Gott hús

Ég bloggaði í fyrri viku undir fyrirsögninni Zxcvbnsdfghyuiolö (þessi skrýtna fyrirsögn á sér skýringar), meðal annars um heimsókn Anders smiðs sem kom til að funda með okkur um viðbyggingu á Sólvöllum. Nú er það svo að í dag er Sólvallabyggingin þannig samansett að 40 ferm er bygging frá 1967 og rúmlega 33 ferm er nýbyggt af okkur Valdísi. Áður en við byrjuðum að tala um viðbyggingu vildi ég fá álit Anders á gamla hlutanum. Sama mat reyndi ég að leggja á gamla hlutann áður en við byrjuðum á því sem við höfum þegar byggt við, en þá var ég einsamall um að dæma. Þá styrkti ég gamla hlutann mikið, þá helst með því að bæta mörgum stöplum undir húsið. Anders taldi engin vandkvæði á að byggja við, gamli hlutinn stæði vel fyrir sínu, enda á líka að gera vissar endurbætur á honum. Ég var ánægður með álit hans þar sem ég vil engan veikan hlekk hafa í húsinu okkar

En þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég spyr aðra álits á húsinu. Í fyrrasumar var annar smiður á ferðinni í Örebroléni og hann kom frá íslandi. Það var Björgvin Pálsson frá Hrísey. Við höfðum verið á einhverju flakki einn daginn og skömmu eftir að við komum til Sólvalla frá því flakki spurði ég Björgvin hvort hann vildi ekki leggja sig. Hann þvertók fyrir það en ég sagðist samt ætla að sækja teppi út í bíl. Svo kom ég ákveðinn með teppið til baka frá bílnum og ekki veit ég hvað Björgvin hugsaði þá, en þegar ég slengdi því á jörðina bak við húsið og bað hann að gefa álit sitt á gólfviðum hússins var hann til í það.


Hér berum við okkur til sem vísir menn og leggjum dóm á það mikilvægasta í byggingunni, undirstöðurnar. Mikið hló hún Annelie hjúkrunarfræðingur í Vornesi hjartanlega þegar hún sá þessa mynd. Þetta er í fína lagi var dómur Björgvins.


En ég verð líka að sýna aðra mynd af okkur. Hér erum við Björgvin ásamt Magnúsi Magnússyni að skoða tréflísalagða kirkju sem er komin vel til ára sinna. Þarna er ég með staf en svoleiðis hjálpartæki er ég nú búinn að kasta veg allrar veraldar eftir að ég fékk títanliðinn í mjöðmina.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0