthvað svo með ólíkindum mikið og fengið gilda stofa. Eikur vaxa annars hægt. Nær á myndinni til hægri er birkitré sem hafði ekki einu sinni litið dagsins ljós þegar við grisjuðum kringum eikurnar. Þetta birkitré er nú að ganga fallega frá sér sem sambýlingur með eikunum og svo getur það vonandi gengið enn um árabil. Uppi í horninu til hægri sér í enn eina systur eik. Það var sama um hana að segja þegar við komum á Sólvelli. Það tók mig tvö ár að finna hana. Nú er hún stolt og stórt tré austur af miðju húsinu ásamt mörgum heldur minni eikarsystrum.
 
Mikið er notalegt og gaman að fara í svona morgungöngu á Sólvöllum. Væri ég búinn að vera iðjulaus og latur hér heima síðustu mánuðina mundi ég alls ekki hafa upplifað svona dýrðlega morgunstund. Ég verð djúpt hrærður af að skrifa þetta. Ég heyri að lífið er komið í fullan gang á þessum bæ og ég ætla að fara að taka þátt í því. Það er líka farið að líða nokkuð að hádegi.
 
Þetta er bara hluti af því sem rennur gegnum hugann á friðsælli morgungöngu í Sólvallaskógi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0