Mikið verður gott að koma heim

Í morgun um hádegi fórum við Valdís til banka í Örebro þar sem endanlega var gengið frá sölu á bústaðsrétaríbúðinni sem við höfum átt í ellefu ár. Það var hálfgert stórhríðarveður á leiðinni og vegirnir sem höfðu verið ruddir fyrr um morguninn voru leiðinlegir yfirferðar og verulegrar aðgæslu var þörf.

Það eru ung hjón með tæplega ársgamla stúlku sem keyptu af okkur. Þau skoðuðu íbúðina fyrst um miðjan desember en á meðan sátum við Valdís á kaffihúsi í miðbæ Örebro og drukkum kaffi og átum tertu með. Daginn eftir byrjuðu að berast tilboð í íbúðina frá tveimur fjölskyldum og stóð nú yfir hið trylltasta tímabil í nákvæmlega tvo sólarhringa. Þessar fjölskyldur hækkuðu verðið jafnt og þétt þangað til önnur fjölskyldan hækkaði verðið mikið í 21. tilboðinu sem barst og þar með gafst hin upp. Við fengum þessi tilboð í sms jafn óðum og þau bárust. Konurnar í báðum fjölskyldunum sem buðu í heita Martina sem er að því ég best veit frekar sjaldgæft nafn í Svíþjóð.

Tveimur dögum seinna kom fasteignasalinn með þessi hjón heim til okkar í gömlu íbúðina til að skrifa undir kaupsamning og þá hittumst við í fyrsta skipti. Mikið voru þau spennt og skemmtilega spennt verð ég að segja. Þau fengu að kíkja inn í skápa, inn í geymslur og ganga fram og til baka, eiginlega að æfa sig aðeins að hreyfa sig þarna. Valdís bauð þeim upp á kaffi og brúntertu sem hún var búin að baka í tilefni jólanna. Maðurinn, Emil, hló mikið og lék á alls oddi en konan, Martina, var heldur lágværari í gleði sinni. Hún sagði að þegar hún kom á skoðunardaginn hefði það bara sagt klikk þegar hún hafði stigið upp úr efstu tröppunni, þetta væri hennar rétta framtíðarheimili. Hún stóð nú í eldhúsinu eftir undirskrift kaupsamningsins og strauk með fingurgómunum eftir harðplastinu á eldhúsbekknum og bað svo Emil að koma. Þegar hann var kominn upp að hlið hennar hvíslaði hún að honum að svona hefði henni alltaf sótt svo fallegt. Já, það var mikil hamingja.

Eftir viðskiptin þarna í bankanum ætluðu þau að sækja dótturina í pössun, setja nokkra kassa af búslóð í bílinn og flýta sér svo í nýju íbúðina sína til að skoða hana alein. Og hvað þau hlökkuðu til, það var hreinlega stórkostlegt. Við Valdís fórum hins vegar í IKEA til að kaupa smávegis hingað á Sólvelli og fengum okkur kaffi á eftir. Vegna þess að Valdís hafði IKEA kort fengum við kaffi og vel með því á 20 krónur. Það var svolítið gaman hjá okkur líka.

Eftir fjögurra tíma dvöl í Örebro héldum við af stað heim til Sólvalla og þá var bæði veðrátta og veglag svipað og það hafði verið um hádegisbilið. Þegar við vorum komin svo sem hálfa leið varð Valdísi að orði: Mikið verður gott að koma heim og kveikja upp í kamínunni. Ég hafði ekki haft nein áhrif á þetta, það bara kom svona líka eðlilega, en mikið var ég feginn að hún sagði það, að hún hlakkaði að koma heim til Sólvalla.

Við erum nú búin að endurskipuleggja fjármál okkar hressilega og stöndum mjög vel að vígi. Við stöndum svo vel að vígi að íslensk fjármál skipta okkur ekki lengur svo miklu máli. Þar með skýrist hvers vegna ég hafði þörf fyrir að blogga um allt annað efni í blogginu fyrr í kvöld. Ég ætla síðan að reyna að láta íslenskar fréttir ekki skipta mig miklu máli héðan eftir. Mér leiðist að þessi tvö mál skyldu blandast saman í bloggum dagsins. Það er kannski óþarfi að segja svo mikið frá eigin högum sem ég geri, en svona hlutir eru okkur engin leyndarmál. Við eigum yfir höfuð lítið af leyndarmálum.


Eftir hádegi á morgun kemur til okkar smiður sem við höfum ráðið til að byggja frekar við Sólvelli. Hann er búinn að koma einu sinni til að athuga aðstæður og á morgun ætlum við að fara í gegnum það aftur.


Happy bwoy in stroller by pinkhaddock
Unga manninn sem við sjáum á þessum tveimur myndum ætlum við svo að heimsækja um helgina. Mikið er gott að við erum svo langt komin með flutninginn að við getum tekið okkur tíma til þess. Við höfum ekki hitt hann í meira en mánuð. Við heimsækjum líka foreldra hans í leiðinni.

Grocery shopping. by pinkhaddock


Kommentarer
Þóra H Björgvinsdóttir

Til hamingju með þetta allt kæru hjón og megi gæfan fylgja ykkur áfram um ókomna tíð og haltu áfram að blogga um ykkar mál það er gaman að lesa þessi skrif og fylgjast með ykkur hjónunum

kveðja Þóra

2010-03-01 @ 21:51:04
Þórlaug

Grunaði mig ekki, Sólvellir eru HEIM. Þeir eru lengi búnir að vera heim. Ég held að þið verðið mest þar þó að þið kannski kaupið ykkur aðra íbúð í bænum.

Ekki breyta blogginu þínu, við hérna á klakanum njótum þess að fylgjast með því.

Nú hlýtur vorið alveg að fara að koma, múkkinn er byrjaður að setjast upp.



Kærar kveðjur til ykkar,

Þórlaug

2010-03-01 @ 22:36:07
Guðjón Björnsson

Þakka ykkur fyrir kæru konur. Já, vorið kemur að lokum og það verður afar gaman að fylgjast með því. Það er hreinlega ófært út í skóginn til að athuga hvernig beyki og fleiri góðum vinum vegnar þarna inni í fönninni og myrkviðinu. Myrkviði segi ég vegna þess að snjór á greinum byrgir mjög fyrir sýni þangað inn. Heima er best.



Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni

2010-03-01 @ 23:36:05
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0