Úlfur! úlfur!

Það var hérna fyrir nokkrum vikum að ég var að vinna í nýju forstofunni þegar ég sá út undan mér dýr fara framhjá húsinu, í aðeins fimm metra fjarlægð eða svo frá aðalinnganginum. Refur! hugsaði ég, svona nálægt. Nálægt hafði ég séð þá áður en aldrei svona nálægt. Svo horfði ég á eftir refnum og fannst hann skrýtinn. Refir hafa fínan pels en þessi var ein hvern veginn misjafnlega úfinn og það var eins og hann væri farinn úr hárunum á blettum og annars staðar ekki. Hann gekk líka mikið þunglammalegar en refur. Liturinn passaði ekki heldur. En refur var það, það bara hlaut að vera. Úlfur, nei, það bara gat ekki verið úlfur. Svo þegar hann var kominn eina 50 metra suður fyrir húsið fór hann yfir grjótgarðinn sem liggur meðfram veginum og þar hvarf hann. Hann hoppaði ekki yfir garðinn, hann gekk yfir garðinn.

Næstu dagana kom þetta upp í huga mér af og til og ég hugsaði sem svo að ef ég talaði um þetta við nágrannana mundu þeir telja að ekki væri allt með felldu í kollinum á mér. Að lokum nefndi ég þetta við ungu nágrannana hérna sunnan við en það samtal bar engan árangur og þeim fannst ekki einu sinni skrýtið að ég hefði jafnvel haldið að hér hefði verið úlfur á ferð.

Um miðjan dag í dag hringdi ég í hann Arnold bónda og spurði hann hvort hann væri til í að líta hér við ef hann ætti leið framhjá. Hvað viltu? spurði hann, og ég sagði að mig vantaði ráðgjafa. Ég vildi ganga með honum að nokkrum trjám og tala um þau við hann. Er í lagi að koma klukkan sex, spurði Arnold, og ég sagði svo vera. Svo kom hann klukkan sex og við gengum út í skóg. Hann hafði mikið gaman að þessu og reyndur skógarbóndinn vissi alveg hvað hann var að tala um. Fjögur tré, miðlungsstór og mjög stór, voru dæmd til að falla næsta vetur. Það verður ekki einfalt að fella þau því að þau geta öll valdið skaða ef illa tekst til. Því bauðst Arnold til að koma og hjálpa mér. Hringdu til mín og minntu mig á þetta í vetur þegar það passar og mundu líka að merkja trén svo að við þekkjum þau í vetur. Það voru hans lokaorð eftir hringferðina. Að merkja þau er mikilvægt því að það er mikill mundur á að skoða skóginn með þetta fyrir augum eftir því hvort það er sumar eða vetur.

Svo fórum við inn og Valdís kveikti á kaffikönnunni og kom með pönnukökurnar sem hún bakaði í gær. Svo kom hún líka með rabbarbarasultu. Arnold lék við hvern sinn fingur og fannst pönnukökurnar með rabbarbarasultu reglulega góðar sem þær líka voru. Hann skoðaði húsið og gaf því góða einkunn. Svo töluðum við um ferðalög fyrir ellilífeyrisþega, kóra, íslenska fótboltamenn og konur í Örebro og margt fleira. Allt í einu spurði Arnold hvort við hefðum heyrt um úlfinn. Nei, það höfðum við ekki. Svo sagði hann okkur frá litlum úlfi sem hefði látið sjá sig við ein þrjú tilfelli hér aldeilis í nágrenninu.

Jahá! svo að það var þá úlfur eftir allt saman. Svo sagði ég honum frá þessu dýri sem ég hefði kallað ref án þess að trúa því. Ég hef nú vissan grun um að ef Íslendingarnir hefðu verið fyrstir til að tala um úlf hér í Nalaví hefði það hljómað undarlega í eyrum margra. Það er nefnilega ekki vitað til þess að úlfar hafi verið hér í nágrenninu að minnsta kosti í mjög marga áratugi. Ekki get ég sagt að mér finnist það neitt spennandi þar sem það mun hafa áhrif á dýralíf. Í eitt skiptið sem þessi úlfur sást hér var hann nefnilega á harða hlaupum á eftir dádýrskiði. En það er ákveðið að úlfar verði hluti af lífríki þessa lands.

--------------------------------------------------------------


Konan þarna á myndinni, fiskimannsdóttirin frá Hrísey, mátar mig dag eftir dag. Í gær greip hún hamarinn og pappasaumspakkann öðru sinni á nokkrum dögum og negldi þakpappann á skýlið þarna. Það var annað skýlið sem fékk nýtt þak hjá okkur á jafn mörgum dögum. Svo bað hún mig að fara með sig til Fjugesta og skyldum við vera þar klukkan hálf tíu í morgun. Hún er að ganga í "Að hafa það gott kórinn" á svæðinu. Kórinn byrjar að vísu ekki fyrr en 1. september en hún hitti alla vega einn af verðandi kórfélögum í morgun. Hún stendur sig vel þessi kona.


Þessi maður er hins vega ekki í neinum kór. Hann bara klæjar í nefið, það fer ekki milli mála. Varðandi þessi viðarskýli má ég til með að segja frá því að hann Jorma ellilífeyrisþegi og vinnufélagi minn kom í heimsókn í morgun. Hann var þá á leið heim til sín til Karlskoga frá vinnu í Vornesi. Hann stoppaði hjá þessum viðarskýlum og sagði að hér væri nú skotið yfir markið. Svona þyrfti ekki að vanda til viðarskýla. En auðvitað, ef þú hefur gaman af þessu þá er það allt í lagi.

Ég hef skrifað tugi eða öllu heldur hundruð síðna um það hvernig við Valdís höfum byggt lítið einbýlishús á Sólvöllum. Núna er ég farinn að skrifa síðu eftir síðu um lítil viðarskýli á Sólvöllum. Hvað gengur að mér? Já, það var góð spurning. Ef ég segi alveg eins og er sé ég þetta sem lítillæti og nægjusemi. Dyggð er ríkidómur og er undirstaða lífsgæða og að sofa vel á nóttunni.


Kommentarer
Rósa

Hvað er að heyra, úlfur! Þið búið bara á Skansen.



Kveðja,



R

2011-08-18 @ 22:20:43
Guðjón

Já, eða næstum því, birnirnir eru ekki komnir ennþá:-)

2011-08-18 @ 23:22:19
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0