Það kemur grænt undan snjónum

Átta tímar urðu það í nótt utan minnstu truflana en ég man þó eftir því að ég rumskaði einhvern tíma þegar ég velti mér í rúminu. Síðan mumlaði ég eitthvað fyrir sjálfan mig áður en ég sveif inn í draumalandið á ný. Ég byrjaði svo á því að sparsla smávegis áður en ég borðaði morgunverð þar sem sparslið hefur þennan eiginleikann að þurfa tíma til að þorna áður an það er slípað og önnur vinna getur haldið áfram. Svo leit ég á fimm daga spána á textavarpinu. Þar bar alveg nýtt fyrir augu. Í dag og næstu fjóra dagana er spáð eins til fimm stiga hita. Slík vogun hefur ekki sést á skjánum síðan um mánaðamótin nóvember-desember. Ég fann fyrir alveg sérstökum ljósum geisla innra með mér, geisla sem heitir gleði, og ég fékk það staðfest einu sinni enn að ég er vor og sumarmaður. Og hver er ekki það? Síðan leit ég á norsku spána í tölvunni, spána sem hefur meira að segja spá fyrir litla Nalavi í Krekklingesókn, en þegar við horfum út um vesturgluggann horfum við yfir húsin í Nalavi í hálfs kílómeters fjarlægð. Norðmennirnir spáðu nákvæmlega sama veðri og þeir sænsku.

Síðan gekk ég að vesturglugganum og leit einmitt yfir Nalavi móti Kilsbergen. Yfir öllu landi lá þessi jafna djúpa snjóþekja sem heldur jörðinni ófrosinni. Það var merkilegt að hugsa til þess að þarna undir öllum þessum miljónum tonna af snjó er undirbúningurinn að vorinu hafinn. Ég hef nýlega sagt í bloggi að gömlu mennirnir sátu tíðum yfir kaffibolla og neftóbaki og töluðu um að það kæmi grænt undan sköflunum. Ég held að þeir hafi sagt þetta ár eftir ár en alltaf eins og það væri nýtt fyrir þeim. Hér kemur hins vegar grænt undan snjóbreiðunni við slóðirnar sem ég mokaði fyrr í vetur.

Eftir vesturgluggann gekk ég að austurglugganum móti skóginum og sama saga þar. Snjóþekjan lá svo langt inn í skóginn sem séð varð. Ég mundi gjarnan vilja fara út í skóginn og handfjatla svolítið greinaenda og skoða brum en færðin bara leyfir það ekki. Sparslvinnu, veðurathugunum og reyndar nokkrum símtölum var lokið og klukkan orðin ellefu. Þá var morgunverður. Ég held næstum að ég hafi borðað yfir mig.


Þessi mynd er frá því rétt fyrir miðjan janúar.

Það er komið kvöld og ég hef náð að minnka svolítið innansleikjurnar sem urðu eftir í september þegar ég fór í mjaðmaaðgerðina. Þá lögðust nokkur atriði á ís og svo þegar vikur og mánuðir líða er eins og þessir hlutir hverfi og verði ekki eins mikilvægir. En ég vil ekki láta slyðruorðið um smiðina sannast á mig, að þeir ljúki aldrei við innansleikjurnar heima hjá sjálfum sér. Og sannleikurinn er sá að það verður þvílík breyting hér heima þegar ég kem þessu í verk að það verður held ég á mörkunum að Valdís þekki aftur þetta hús þegar hún kemur til baka frá Uppsala. Nú dýfði ég dálítið hressilega djúpt í árinni.

Klukkan er rúmlega hálf tíu og það er mál fyrir mig að fara að bursta og pissa og einu sinni enn ætla ég að bæta eldivið í kamínuna áður en ég legg mig. Ég er ekki alveg búinn að ná því að hvílast eftir langa vinnutörn í Vornesi um helgina og í gær. Það er gott að blanda saman svona ólíkum hlutum, vinnunni þar og smíðunum hér heima. Og til að fá svolitla útiveru í dag bar ég inn eldivið til næstu daga.


Þessi mynd er frá Vornesi og hún er frá miðjum janúar eins og myndin hér fyrir ofan af Sólvöllum. Umhverfið í Vornesi hefur í marga áratugi, ef ekki hátt í eina öld, verið ræktað og hirt af umhyggju eins og skrúðgarður. Myndin ber þess greinileg merki. Þetta er líka markmiðið á Sólvöllum en við Valdís verðum orðin ansi hvíthærð þegar við náum þessum árangri.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0