Kveðjustund

Dagarnir um þessar mundir eru þeir fegurstu sem sænskt sumar býður upp á. Heima er fólk í heimsókn en ér er í vinnu á laugardagskvöldi. Það er svolítið öfugsnúið en þannig fór það og ég hef engu um að kenna. Valgerður og Jónatan fara heim á morgun og við höfum reyndar haft góðar stundir saman þrátt fyrir að ég hafi verið of mikið að heiman. Þau fara heim á morgun nokkrum klukkutímum áður en ég kem heim frá vinnu.
 
Á ég ekki að baka brauð fyrir sameigilnlega morgunverð í fyrramálið? spurði Valgerður í gærkvöldi. Ég dró frekar úr því, taldi að það mundi draga allt á langinn og ég mundi koma of seint á vinnustað. Svo fór ég í sturtu klukkan átta í morgun og þegar ég kom þaðan sá ég að brauðið var þegar komið í bakarofninn. Svo var sameiginlegur morgunverður út á veröndinni skógarmegin við húsið. Allt var í tíma, morgunverðurinn rólegur og enginn asi á neinu. Síðan ók ég rólega í vinnuna í þessari líka einstöku blíðu.
 
Þær eru margar máltíðirnar sem borðaðar hafa verið úti í þessu frábæra veðri síðan fólkið kom á Sólvelli fyrir rúmlega viku, morgna, kvölds og um miðjan dag. Svona tímabil eru mikil verðmæti. Ég hef ekki gefið mér tíma til að draga mig undan og blogga en það hafa samt komið upp mörg tilefni til að gera það. Ég vona bara að ég komi til með að muna þessi tilefni og gera efni úr þeim. Myndirnar eru líka góður minnisbanki fyrir þetta.
 
 
Ég tók myndir af sameiginlega morgunverðinum í morgun en þær voru ekki vel teknar hjá mér. Þessi mynd er heldur ekki góð en hún er frá ríkulegum kvöldverði í gær. Svona veður er eiginlega ekki það besta fyrir myndatökukunnáttu mína og kannski ekki heldur fyrir myndavélina mína. Ég nota myndina samt. Hún er tekin vestan megin við húsið. Skógarmegin er hins vegar austan megin.
 
 
Hann nafni minn hreiðraði um sig á teppi með björgunarþyrluna sína og fleiri góð tæki meðan við hin borðuðum morgunverðinn. Einhvern vegin fellur mér þessi mynd vel þó að hann brosi ekki móti okkur við myndatökuna. Hann var afslappaður og rólegur þarna og sjálfum sér nógur með tækin sín.
 
 
Hér er önnur mynd frá í gærkvöldi. Pétur stóð upp á stól og tók myndir og Jónatan stóð út á túni með sína myndavél þegar ég kom með litlu myndavélina mína. Þeir tóku myndir af því sama, fallegum ljósbrigðum í átt að Kilsbergen. Ég bað Jónatan að færa sig nær Pétri og hann gerði það, kom nær Pétri og tók mynd af mér. Valgerður og Rósa fylgdust hljóðlátar með þssu dagskráratriði kvöldsins en Hannes var þá kominn inn að matarborðinu með ís í skál og undi sér þar.
 
 
 
 
Allt í einu kom rólegt kvöld í vinnunni og ég náði þremur korterum til að koma þessu bloggi saman. Ég er feginn því. Það ómar af kveðjustund í kollinum á mér. Það er ekki einu sinni öruggt að ég geti hringt heim í fyrramálið áður en Vestmannaeyingarnir fara. Þakka ykkur fyrir komnuna Valgerður mín og Jónatan og þakka ykkur fyrir að gista Bjarg og gefa bústaðnum þar sál. Bústaður fær varla sál fyrr en fólk fer að búa þar. Valgerður hefur gist Bjarg áður en þá var það ekki eins tilbúið til íveru og það er núna.
 
Hér með er tíminn sem ég hef fyrir mig liðinn að þessu sinni. Ég mun láta heyra í mér aftur áður en langt um líður.
.
 


Kommentarer
Björkin

Alltaf gott að lesa bloggin þín mágur minn.Kveðja úr rigningunni.Mesta regn í 100 ár segja spekingarnir.Krammmmmmmmm

2014-07-13 @ 16:00:48


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0