Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá

Jæja, þá er að komast í gang á ný. Ég veit ekki betur en ég eigi góða frídaga framundan eftir býsna mikla vinnu í Vornesi og svo vinnu við innansleikjurnar hér heima. Ég fór til Uppsala á mánudaginn var og dvaldi hjá honum nafna mínum og fjölskyldu hans í einn sólarhring. Á þriðjudag fórum við Valdís svo heim og það var ekki að sökum að spyrja; Valdís tók til hendinni hér heima og allt gerbreyttist. Smíðavinnan mín fór ekki að njóta sín fyrr en hún var búin að fara höndum um hlutina líka. Eftir að hafa unnið einn sólarhring í Vornesi eftir að Valdís kom heim þekkti ég mig varla hér innan húss.

Áhuginn á veðrinu hefur ekki yfirgefið mig og má geta þess að það hefur verið að mestu frostlaust í marga daga. Snjórinn er ekki svipur hjá sjón og um helgina mun ég bregða mér í stígvél og ganga út í skóg. Það verður öðru vísi ferð en ég hafði áður hugsað mér. Það er nefnilega svo að þó að ég hafi bloggað svo fínt um okkar fjórfættu nágranna og borið óspart í þá matinn þá hafa þeir ekki að sama skapi verið okkur náðugir. Þeir eru nefnilega búnir að éta börkinn af þeim ávaxtatrjám sem við höfum gróðursett á síðustu árum. Þegar búið er að éta börkinn allan hringinn er trénu ekki við bjargandi. Það eru hérarnir sem hér eru að verki. Þeir eru líka búnir að éta börkinn af nokkrum hlynum sem við gróðursettum við lóðamörkin að veginum fyrir þremur árum.

Við vorum búin að setja naghlífar á ávaxtatrén eins hátt upp eftir stofninum og hægt var en það dugði ekki til. Þegar snjórinn var orðinn nægilega djúpur náðu þeir upp fyrir hlífarnar og þótti lífið þá nokkuð gott í öllu fæðuleysinu. Mikið af dýrum eru búin að líða fyrir snjóinn, ekki kuldann, heldur snjóinn sem lokar fyrir alla venjulega fæðuöflun. Svo eru önnur dýr sem hafa bara haft það gott undir snjónum og notið skjólsins. Það er misjafnt okkar dýranna bölið. Fyrsta ferð ársins út í skóg verður því mest til að athuga skaða á yngstu trjánum þar. Síðan verður tekin ákvörðun um nýtt átak í ávaxtatrjáamálum. Við vorum alveg grandalaus fyrir þessu en það er kannski huggun harmi gegn að svona snjóalög koma ekki nema nokkrum sinnum á öld og því þarf væntanlega ekki að óttast svona lagað á næstunni. Eldri tré fá að vera í friði.

Ekki skal gráta Björn bónda.

Ég ætlaði að birta myndir frá Uppsalaferðinni en tölvan er svo ógurlega hægfara í kvöld að ég verð að gefast upp á því. Hins vegar var ég áður búinn að spara mynd frá Kristni dóttursyni og ég ætla að birta þá mynd og vendi ég nú kvæði mínu í kross. Við fylgjumst með eldgosi og ég verð nú bara að segja að verði þetta gos ekki öflugara en það er núna í dag þann 25. mars, þá var ekki hægt fyrir Íslendinga að fá betri gjöf í öllu Icesaveruglinu. Nú eru mikið betri hlutir að tala um og einbeita sér að.

Kristinn Jónatansson tók þessa mynd af Eyjafjallajökli frá Heimaey 25. mars 2010
Þetta er virkilega falleg mynd greinilega tekin um dimmumótin. Norðurljós, eldur, jökull og haf. Fánalitirnir eru þarna allir í þeirri mynd sem hugsuð var þegar fánalitirnir voru valdir á árum áður. Ég var líka búinn að nota fleiri myndir sem Kristinn tók einum degi á undan þessari, en þær eru á sænska blogginu mínu www.gudjon.blogg.se/svenska

Að svo búnu er háttatími hér á sveitabænum, alla vega þegar ég er búinn að kíkja aðeins á íslenskar fréttir kvöldsins. Valdís er að horfa á skautadans sem er virkilega falleg íþróttagrein.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0