Það er stórkostleg gjöf

Ég sá á bloggi áðan að það er ein vika og þrír dagar síðan ég bloggaði um að við værum að vinna í viði. Fyrri partinn í dag vorum við líka að vinna í viði. Að vísu höfum við ekki verið að vinna í viði allan tímann síðan. Fimm daga hef ég verið í vinnu og einn rigningardag erum við búin að hafa. Svo hættum við stuttu eftir hádegi í dag til að skreppa til Örebro til að vera svolítið með í lífinu. Við fórum líka með kúfulla kerru af drasli í endurvinnslugámana í Örebro. Það er alltaf verið að hreinsa til á þessu stórbúi sem endalaust er hægt að skrifa um. En þið megið bara ekki segja frá því að við höfum farið á endurvinnsluna í Örebro því að við tilheyrum Fjugesta og þar er líka endurvinnslustöð. Ef einhver segir frá verðum við kannski skömmuð:-)


Vel með farinn viður er verðmætur og vel með farinn viður er góður til upphitunar og umhverfisvænn. En í svona viðarskýli líður viðnum auðvitað ekki vel. Það er náttúrlega skömm að því að sjá svona þak yfir verðmætunum og við urðum sammála um að þetta gæti ekki gengið lengur. Hann Kristinn dóttursonur sló þessu skýli saman hér um árið en ég annaðist þakið og notaði á það yfirbreiðslu sem fæst í byggingarvöruverslunum fyrir örlítinn pening. En eftir fjögurra eða fimm ára notkun er yfirbreiðslan auðvitað orðin gatslitin og heldur ekki vatni. Þessu verður auðvitað að bjarga allra næstu daga.


Hér er svo annað skýli sem er helmingi minna en jafn gamalt og þar er líka ónýt yfirbreiðsla fyrir þak. Burt með draslið. Valdís var byrjuð að rífa en þegar ég fór að rífa líka tók hún myndavélina og skjalfesti mig við vinnuna.


Svo þegar krossviðurinn var komin á þakið og ég búinn að slengja fyrstu tveimur þakpappalengjunum á þreif Valdís hamarinn og tók af mér pappasauminn og negldi. Var ég virkilega ekki ómissandi lengur!? Jæja, þá er bara að kyngja því.


En á fór nýja þakið og sjáið bara, það eru þakbrúnir sem standa 20 sm út fyrir skýlið og vernda viðinn betur fyrir regni og snjó. Í þessu skýli eru meðal annars afgangar af byggingarefni sem ekkert verður gert betra við en að nota til upphitunar. Bakvið skýlið er svo hengibjörkin sem við keyptum hjá honum Ingemar skrúðgarðameistara fyrir einum fimm árum. Hún hefur stækkað gríðarlega á þessu tímabili og er orðin minna tré. Ég tala ekkert um hvaða áburður hefur nært þetta tré en get þess þó að sá áburður er finnanlegur á hverju einasta heimili í heiminum og hugmyndin kom frá skrúðgarðameistara í Örebro. En aftur að þessu viðarskýli. Það er nú svolítið snubbótt eins og það lítur út þarna og það vitum við vel. Það verður séð við því.


Það á nefnilega að fá þetta útlit þegar það er fullbúið, vindskeiðar og fínt og rauður litur. Valdís ætlar að sjá um málninguna. Það kostar nokkur handtök að gera þetta en það er vel þess virði. Það er virðing fyrir umhverfi að gera þetta vel, virðing fyrir sjálfum sér og nágrönnum og bara hreinlega mikið skemmtilegra að umgangast eigur sínar ef þær líta vel út. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja að það sé virðing fyrir sköpunarverkinu, en alla vega þegar ég horfi á iðjagrænan skóginn fæ ég á tilfinninguna að draslhaugar undir skógarjaðrinum sé óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið.

Þetta skýli smíðaði ég fyrir einum þremur árum og Valdís málaði og í dag lítur það út eins og hún hafi málað það í gær. Að byggja ekki eitt hús og mikið stærra fyrir viðinn á sér skýringu. Ég vil hafa þessi skýli það lítil að það sé ekki hægt að kalla þau hús. Þá finnst meira rými fyrir aðrar byggingar með tilliti til byggingarreglugerðar.


Svo auðvitað verð ég að vera með á myndinni líka. Það vantar ekki montið og ég held stundum að ég sé bara 35 ára. Í þessu skýli er í fyrsta lagi reyniviður sem væri hægt að nota í vetur en við þurfum ekki að nota hann fyrr en þar næsta vetur.  Viðarbúskapurinn hjá okkur er nokkuð góður. Það sést vel á dökkum kjarnanum að þetta er reyniviður.


Ég byrjaði að tala um að við værum að vinna í viði og það eru ekki bara smíðar sem standa yfir. Nú erum við búin að ganga frá öllum viði sem við sóttum í skóginn. Þarna er Valdís byrjuð að kljúfa gólfbitana úr gamla húsinu sem við hentum út í vetur. Sumir þeirra voru sterkir og sumir þeirra voru bognir og sumir þeirra voru svona og sumir hinseginn. Jú, það fer nú best á því að nota þá til upphitunar.

Eins og ég sagði áður fórum við til Örebro eftir hádegið, fórum með rusl og svo keyptum við nauðsynlega hluti. Valdís fór í matvörurnar en ég í byggingarvörurnar. Þar á meðal keyptum við krossviðinn í þakið á viðarskýlinu sem ég sýndi á fyrstu myndinni. Það skal fá andlitslyftingu líka og þak sem dugir. Engin vetlingatök á Sólvöllum. Eftir innkaupin í Örebro hittum við fólk sem mætir á vikulegum fundum í Lekebergskirkju í Fjugesta á miðvikudagskvöldum til að tala um lífið af fullri alvöru og þeim sem gera það af samviskusemi vegnar vel í lífinu.


Svo er hér að lokum frábær mynd af hálfgerðu skýfalli í glampandi sólskini. Rigninguna má vel greina þarna á tveimur stöðum úti við skóginn þar sem sólargeislarnir sluppu best niður. Á grasflötinni má svo sjá skuggana frá trjánum sem sýna svo ekki verður um villst að það var sólskin í rigningunni. Við höfum verið að vinna þarna bakvið og í kringum rauða húsið og það er allt í drasli. Að horfa á þá náttúrufegurð sem myndin sýnir og svo draslið kringum rauða húsið staðfestir það sem ég sagði áður að það er óvirðing við stórkostlegt sköpunarverkið að láta draslið ráða ríkjum við skógarjaðarinn. Við erum langt komin með að bjarga þessu við.

Í byrjun sagði ég að það væri ein vika og þrír dagar síðan ég hefði bloggað um viðarvinnuna hér á Sólvöllum. Núna er það ein vika og fjórir dagar. Klukkan hefur rúllað yfir miðnættið og gott betur. Óli Lokbrá er farinn að kasta sandi í augun á mér og ég veit vel að ég ætti að vera sofnaður fyrir góðri stundu. En það er eins og þetta bloggandi mitt megi ekki hafa neinn tíma og þá verður það oft miðnættið sem ræður ríkjum þegar ég er hálfnaður að pikka á tölvuna. Ég þarf að taka á þessu máli.

Kunnugleg kvöldkyrrðin liggur yfir sveitinni og það er að sjá svarta myrkur úti. Ég heyri að Valdís á í einhverjum erfiðleikum með svefninn fyrir aftan mig. Kannski er það svo að Óli getur ekki sinnt henni þar sem hann er að fá mig til að fara að leggja mig. Ég er á leiðinni. Ef að vanda lætur verða farin að heyrast svefnhljóð í mér áður en ég næ almennilega að leggjast á koddann. Það er stórkostleg gjöf.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0