Í Stokkhólmi

Hvað gerir maður um helgi í Stokkhólmi? Það er svo undarlegt að það þarf ekki að vera svo mikil dagskrá. Við fórum um þessa helgi, 26. til 28. ágúst, til að hitta Rósu og fjölskyldu. Við spjölluðum saman, lékum okkur við Hannes, skruppum í bæinn, komum heim til þeirra aftur og vorum meira saman. Þannig leið helgin og þetta var vel heppnuð ferð til Stokkhólms.


Auðvitað er um að gera að leika sér svolítið og endurnýja kynnin og það er að sjá að það gangi ágætlega. Ég að vísu puðraði svo mikið og lengi að ég var farinn að dofna í andlitinu. En samkomulagið var skínandi og bílarnir í fínasta lagi.




Svo var að fljúgast svolítið á við mömmu og svo að vera góður við hana.


Þegar við fórum út tók amma á sig mikla ábyrgð, var vagnstjóri og drengurinn sofnaði.




Svo var ábyrgð ömmu enn meiri þegar Rósa og Pétur fóru í Hemtex að leita að einhverju sem vantaði og amma var ein með drenginn í mannhafinu í Sergilsgötunni rétt hjá Sergilstorgi. Amma situr þarna aðeins til hægri við miðja mynd og heldur í vagninn. Vagninum skal hún ekki sleppa.


Svo komu Rósa og Pétur út úr Hemtex sem er þarna til hægri og skima eftir ömmu og dreng. Nú sjáum við Sergilsgötuna í hina áttina og það er sama mannhafið þar líka. Ég gleymdi að spyrja þau að hverju þau voru að hlæja, en ég tók eftir því þegar ég tók myndina að þau fóru skyndilega að skellihlæja.


Þarna hafa þau fundið það sem þau leituðu að, ömmu og drenginn. Eitt er hallærislegt á þessari mynd, maður að reykja í mannhafinu í glampandi sól og hita.


Þarna koma þau niður Kungsgatan Rósa og Pétur -og sjáum nú til, þarna er Valdís lika lengst til hægri á myndinni. Hún er ennþá með kerruna. Það er fullt af fólki í Kungsgatan líka enda blíðviðri, laugardagur og borgað út í gær.


Ég var búinn að vera á hlaupum með myndavélina og þarna stilltum við okkur upp á bekknum nafnarnir. Takið bara eftir; við erum ekki aldeilis kæruleysislegir á svipinn. Ég er svo sem ekki vanur að dylja mig á bakvið sólgleraugu en svo varð það þó á þessari mynd.


Á leikvelli einum fundum við bát og þeir feðgarnir skruppu í smá sjóferð. Pabbi stendur við stýrið en Hannes stígur ölduna.




Eftir svona útiveru er mikið gott að borða og melónur eru nú heldur betur svalandi. Það er líka auðvelt að borða þær þegar búið er að festa hendur á þeim.


Svo er að atast aðeins í afa áður en hann fer. Pota í hann með skrýtnu dýri og afi næstum veltur af stólnum.


Ég verð nú að viðurkenna að þó að við værum harðánægð með ferðina þegar við lögðum af stað frá Stokkhólmi um hádegisbilið í dag, þá sé ég þegar ég er að eiga við þessar myndir að ferin var mikið ríkulegri en ég áttaði mig á. Það eru sjálfsagt einar 50 eða 60 myndir aðrar sem hægt hefði verið að nota. Valdís er líka búin að setja slatta af myndum á Flipper þar sem hægt er að skoða þær. Við þökkum kærlega fyrir okkur Stokkhólmsbúar.

Á morgun er virkur dagur hér á Sólvöllum. Grasið æddi upp um helgina þannig að Valdís verður á fullri ferð með sláttuvélina, penslar verða á lofti en nú með hvítum lit. Lífið gengur sinn vana gang eftir þessa helgarferð og við sjáum svo til hvaða tilbreytingu við veljum okkur næst.


Kommentarer
Valgerður

Þið hafið átt góða helgi saman, það er gott. Hér slöppuðum við af og tókum stöðu á skólum sem farnir eru af stað og Guðdís ákvað breytngar og framkvæmdir í herberginu sínu.

KV

Valgerður

2011-08-29 @ 10:12:05
Guðjón

Já, helgin var góð án þess að við reyndum að gera hana stórbrotna. Mér líst vel á breytingar og framkvæmdir í herberginu hennar Guðdísar. Ég horfði á mynd af henni í gær og var að hugsa um að nota hana en það en það var nú best að nota hana eina sér..



Kveðja, til ykkar allra,



pabbi

2011-08-29 @ 10:40:04
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0