Ullin

Nú ætla ég að ræða svolítið margnefnda skerjagarðsferð sem við Valdís fórum í á mánudaginn var. Málið er að það eru farnar ferðir með jöfnu millibili vítt og breytt frá þessu landi sem er stefnt á ólíka staði í Stokkhólmi eða nágrenni, en þessar ferðir hafa þó allar eitt ákveðið markmið, það er að stoppa á stað í Stokkhólmi sem heitir Solvalla (Sólvellir) og er kappreiðastaður mikill. Það eru kynntar ákveðnar ullarvörur og tekið við pöntunum ef einhverjar eru, en eftir þá kynningu er svo farið á ýmsa aðra staði og í þessari ferð var farið út í skerjagarðinn út af Stokkhólmi.

Aðalinnihald allra þessara ullarkynninga er kynning á ullarrúmfötum sem eiga að hafa marga einstaka eiginleika. Þau eiga að halda jöfnum hita á fólki alla nóttina, góðri loftræstingu í rúminu, að vera hreinleg, þurfa ekki sængurver, koddaver eða lök og smáverur sem geta þrifist í venjulegum rúmfötum eiga ekki að geta þrifist í ullarrúmfötunum að sögn framleiðenda. Síðasta atriðið er af vísindunum talið mjög vafasamt. Almennt eiga þessi rúmföt að gefa vellíðan og góða heilsu og ef heilsan er léleg að gefa betri líðan. Því er alls ekki haldið fram að þau lækni. Þau endast með ólíkindum vel og það vitum við Valdís frá fólki sem hefur átt þau milli 10 og 15 ár.

Ekki ætla ég að fara nákvæmar út í þetta en geta þess að ullin sem notuð er í þessi rúmföt kemur frá Nýja-Sjálandi og heitir merinoull. Sölumaðurinn sem kynnti vörurnar fannst mér mátulega leiðinlegur en hann virtist þó hafa góða þekkingu á ýmsu sem alla vega ég gat engan veginn hrakið og það gerði heldur enginn annarra viðstaddra. Voru þó margir þeirra búnir að vera all oft á svona kynningu áður. Hann talaði mikið um ullina sjálfa og framleiðsluna. Eiginleikar ullarinnar virtust með ólikindum sérstakir og góðir og lofsöngur mannins um þetta virtist engan enda ætla að taka. Svo auðvitað í annarri hverri setningu kom hann því að að þetta væri hrein náttúruafurð.

Meðan hann talaði um þetta varð mér hugsað til kennslustundanna hjá Kristjönu frá Sólheimum í barnaskólanum á sláturhúsloftinu á Klaustri. Þar lærðum við að íslenska ullin ætti sér engan líka í víðri veröld, eiginleikar hennar og gæði væru ofar öðru sem þekktist. Ég man ekki betur en þessu hafi verið haldið fram alla tíð síðan, eða þar til við fluttum til Svíþjóðar. Þá fjarlægðumst við fullvissuna um bestu ull í heimi.

Ég fór á Google áðan og sló inn orðunum"tog og þel". Þar sá ég að hinn 55 ára fróðleikur Kristjönu um íslensku ullina er í fullu gildi enn í dag. Ég átti líka von á því og þess vegna varð mér hugsað til þess hvað eftir annað meðan á kynningunni stóð hvers vegna þessi sölumaður nefndi ekki þessa einstöku ull sem yxi á íslensku sauðkindinni. Ég auðvitað vissi það, að það væri vegna þessa að enginn hefði komið því á framfæri við hann eða fyrirtækið sem hann vinnur fyrir.

Ég verð að viðurkenna að mér var hugsað til þess hvort fátt eitt og lítið sé gert við íslensku ullina sem skapar virkileg verðmæti, og þá segi ég virkileg verðmæti. Ég veit að mamma prjónaði mikið af peysum á tímabili og fékk nokkurn pening fyrir. Svo veit ég að margir aðrir hafa gert og ýmislegt annað hefur fólk framleitt úr ull. En nú kem ég loksins að því sem ég ætla mér að segja.

Ég pantaði svona rúmföt handa okkur Valdísi og þó að verðinu ætli ég bara að halda fyrir sjálfan mig get ég þó sagt að verðið á þessum rúmfötum á sér ekkert skylt við lopapeysur. Ef allri íslenskri ull yrði breytt í slík verðmæti, þá yrði um einhverja óútreiknanlega miljarða króna að ræða. Rúmfötin eru jú seld sem lúxusvara og þá yfir raunverulegu kostnaðarverði. Það hlýtur að vera hægt að gera svoleiðis líka með dýrmætustu ull í heimi -eða hvað? Ég fann mig bara hafa þörf fyrir að koma þessu á framfæri en ég er enginn uppfinningamaður og hef sjálfur enga lausn. Svo kannski vita Íslendingar allt um þessa marinoull og eiga svona rúmföt líka og þá er þetta bull mitt bara broslegt.

Bullið bara broslegt já. Það var nú ýmislegt broslegt við þessi kaup mín. Eftir kynninguna var matur og ég utan við mig yfir því hvað ég ætti að gera. Ég vissi hug Valdísar en vissi líka að hún þorði ekki einu sinni að nefna kaup. Við höfðum talað um þetta áður og ég hafði oft heyrt um þessi rúmföt. Eftir matinn fót ég aftur upp í kynningarsalinn til að hitta sölumanninn. Þar var þá biðröð en þetta gekk hratt fyrir sig og þegar ég komst að hitti ég á einhvern hátt allt öðruvísi mann þó að það væri sá sami og hafði kynninguna. Við gengum frá kaupunum og svo hélt ferðalagið áfram út í skerjagarð.

Öðru hvoru allan daginn var það að koma upp í huga mér hvort ég hefði verið að henda heil miklum peningum á glæ. Svo þegar við loks komum heim var ég of þreyttur til að geta velt því fyrir mér. Um nóttina vaknaði ég upp og fannst ég hafa hlaupið á mig. Daginn eftir las ég mig til á Google um atriði sem sölumaðurinn hafði talað um. Komst ég þá að því að vísindin voru ekki samþykk öllu sem hann hafði sagt og um hluta af öðru sem hann hafði sagt fann ég engar vísindalegar umsagnir. Hann hafði heldur ekki haldið neinu slíku fram.

Mér líkaði þetta ekki og vildi ekki láta sölumanninn hafa síðasta orðið alveg svona ókeypis. Ég hringdi því í hann og heyrði á öllu að hann var þá heima hjá sér með hlaupandi börn í kringum sig. Svo sagði ég honum frá því sem ég hefði komist að. Viðbrögð hans voru yfirveguð og hann var alls ekki þessi leiðinlegi kjaftaskur sem hann hafði verið á kynningunni daginn áður. Það lá við að mér fyndist sem ég hefði lækkað verðið á vörunni með þessu samtali en svo var þó ekki. Ég var bara sáttari við sjálfan mig fyrir að hafa látið manninn heyra að ég gæti komið einhverri vitneskju á framfæri sem hann hafði sniðgengið daginn áður.

Að lokum: Ef hægt væri að koma allri íslenskri ull í sama verð og hér um ræðir væri það sjálfsagt á við mjög stóra álverksmiðju og gæti að auki sparað einn og annan virkjunarmöguleika til fólksins sem á að byggja Ísland í framtíðinni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0