Hvenær?

Ég sat í símastólnum heima í Sólvallagötu 3 í Hrísey í septemberdag 1993 og talaði við Ingólf Margeirsson. Það var þegar hann hringdi og spurði mig hvort ég vildi prófa að fara til Svíþjóðar og vinna þar. Valdís kom innan eftir ganginum og þegar spurningin hafði gengið inn í höfuðið á mér sagði ég við hana hvað Ingólfur hafði sagt við mig. Hún hristi ekki höfuðið og hún sagði ekki nei og hún gekk ekki einu sinni þegjandi að einhverju verki sem þurfti að koma frá. Það var eiginlega á því andartaki sem ákvörðunin var endanlega tekinn af okkar hálfu. Svo skrýtið var það.


Ég hugsaði akkúrat þetta ofansagða þegar ég tók þessa mynd og af tilviljun tók ég myndina á augnablikinu þegar smellurinn kom sem gjarnan heyrist þegar stór viðarkubbur brestur á viðarkljúfnum. Hvenær tók hún ákvörðun um að vera þátttakandi í landnámsferð til annars lands ef færi gæfist hugsaði ég svo í framhaldi af þessu og tók einar tvær myndir til viðbótar. Það var nú oft svo að Valdís anaði ekki að hlutunum ef taka þurfti ákvörðun um eitthvað mikilvægt og þessi ákvörðun var engin smá ákvörðun.


Hún er allt of sakleysisleg á svipinn þarna þar sem hún heldur á Valgerði í Kelahúsinu í Hrísey til að það sé hægt að láta sér detta í hug að þessar hugleiðingar hafi verið farnar að bæra á sér innra með henni. Lífið gekk þá út á að sjá sér farborða og ég get ekki minnst þess að hugmyndaflugið hafi verið svo mikið á ferð í öðrum löndum.


Þegar verið er að bauka eins og við höfum verið að gera í gær og í dag og veðrið leikur við hvern sinn fingur er alveg sérstaklega notalegt að láta hugann reika. Og ekki síst þegar ég er að raða eldiviðarkubbum af alveg einstakri sérvisku og nýt þess að láta framhliðina vera rétta nánast upp á millimeter. Þessar hugleiðingar um lífshlaupið gengu gegnum kollinn á mér af og til í dag þegar vel stóð á og voru eitthvað á þá leið sem að ofan getur. Mér meira að segja datt í hug ákveðin mynd af Valdísi, en það var ekki myndin af henni með Valgerði á arminum, það var mynd af henni einni, mynd sem ég rakst svo ekki á áðan þegar ég var að leitaði að myndunum sem ég notaði í blogg kvöldsins.


Þetta er trúlofunarmynd segir Valdís og þegar hún segir það kannast ég við að svo er og jakkinn sem ég er í, lánsjakki, hjálpar mér til að komast að þeirri niðurstöðu. Það komst lítið annað að hjá mér á þessum tíma annað en að vera ábyrgur heimilisfaðir og drauminn um að verða læknir hafði ég látið svífa burt með vindunum einum þremur árum áður. Sá draumur hófst þegar ég horfði á Esra lækni taka burt illa farinn litlafingurinn með töng á matarborðinu á Kálfafelli og læknisdrauminn bar ég í brjósti mér næstu tíu árin. Sá draumur er stór kapítuli út af fyrir sig, draumur sem ekki varð að veruleika.


Þessa mynd tók Mats Wibe Lund af Kálfafelli 1987 og ég tók mynd af myndinni rétt áðan. Mörgum árum áður var húsakostur og allar aðstæður á Kálfafelli mikið öðru vísi en myndin sýnir og þá stóð ég eitt sinn austan við bæjarhúsið á miðri mynd, hægra megin, smá snáði, og horfði til Öræfajökuls. Þá var pabbi hættur sem póstur yfir Skeiðarársand og ferðir yfir sandinn fátíðar. Aldrei á ég eftir að koma þangað hugsaði ég. Ímyndunarafl mitt hreinlega náði ekki lengra á þeirri stundu en af einhverri ástæðu hef ég munað eftir þessu öll ár síðan. Þetta hlýtur að hafa verið áður en læknisdraumurinn fæddist.

En hvað sem öllum vangaveltum líður er það staðreynd að Valdís er hérna og það var hún sem steikti lambakótiletturnar eftir að hafa klofið við meiri hluta dagsins. Á meðan fór ég með hjólbörurnar út í skóg til að sækja meira. Svo var veisla.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0