Viðardagur og góðviðrisdagur

Í dag höfum við verið að vinna við nokkuð sem á að gera á allt öðrum árstíma. Við vorum að flytja heim við úr skóginum sem við felldum fyrir laufgun í vor, kljúfa og raða í hjalla. Þetta er nokkuð sem á að gera að vetrarlagi og á vorin en þegar fólk er að byggja hús fer það ekki að bardúsa við að kljúfa og raða upp eldiviði þegar gólfið kannski vantar í hluta af húsinu sem búið er í.

Hann heitir Håkan fyrrverandi vinnufélagi minn sem kenndi mér það mesta sem ég veit um eldivið. Hann sagði að veturinn og vorið væri tími fyrir eldiviðarvinnslu en ef það vri ekki hægt einhverra ástæðna vegna gerði maður það þegar tími gæfist fyrir það og svo gerum við nú. Sá viður sem við erum að ganga frá núna er viðurinn sem við ætlum að nota til upphitunnar veturinn 2012-13.


Við erum með ákveðna verkaskiptingu í þessari vinnu og það er ég sem sæki stubbana, legg þá á borðið hjá Valdísi og síðan er það hennar verk að kljúfa.


Síðan líð ég af þeirri hugmynd að ég verði að raða upp viðnum, annars velti stæðurnar. Hahaha. Góður. Ég er að vísu ekki að raða við á mydinni, ég er að undirbúa. Ég er nefnilega að hreinsa gamalt lauf undan grindinni sem viðnum er raðað á og það geri ég til að óboðnir gestir búi ekki í laufhrúgu sem er aldeilis við hnén á mér.

-------------------------------



En það er fleira að upplifa á Sólvöllum á góðviðrisdegi sem þessum í dag en eldiviðarhaugar. Stóra Sólvallaeikin er í essinu sínu, þetta rúmlega 100 ára gamla tré, en þar sem það er eik eru 100 ár bara unglingsárin hennar ef miðað er við lífshlaup manneskju.


Plómutréð er farið að sligast af því að bera uppi plómuklasana. Reyndar er ég búinn að setja stoð undir eina greinina. Annars væri hún fallin af trénu fyrir einhverjum dögum.


Svo var ég í þann veginn að taka mynd af húsinu þegsar Valdís kom í dyrnar og spurði hvort ég væri ekki að koma í mat. Jú, ég var alveg að koma í mat en ætlaði samt að taka nokkrar myndir fyrst. Annars er Valdís orðinn aðal ljósmyndarinn á bænum. Það er af sem áður var þegar ég var altekinn af ljósmyndadellunni, einni af mínum mörgu dellum, og hélt að bara ég gæti tekið skammlausar myndir. Við unnum bæði í viðnum en það var Valdís sem annaðist matargerðina.


Og nú húsið aftur í aðeins meiri fjarlægð. Það sést vel á grasflötinni að það er heitt og þurrt. Svo eru líka nokkrar bjarkir hægra megin við myndina, drykkfelldar bjarkir sem sjúga upp allt vatn sem annar gróðiur annars mundi njóta af. Eitt sinn spurði ég garðyrkjumeistara hvaða tré ætti að gróðursetja á svona stað eins og þarna vestan við húsið og ég lýsti fyrir honum malarkambi, trúlega gömlum sjávarkambi. Hann var hugsi um stund og svaraði svo að það mætti eiginlega gróðursetja þar allt annað en bjarkir. Svo eru þar nokkrar stórar bjarkir og það er ekki svo ljúft að ráðast á þær og saga niður.


Hér má sjá nokkrar þessara bjarka bjarkir og þarna eru tvær sem eru farnar að gulna. Ef það verða núna nokkrir rigningadagar eins og spáð er, þá munu þær aftur verða grænar og safaríkar.


Hér er svo að lokum Sólvallahúsið séð úr brekkunni vestan við húsið. Deginum er lokið og samvera með Óla Lokbrá er að bresta á.


Kommentarer
Þórlaug

Mikið er gaman að lesa um lífið ykkar í sveitinni :-)



Bestu kveðjur úr Kópavoginum,



Þórlaug

2011-08-07 @ 00:08:55
Guðjón

Þakka þér fyrir Þórlaug, það var gaman að heyra. Lífið í sveitinni er einfalt og án stórbrotinna krafna og við gefum okkur tíma til að lifa því.



Með bestu kveðju til ykkar hjóna frá Valdísi og Guðjóni

2011-08-07 @ 23:56:52
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0