Spýtukall og viðarkelling

Ólafur Kárason Ljósvíkingur var ekki duglegur við að bjarga sér þó að hann fengi einstaka sinnum greitt fyrir ástarljóð, erfiljóð eða ljóð um gæsku kaupmannsins. En hann fékk enga greiðslu þegar hann stal taðköggli til að ylja sér á, heldur fékk hann mikla sneypu fyrir. Við Valdís viljum vera sjálfstætt fólk og hluti af því er að eiga í eldinn þegar vetur konungur gengur í garð. Hluti af þeim eldiviði sem við erum búin að koma undir þak er ekki til komandi vetrar, heldur til vetrarins þar á eftir. Þá verður viðurinn góður og fyllir ekki skorsteininn með tjöru og óþverra. En hann vill brenna hratt og þá er að tempra loftið inn í kamínuna. Við erum búin að læra eitt og annað nýtt sem tilheyrir lífinu hér og þetta með við er vísdómur út af fyrir sig. Vika 33 var viðarvika á Sólvöllum.


Viðarkljúfurinn er tækið sem tilheyrir Valdísi. Þessi einfalda vél suðar hljóðlega og lætur lítið yfir sér en er þeim mun öflugri og það eru mun stærri kubbar sem Valdís er búin að leggja að velli í tækinu en þessi þarna. Þó má reikna með að þessi kubbur geti haldið þokkalega hlýju upp undir hálfan dag á miðlungsköldum vetrardegi á Sólvöllum.


Svo sótti Valdís í sig veðrið og vildu nú prófa keðjusögina líka. Mér fannst auðvitað að hún ætlaði að vinna af mér ný lönd og varð var um mig. Þó mátti ég til með að taka af henni mynd og það var ekki að spyrja að því að þessi gamli gólfbiti úr gamla Sólvallahúsinu varð eins og brauð í höndunum á henni. Svo þegar hún var búin að ljúka þessu sagarfari sagðist hún ekki ætla að saga meira. Viðarkljúfurinn tiheyrði henni en sögin mér. Þá auðvitað létti mér og ég þurfti ekki að óttast um völd mín yfir þessu mikilvirka tæki.

Rósa sá þessa mynd á Flickr um daginn og hún var fljót að sjá að mamma hennar hafði ekki hjálm, ekki löggilta hanska og hún var viss um að hún væri ekki í viðeigandi buxum og stígvélum. Það var alveg rétt. Að vísu má segja að eitt sagarfar er eins hættulegt og hvert og eitt sagarfar af hundrað þegar þau verða svo mörg. Að vinna með eldivið á þessum árstíma gerir það að verkum að það er eiginlega útilokað að vera í viðeigandi fötum þar sem manni verður allt of heitt, verður hreinlega lamaður af hita.


Ég ákveð það sem mitt verk að stafla. Ég held því fram að það sé vandasamt og ef ekki er vel raðað velti stæðurnar. Það liggur mikið í því en nú skal ég samt gera stóra játningu, ég er svo bljúgur í kvöld. Ég raða viðnum vegna þess að mér finnst það svo "rosalega gaman" að ég bara get ekki horft á neinn annan gera það sér til ánægju. Hana nú, þá er það á hreinu. Það eru gömlu gólfbitarnir sem ég er að raða þarna og þeir eiga að verða stór hluti af eldiviði komandi vetrar. Þess vegna fá þeir inni í alvöru húsi, enda búnir að vera í þurrki í 44 ár. Ég veit ekki hvort allir átta sig á því að viður þornar mjög vel að vetri til í frostum því að þá er rakastig loftsins lágt. Vor og haust er lélegur þurrkunartími


Það er mesti munur þegar maður sem vinnur svo "vandasamt" verkefni getur farið að standa í lappirnar. Þessi stæða náði vel hæð minni. Hér með er ég búinn að gera viðarvinnu á Sólvöllum mikil skil að undanförnu.


Ég læt svo vel af öllu á Sólvöllum og segi að allt sé svo gaman. Ég verð þó að viðurkenna að þetta verkefni var mér engin tilhlökkun. Sandsían sem tekur við frárennslinu frá rotþrónni losar sig ekki við vatnið eins og hún á að gera og ég er hræddur við að láta vetur koma án þess að fá það í lag. Ég gróf því rannsóknarholur og hélt að málið mundi skýrast með því, en ég varð engu nær. Svo fór að rigna og ég lauk greftinum í regngalla sem var alls ekki sem verst. Ráðviltur rölti ég inn og tók upp símann. Ég hringdi í hann Arne sem gekk frá frárennslinu árið 2006 og það hefur virkað hversu vel sem helst þar til nú að eitthvað er að byrja að stríða okkur. Arne er nú ellilífeyrisþegi síðan nokkur ár til baka og ég ætlaði ekki að krefjast neins af honum, heldur að fá ráð.

Þekkirðu mig, spurði ég Arne þegar við höfðum heilsast. Hann hló þá við og sagðist líka hafa elst eins og ég en svo gamall sagðist hann ekki vera að hann þekkti mig ekki. Mér fannst það góð byrjun. Svo bar ég upp erindið og Arne sagði að þetta ætti bara að virka og hann skyldi koma þegar hann væri búinn að vera viku í sumarhúsi niður í Halland og líta á vandamálið. Svo fljótt gekk þetta. Ég þyrfti líka að útvega mér mjög litla gröfu til að létta verkið talaði ég um. Já, já, svaraði Arne, hafðu ekki áhyggjur af því, ég annst það. Mikið leið mér nú vel eftir þetta samtal og mér fannst Arne vera svo góður kall, sem hann og er.


Þurrt hefur sumarið verið en ekki með afbrigðum þurrt. En eins og ég sagði gróf ég í regngalla í fyrradag, föstudag. Við eigum engan regnmæli um þessar mundir en um daginn færði Valdís mér ut vatn að drekka. Glasið varð eftir úti og stóð úti í rigningunni undir trjákrónu. Í því mældust 53 mm. Ég geri því ráð fyrir að það hafi rignt yfir 53 mm sem ekki var vanþörf á. Vatnið sem safnaðist í tilraunaholurnar mínar þornaði daginn eftir. Það eru margar bjarkir hér úti og þær eru drykkfelldar. Þar að auki eru mörg önnur tré sem auðvitað voru þyrst. 53 mm vera því ekki lengi að ganga upp í þessa trjástofna sem sjóða af lífi eins og Karin Boje sagði fyrir 70 árum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0