Milli Örebro og Fjugesta

Við höfum verið spurð eftir því hvar Sólvellir eru. Því er einfaldast að svara á þann hátt að þeir séu mitt á milli Örebro og Fjugesta, svolítið sunnan við beina línu, og Fjugesta er suðvestan við Örebro. Þetta segir kannski ósköp lítið fyrir þá sem ekki þekkja til. En þá get ég líka sagt að frá Sólvöllum til Marieberg, í suðvesturkantinum af Örebro, eru 15 km. Marieberg er verslunarhverfi með um eða yfir 200 verslanir og það er þess vegna sem ég kalla það oft höfuðstöðvar Mamons í Örebro. Við getum sem sagt fengið það mesta í Marieberg þegar okkur vantar eitthvað á Sólvöllum og ef okkur finnst ekki svo vera er kannski orðið tímabært að fara til læknis. Frá Sólvöllum til Fjugesta, sem er höfuðstöðvar Lekebergshrepps, eru einnig 15 km.

Síðan það var ákveðið að við flyttum hingað og sérstaklega eftir að við fluttum hefur orðið breyting á fólki í nágrenninu. Áður heilsuðu flestir sem fóru framhjá yfir grjótvegginn ef við vorum útanhúss og voru ósköp kurteisir. Núna kallar fólk kveðjur sínar á löngu færi og óskar okkur velkomin og segir að það sé mikið gaman að við viljum búa hér. Svo stoppar fólk á veginum framan við húsið og spjallar. Nágrannarnir eru nefnilega duglegir við gönguferðir og segja að útsýnið hér á þessum slóðum sé fallegast frá okkur séð. Það svo sem vitum við en það er líka gaman að heyra fólk segja það.

Þessi sígilda mynd móti Kilsbergen
Það er þetta útsýni sem átt er við að sé fallegast. Það er svolítið erfitt að ná góðri mynd af því, það þarf eiginlega að draga það svolítið að til að sjá hvernig það raunverulega er.


Hér er svo sumarmynd af þessu útsýni, mynd sem ég er oft búinn að setja á bloggið, og hér er myndin dregin all mikið að. Hér þarf að fara vel með og láta þessa opnun ekki fyllast af skógi því að þá hættir fólk að nenna að ganga hingað uppeftir til að njóta þess og þá kannski fækkar hollum gönguferðum. Eitt sinn þegar Arnold bóndi var að grisja í skóginum til hægri fór ég til hans og spurði hvort ég mætti ekki fella fimm eða sex tré sem voru farin að takmarka opið. Jú, það mátti ég gjarnan gera og hann tók því svo vel að ég spurði þá hvort ég mætti ekki líka fella þessi tvö sem eru í miðju opinu. En þá gekk ég of langt og Arnold sagði nei. Hann hefur kannski búist við að ég gengi endalaust á lagið. En alla vega, trén sem ég mátti fella felldi ég, hreinsaði af þeim greinarnar og dró þær inn í skógin og svo hirti Arnold viðinn. Svo var um það samið og þannig fór það fram. Í vor þarf ég að semja við hann upp á nýtt um tvö tré sem eru farin að skyggja á frá vinstri og það kemur nú til með að ganga upp. Ég veit líka að syni hans og tengdadóttur sem búa hér í næst næsta húsi við okkur þykir þessi útsýnispunktur ekki mega hverfa.

Íbúarnir hér í nágrenninu eru glaðir yfir að við viljum búa í þeirra sveit en íbúarnir við Mejramvägen sögðust ekki vera glaðir yfir að við færum. Svona er lífið. Hér heima á Sólvöllum er nú nokkurn vegin búið að koma hlutum fyrir. Heimilið er farið að líta vel út. Mér datt ekki í hug að Valdís ætti alla þá orku sem hún er búin að leggja í þessa vinnu en hún er ekki af baki dottin fiskimannsdóttirin frá Hrísey. Um hádegi í dag leggjum við af stað til Uppsala. Hann nafni minn verður sex mánaða um helgina og ég hugsa kannski að það verði veisla. Ég stoppa þar í fáeina daga en Valdís eitthvað lengur. Ég fer svo heim til að vinna að smá atriðum sem eru eftir varðandi viðbyggingarnar tvær. Það er merkilegt hvað síðustu smáatriðin eru tímafrek. Svo vinn ég líka nokkrar nætur í Vornesi næstu tvær vikurnar og fæ þá fyrir svolitlu salti í grautinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0