Rautt, hvítt og blátt

Ég er armæðunnar maður í dag! Við keyptum nýtt sjónvarp og ég, nei við bæði, erum búin að eyða fleiri tímum af lífi okkar í að koma því í gang en skjárinn bara glottir grárri stórhríð og segir að það sé ekkert loftnet virkt. Þá tókum við loftnetið og settum í gamla tækið og þar var það virkt. Aftur í nýja tækið með loftnetið og gráa stórhríðarglottið hélt bara áfram. Nú erum við búin að leggja þessa tæknivinnu á hilluna og við bíðum til morguns. Þá ætlar hann Lars granni að koma, en hann segist vera seigur við að fá þessi flóknu tæki til að virka. Hann er líka skurðgröfu- og þungavinnuvélastjóri og sú reynsla hlýtur að virka betur við fingerða rafeindatæknina en brennivínsráðgjafareynslan. Satt best að segja er það nú aldursmunurinn sem gerir hann hæfari.

Ég finn allt í einu að ég vil lýsa því þegar tveir ellilífeyrisþegar koma í nokkur hundruð fermetra verslun þar sem kannski upp undir hundrað sjónvarpstæki flökkta á veggjunum og sýna skarpar myndir sem flökta jafnt og þétt sem veldur því að ellilífeyrisþegarnir finna fyrir svima og eiga erfitt með að festa fókus á herlegheitin. Ég nota zxcvbnm sem tákn fyrir það sem ellilífeyrisþegarnir ekki skilja.

Ellilífeyrisþegarnir ganga varlega inn í verslunina og að þeim enda af stórum vegg þar sem heldur minni sjónvarpstækin eru. Konan les á miða og segir: Það er þetta tæki. Svo standa þau bæði framan við tækið og þykir það fínt. Það var dóttir þeirra og tengdasonur sem höfðu ráðlagt tegund og týpunúmer. Konan bíður framan við tækið meðan maðurinn fer og leitar eftir aðstoð. Eftir einhverjar mínútur kemur Ibrahim, dökkhærður, líflegur maður um þrítugt, afar grannur og mjög vingjarnlegur og býður fram aðstoð sína. Þegar við erum búin að lýsa áhuga okkar fyrir þessu tæki og við spyrjum eftir eiginleikum þess svarar Ibrahim: Þetta tæki er sérstaklega zxcvbnm og ellilífeyrisþegarnir eru engu nær og spyrja hvað það þýði. Ibrahim svarar að það þýði zxcvbnm og ellilífeyrisþegarnir eru engu nær með það heldur. Ibrahim er svo vingjarnlegur og virðist vilja svo vel að það er ekkert annað að gera en bara trúa á það sem hann segir. Hann meira að segja útvegar ellilífeyrisþegunum kort á verslunina sem gefur afslátt. Svo spyr hann hvort ellilífeyrisþegarnir vilji hafa zxcvbnm eða zxcvbnm og þeir skilja það ekki og spyrja hvað það þýði. Ibrahim svarar að það þýði zxcvbnm.

Þetta lætur kannski fáránlega en ekki var það alveg ólíkt þessu þegar við Valdís vorum í versluninni í dag. Hvað þýðir til dæmis "HDMI IN 1(DVI)" þegar það er sagt hratt, eða Plug & Play einnig sagt hratt. Þetta eru kannski öfgafull dæmi en málið er bara það að fólk sem gæti verið barnabörnin okkar og hefur alla þessa nýjustu þekkingu talar bara alls ekki sama mál og við -og við ekki heldur þeirra. En eitt er víst að Ibrahim vildi hjálpa okkur. Hann átti greinilega ættir sínar að rekja til annars lands eins og við Valdís, en hann hafði líka greinilega aðlagað sig mjög vel að sænskum háttum eins og við viljum líka meina að við höfum gert.

Ég finn vel að ég hef haft gott af að skrifa þetta eftir mæðu dagsins. Ég bloggaði líka á sænska blogginu mínu áðan og ég finn ekki lengur fyrir því að athafnir dagsins hafi ekki allar gengið eftir. Valdís horfir á kóra keppa í söng og ég heyri kórsönginn álengdar. Hún ætlaði að horfa á það í nýja tækinu en nú líkar henni bara vel við gamla tækið. Það virkar alla vega. Á morgun munum við líkast til setjast hlið við hlið og horfa á nýja skerminn fullan af lífi og litum og tikka fram og til baka milli þeirra rúmlega 30 rása sem við líklega eigum kost á.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0