Á kaffihúsi með Hannesi Guðjóni

Ég hef verið að lofa því að vorið sé framundan, alla vega að það komi líka vor á þessu ári eins og á liðnum árum. Við fórum út að ganga í dag og það var krap víða enda var hitinn fimm stig skömmu áður en við fórum út. Veðurfræðingurinn sagði í sjónvarpinu áðan að það mundi snjóa á næstunni og að hiti yrði undir frostmarki. Samt sem áður er spáð yfir 20 stigum minna frosti en þegar það var mest og mun minna frosti en í fyrri viku. Sama segir norsk spá sem við lítum oft á og nær marga daga fram í tímann. Frostið fer minnkandi frá einni viku til annarrar -og reyndar, núna rétt fyrir klukkan átta að kvöldi þess 8. mars er fjögurra til fimm stiga hiti. Ég vissi þetta alltaf að það færi hlýnandi! Í fyrradag bloggaði ég bæði á íslensku og sænsku og í íslenska blogginu sagðist ég mundi fara að rölta út í skóg eftir mánuð og á því sænska eftir þrjár vikur.

Ég las grein um Ísland í Dagens Nyheter í dag. Þar var talað um að Íslendingar mundu eiga eftir að ganga í gegnum mikla timburmenn á næstunni. Það eru fleiri blöð og fleiri lönd sem tala um þetta. Ég hef ekki orðið var við alla þessa breyttu og jákvæðu umræðu erlendis um málsstað Íslendinga sem talað er um á Íslandi og ég vil bara segja að nú þurfa íslendingar að leggja sundurlyndisfjandann og pólitíska ofsatrú til hliðar og sýna hver öðrum nýtt andlit, bæði almenningur og stjórnmálamenn, ekki bara stjórnmálamenn. Og hana nú!

Svo að mýkri málum aftur. Á morgun fer ég heim með viðkomu í Stokkhólmi en Valdís verður eftir í hlutverki ömmu. Ég þarf að smíða á Sólvöllum næstu daga, eftir því sem vinna leyfir, og einnig að undirbúa viðbyggingu. Það er að segja að skila inn teikningum og umsókn um byggingarleyfi með meiru. Svo þarf ég að gefa okkar svöngu, fjórfættu nágrönnum svolítið matarkyns og kannski fáum við þá að sjá þessa styggu nágranna oftar í sumar.

Svo verð ég bara að kjafta frá svolitlu. Það er mánudagskvöld en það var samt veislukvöldmatur. Auðvitað er það einkamál hvað er í kvöldmat en það þarf ekki endilega að vera leyndarmál. Við vorum fimm Íslendingar hér í kvöldmat. Íslendingurinn Elísabet Eir var nefnilega í kvöldmat líka. Hún er búin að búa í Svíþjóð í meira en 20 ár og kennir stundum í háskólanum með Pétri. Og nú ljóstra ég upp hvað við borðuðum. Það var íslenskt lambalæri. Við Valdís sem borðum mikið af lambakjöti sem ekki kemur frá Íslandi getum staðfest að íslenska kjötið er hreint alveg frábært. Ég vil bara koma frá þessu á framfæri.

Við Rósa og Valdís fórum með honum Hannesi Guðjóni á kaffihús í dag.

Hannes fær að borða á kaffihúsi hjá ömmu sinni


Hannesi líkar vel á kaffihúsi


Hvernig ætli þetta sé á bragðið sem mamma er að borða


Hvað er fólkið að gera þarna frammi? Voða mikið fólk


Við erum vinir, mamma og ég.

Ef pílan er sett á myndirnar kemur upp texti og ég læt þann texta nægja. Klukkan er ellefu að kvöldi og það er kyrrt í íbúðinni og að því er virðist í öllu húsinu. Við Rósa verðum samferða til Stokkhólms á morgun og við ætlum að færa henni Ullu vinkonu Rósu og Péturs við í kamínuna, en þessi viður er í bílnum. Svo verður Rósa eftir í Stokkhólmi þar sem hún ætlar að kenna á morgun í háskólanum þar hún hefur sjálf verið nemandi. Ég fer hins vegar áfram suður úr Stokkhólmi og þaðan áfram heim til Sólvalla.


Kommentarer
Valgerður

Á mynd númer þrjú þar sem Rósa er að mata Hannes þar er hann alveg eins og Guðdís. Ég ætla að reyna að finna mynd og skanna og senda ykkur því þetta er bara sniðugt.

VG

2010-03-10 @ 11:48:05
Anonym

Þau eru líka skyld. Sendu myndina.



Kveðja,



GB

2010-03-11 @ 00:24:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0