Orðinn gleyminn eða hvað?

Fyrir nokkrum dögum fengum við e-póst frá henni Súsönnu í Falun. Súsanna er fæseysk, hún er hjúkrunarfræðingur og við unnum saman upp í Svartnesi í Dölunum á árdögum okkar Valdísar í Svíþjóð. Hún dvaldi um tíma á íslandi undir lok síðustu aldar og talar nánast reiprennandi íslensku. Hún á líka móðursystkini í Keflavík, Reykjavík og Ólafsvík. Kynni ég Súsönnu þá ekki frekar en sný mér að e-póstinum frá henni. Þetta er frásögn af manni sem ætlar að framkvæma mjög ákveðinn hlut að morgni og svo var hann önnum kafinn allan daginn en þegar dagur var að kvöldi kominn hafði honum ekki tekist að framkvæma eitt einasta gagnlegt handtak.

Mér finnst sem ég hafi verið líkur þessum manni í dag en ég get þó fullyrt að mér hefur tekist að framkvæma örlítið. En sem dæmi um mótlæti mitt í dag get ég nefnt leit að tommustokk, hamri, handföngum á skáp, skrúfjárni, skrúfum og fleiru. Það versta hefur verið að ég hef haft þessa hluti í höndunum og lagt þá nákvæmlega þar sem ég ætla að nota þá en sá þá svo ekki þegar til átti að taka. Svo kom Valdís stundum og sagði einfaldlega; nú þetta er hérna. Það síðasta var þegar ég ætlaði að hlaða myndum frá myndavélinni og inn á tölvuna. Ég tók snúruna sem notuð er við það og lagði hana á nákvæmlega þar sem ég mundi finna hana. Svo hagræddi ég tölvunni og síðan myndavélinni og svo ætlaði ég að taka snúruna en fann hana alls ekki. Ég var búinn að snúa stólnum í hring og kíkja bakvið tölvuna, undir borðið og stólinn en ekkert hjálpaði. Ég ákvað því að standa upp til að fá betri yfirsýn. Þá datt snúran af hnjánum á mér niður á gólfið. Get ég bara sagt frá svona löguðu?

Valdís var í Örebro í dag hittust þær vinkonurnar sem borða saman einu sinni í mánuði. Þegar ég sótti hana komum við við í okkar gömlu íbúð til að sækja póst sem okkur hafði borist þangað. Gekk ég þá fram hjá hurðinni að bílskúrnum sem við höfðum. Þá hugsaði ég til nokkurs sem skeði fyrir tíu til tólf árum. Ég týndi lyklinum að bílskúrnum sem við leigðum þá og varð ég að fara til leigufyrirtækisins til að fá nýjan lykil. Var ég þá á einu andartaki dæmdur til að borga nýjan lykil og einnig nýja læsingu þar sem hugsanlegt var talið að einhver illa innrættur maður hefði nú lykilinn undir höndum. Svo fékk ég reikning um næstu mánaðamót upp á 750 krónur. Þá varð ég svo nýskur að það ískraði í peningapúkanum í mér. Áður en ég borgaði reikningana fór ég út að bílskúr og athugaði hvort búið væri að skipta um læsingu og svo var ei. Ég borgaði því ekki nefndan reikning og fékk áminningu. Ekki var skipt um lás og ég þráaðist. Svo fluttum við úr þessu bæjarhverfi og enn önnur áminning barst. Þá fór ég á skrifstofu fyrirtækisins og sagðist ekki borga reikninginn fyrr en ég vissi að búiið væri að skipta um lás. Mér var tjáð að það væri allt í lagi og svo liðu um tvö ár. Á þeim tíma kom ég stundum að bílskúrshurðinni og til að athuga hvernig gengi.

Eitt sinn kom ég þangað í dimmu að kvöldi og þurfti að beygja mig niður að læsingunni til að sjá hana almennilega og sá ég að gamla læsingin var þar enn í góðu gildi. Þegar ég rétti úr mér og sneri mér við stóð þar maður með lykil í hendinni og beið þess að þessi undarlegi maður sem var með nefið upp í bílskúrslæsingunni hans færi burtu. Mér brá en datt ekki í hug að bara smjúga í burtu. Ég sagði manninum að ég hefði eitt sinn haft þennan skúr en vildi alls ekki segja honum að lykill að skúrnum væri jafnvel á faralds fæti. Hann sagði að fullum tank af bensíni hefði nýlega verið stolið frá sér og þá hefði hann ákveðið að leigja þennan skúr. Svo spjölluðum við svolítið. Allt í einu spurði hann frá hvaða landi ég kæmi. Frá Íslandi svaraði ég. Þá getum við bara talað íslensku sagði hann. Hann hafði búið í Svíþjóð í 19 ár.

Eftir um það bil tvö ár frá því að lykillinn týndist sá ég að það var búið að skipta um læsingu. Engan hafði ég fengið reikninginn. Þarna sjáið þið, það getur borgað sig að vera svolítil kjaftfor og láta ekki kúga sig, hugsaði ég. Ég var harð ánægður með mig. Nokkrum vikum seinna kom bréf frá gamla húsaleigufyrirtækinu. Í því var reikningur upp á 750 krónur og 340 krónur í vexti. Ég stein hélt kjafti, borgaði reikninginn og gortaði ekki yfir viðskiptahæfileikum mínum.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0